Hæg blóðrás í háloftum NOKKUÐ algengt er að hægist á blóðrás á ferðalögum, sérstaklega í flugi. Í Mayo Clinic Health letter var nýlega fjallað um þennan ferðakvilla og kom þar fram að bjúgur í fótum og kálfum er mjög algengur fylgifiskur flugferða.

Hæg blóðrás í háloftum

NOKKUÐ algengt er að hægist á blóðrás á ferðalögum, sérstaklega í flugi. Í Mayo Clinic Health letter var nýlega fjallað um þennan ferðakvilla og kom þar fram að bjúgur í fótum og kálfum er mjög algengur fylgifiskur flugferða. "Afleiðing hans getur verið öllu alvarlegri, því honum fylgir aukin hætta á blóðtappamyndun. Blóðtappi getur verið hættulegur, sérstaklega ef hann fer af stað og kemst á lungnasvæði," segir í ritinu.

Gefin eru nokkur ráð til að halda blóðrás í réttu horfi og draga úr líkum á bjúg- eða blóðtappamyndun á ferðalagi. Mælt er með því að farþegar standi upp á um klukkustundar fresti og gangi um vélina eftir því sem kostur er. Á bílferðalagi er ráðlagt að taka hlé á akstri öðru hvoru, um klukkutíma fresti, standa upp, teygja úr sér og ganga um svolitla stund. Einnig er hægt að teygja úr fótunum öðru hvoru, svo framarlega sem nægilegt bil er milli sætaraða og er þá sagt gott að snúa fótum í nokkra hringi um öklann.

Sokkar og sokkabuxur sem halda vel við fótleggi, svokallaðar sjúkrasokkabuxur, þykja mjög hentugar á ferðalögum og í Mayo Clinic Health Letter er mælt með þeim, þar sem þær hjálpa líkamanum að viðhalda eðlilegri blóðrás. Er það sagt sérstaklega mikilvægt fyrir þá sem hafa tilhneigingu til að fá bjúg eða hafa fengið blóðtappa. Sömuleiðis er þeim ráðlagt að sleppa öllum sjússum, í það minnsta þar til þeir eru komnir á áfangastað.