FERÐAPISTILL Hreinasta land í heimi! MRÆÐAN um fyrirhugaða byggingu álvers á Grundartanga er um margt mjög athyglisverð. Fyrir það fyrsta er greinilegt að umhverfishyggja og staða umhverfismála á Íslandi skipar æ mikilvægari sess í hugum Íslendinga.

FERÐAPISTILL Hreinasta land í heimi!

MRÆÐAN um fyrirhugaða byggingu álvers á Grundartanga er um margt mjög athyglisverð. Fyrir það fyrsta er greinilegt að umhverfishyggja og staða umhverfismála á Íslandi skipar æ mikilvægari sess í hugum Íslendinga. En auk þess er sjáanleg aukin krafa almennings um þátttöku við mikilvægar ákvarðatökur er snerta land og þjóð. "Ísland - hreinasta land í heimi" hefur oft borið á góma í umræðunni, mikilvægi ferðaþjónustu og landbúnaðar einnig og fyrirsjáanlegir árekstrar þessara atvinnugreina við stóriðju. Það er mjög gott að að andstæðingar álversins tengi umræðuna við uppbyggingu annarra atvinnugreina, en á sama tíma undarlegt hvað lítið heyrist frá fulltrúum þessara sömu atvinnugreina s.s. ferðaþjónustu og landbúnaðar.

Einangrun atvinnugreina

Spyrja má hvort ferðaþjónustan eigi að skipta sér að málefnum annarra atvinnugreina svo sem stóriðju? Og á móti, á landbúnaður að skipta sér af stóriðju, á landbúnaður að hafa skoðanir á uppbyggingu ferðaþjónustu, á ferðaþjónusta að stefna að því að starfa með landbúnaði, sjávarútvegi eða jafnvel stóriðju? Svarið við öllum þessum spurningum hlýtur að vera já. Í litlu landi eins og Íslandi skiptir það að sjálfsögðu máli að uppbygging atvinnulífsins sé heildstæð og að hver höndin sé ekki upp á móti annarri. En sú hefur oft verið raunin og á það hefur verið bent í fjölmörgum skýrslum, athugasemdum forsvarsmanna atvinnugreina og stjórnmálamanna.

Þegar rætt hefur verið um frábær tækifæri landbúnaðar á sviði lífrænnar ræktunar er bent á jákvæð tengsl við ferðaþjónustu og settar fram háleitar hugmyndir um lífrænt Ísland. Í stefnumótun samgönguráðherra í ferðamálum sem kynnt var fyrir nokkrum misserum var stefnan enn sett á umhverfismál, verndun Íslands og sjálfbæra nýtingu auðlinda landsins í þágu ferðaþjónustu. Það virðist hinsvegar kemur að orkuvinnslu, virkjunum og stóriðju sem þessi háleitu markmið gleymist sem og mikilvægi góðra tengsla milli atvinnugreina. Skammtímasjónarmið stjórnmálamanna ráða þá ríkjum og forsvarsmenn hinna ýmsu atvinnugreina landsins fylgja þeim eftir. Það sama er uppi á teningnum þegar rætt er um að hefja hvalveiðar að nýju. Möguleg áhrif þess á ferðaþjónustu eru lítillega rædd af fréttamönnum fjölmiðla og stjórnmálamönnum en skoðun ferðaþjónustunnar vantar, bæði frá forsvarsmönnum og flestum í atvinnugreininni. Það er sem atvinnugreinar einangrist þegar ein hefur neikvæð áhrif á aðrar, en umræðan sé mun víðsýnni og þverfaglegri þegar áhrifin eru talin jákvæð.

Óvæntur liðsauki

Ágætt dæmi um kröfu almennings um þátttöku í mikilvægum ákvarðanatökum eru mótmæli Kjósverja við byggingu álvers á Grundartanga. Aukin almenningsþátttaka og mikilvægi góðrar samvinnu við íbúa er mjög í anda hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar en á slíkt er m.a. lögð rík áherslu í fyrrnefndri ferðamálastefnu samgönguráðherra. Þar er átt við að ákvarðanir sem snerta uppbygginu ferðaþjónustu í sveitum landsins séu ekki teknar ofanfrá heldur í samvinnu við heimamenn. Í Kjósinni hefur dæmið hinsvegar snúist við og um leið hefur ferðaþjónustunni borist óvæntur liðsauki. Með því að láta í ljós áhyggjur af fyrirhuguðu álveri freista íbúar svæðisins þess að hafa áhrif á að ákvarðanir séu teknar í samræmi við vilja og í samvinnu við íbúa svæðisins, svo og með tilliti til hagsmuna atvinnugreina s.s. ferðaþjónustu.

Skammvinn sæla!

Enn er ekki séð fyrir endann á umræðunum um fyrirhugað álver á Grundartanga og áhrif mótmæla íbúanna ekki fyrirsjáanleg. Umræða um kosti og galla slíkra framkvæmda og víðtæk áhrif s.s. á aðrar atvinnugreinar verður að eiga sér stað. Vera má að starfsmenn og forsvarsmenn í ferðaþjónustu séu alls ekkert sammála um áhrif uppbyggingar stóriðju á ferðaþjónustu, en ber þeim þó ekki skylda til að taka afstöðu? Ef ekki í sameiningu, þá hver í sínu lagi.

Þegar þetta er skrifað hafa Bændasamtök Íslands látið í ljós, nokkuð hlutlausa en þó ákveðna skoðun á málinu og telja fleiri rök gegn heldur en með byggingu álversins. Bændasamtökin telja að fyrst og fremst beri að tryggja rétt íbúanna og að sú ákvörðun sem verði tekin falli sem best að ímynd Íslands um hreint og ómengað land. Ferðaþjónustan hlýtur að vera þessu sammála, því það er ljóst að "Ísland sem orkuver" er þvert á þá ímynd sem kynnt hefur verið erlendis til fjölda ára með miklum tilkostnaði. En það er á ábyrgð ferðaþjónustunnar að sýna fram á hagkvæmni atvinnugreinarinnar í þeim tilgangi að beina sjónum stjórnvalda frá skammtímamarkmiðum um atvinnu og bættan efnahag sem grafið geta undan öðrum atvinnugreinum. Með markvissum og reglulegum rannsóknum og upplýsingaöflun um umfang ferðaþjónustunnar mun slíkt takast og er sá þáttur í ferðaþjónustu vissulega að aukast. Landvinningar í ferðaþjónustu gerast jú ekki á einni nóttu og að því leytinu til má að mörgu leyti skilja sjónarmið stjórnvalda um aðgerðir sem sýna hagkvæmni á styttri tíma. En spyrja má hvort slík sæla sé ekki skammvinn? Hvað gerum við þegar verksmiðjur úreldast og byggja þarf nýjar? Eða þá þegar bæta þarf við álverum? Hvaða hluti landsins verður þá tekin iðnaði til handargagns? Og hvert förum við þá til að sýna ósnortna náttúru, kraftmikla fossa og óbyggðir. Munum við velja á milli þess að sýna rústir torfbæja og gamlar minjar eða úreldar verksmiðjur? Munu fallvötn verða virkjuð og hálendið þrautskipulagt? Hlutaðeigandi aðilar eiga að láta skoðun sína í ljós því það er ekki ferðaþjónustu til hagsbóta ef stórvirkur iðnaður byggist upp á Íslandi. Stóriðja samræmist alls ekki stefnunni um umhverfisvænt Ísland og sjálfbær ferðamál.

Sigríður Þrúður Stefánsdóttir. Höfundur er ferðamálafræðingur.

Morgunblaðið/Árni Sæberg

"ÍSLAND sem orkuver" er þvert á þá ímynd sem kynnt hefur verið erlendis til fjölda ára með miklum tilkostnaði.

Sigríður Þrúður Stefánsdóttir