KANADA Á skíðum í Klettafjöllum Í Þjóðgarðinum Banff í Klettafjöllunum eru stærstu og elstu skíðastaðir Kanadabúa.

KANADA Á skíðum í Klettafjöllum Í Þjóðgarðinum Banff í Klettafjöllunum eru stærstu og elstu skíðastaðir Kanadabúa. Arna Schram var þar í þrjá daga ásamt fjölskyldu sinni og segir hér frá þessum heillandi og vinsæla áfangastað í máli og myndum

ITLI og notalegi skíðabærinn Banff, sem ber sama nafn og þjóðgarðurinn sem hann er í, kúrir í tignarlegum fjallasal um 130 km vestan við Calgary í Alberta. Bærinn er Mekka þeirra sem leggja leið sína til kanadísku Klettafjallanna, ekki síst þeirra sem koma í þeim erindagjörðum að njóta skíðasvæðanna sem finna má í nágrenninu, en tilgangur okkar var einmitt sá að prófa skíðin í einum vinsælustu skíðabrekkum Kanadabúa.

Ferðin var farin í lok febrúar á síðasta ári, en á þeim árstíma átti veður og færi að vera hið besta í fjöllunum. Eftir tæpa tveggja tíma keyrslu frá Calgary komum við að bænum Banff sem svo margir kanadískir vinir okkar höfðu dásamað. Við urðum heldur ekki fyrir vonbrigðum; falleg lítil hús, svolítið í evrópskum stíl, og ekkert þeirra hærra en þriggja hæða til að byrgja ekki útsýni til tilkomumikilla fjalla.

Við ókum eins og leið lá í gegnum aðalgötu bæjarins þar sem búðir stóðu nokkuð þétt og greinilegt af útstillingargluggunum að þar var hægt að kaupa allt sem hugurinn girntist; skemmtilega minjagripi, skíðagræjur og hátískufatnað, svo eitthvað sé nefnt. Hótelið okkar var lítið og látlaust skammt frá miðbænum, herbergið þrifalegt og mun stærra en við höfðum búist við. Til að gefa einhverjar verðhugmyndir er hægt að nefna að þriggja nátta gisting kostaði þar með morgunverði og þriggja daga skíðapassa í lyfturnar, um ellefu þúsund íslenskar krónur á manninn. Það hefur sennilega verið með því ódýrasta sem gerðist. Mun fleiri hótel eru í Banff og fer verð á gistingu á þeim eftir staðsetningu, þjónustu og íburði. Þá má benda á þann möguleika að gista á hótelum utan við bæinn eða alveg við skíðasvæðin.

Elgir og villikettir á vappi

Banff er, eins og fyrr var tæpt á, ekki aðeins fyrir skíðaiðkendur. Í bænum sjálfum er nóg um að vera fyrir þá sem vilja vera í námunda við villta náttúru en njóta um leið nútíma þæginda. Þar er ógrynni veitingastaða; mexíkóskir, grískir eða ítalskir svo eitthvað sé nefnt, fjölbreyttar verslanir og all mörg söfn og listhús sem eru tileinkuð sögu og villtri náttúru þjóðgarðsins. Í gegnum bæinn rennur áin Bow og skammt undan er fallegur foss sem vert er að sjá. Þar geta menn líka orðið áþreifanlega varir við hið villta lífríki, því af og til má sjá til elgja og risakatta (lynx). Vissara er þó að láta þessi dýr óáreitt og er stranglega bannað að gefa þeim að borða samkvæmt reglum þjóðgarðsins.

Rétt fyrir sunnan bæinn eru heitar uppsprettulindir. Þar er hægt að slaka á í ylvolgum pottum umkringdum hvítri snjóbreiðu, háum birkitrjám og snævi þökktum fjallatoppum í fjarska. Þar er einnig í boði almennilegt nudd, ekki amalegt eftir erfiðan dag á skíðum.

Skíðasvæðin þrjú

Í þjóðgarðinum Banff eru þrjú stór skíðasvæði og fara áætlunarbifreiðar þangað reglulega frá bænum Banff. Skíðasvæðið næst bænum er í um tíu mínútna fjarlægð og heitir Mount Norquay. Þetta er reyndar minnsta skíðasvæðið, því þar eru ekki eins margar skíðalyftur og brekkur og á hinum svæðunum.

Sunshine Village er það skíðasvæði sem liggur hæst, en það er í 2.160 metra hæð yfir sjávarmáli og er hæsti tindurinn 2.730 metrar. Hæðin gerir það að verkum að þar er alltaf mikill snjór um veturinn og ágætt skíðafæri, en í desember og janúar getur verið nokkuð kalt. Við fórum þangað fyrsta daginn og líkaði mjög vel, enda hægt að velja um 89 merktar skíðaleiðir. Neðst við skíðabrekkurnar er barnagæsla, þar sem yngsti fjölskyldumeðlimurinn fékk að mála og föndra á meðan við hin rifjuðum upp skíðataktana.

Það skíðasvæði sem okkur líkaði þó best við var Lake Louise, en það er jafnframt lengst frá bænum Banff, eða um hálftíma akstursleið þaðan. Lake Louise er fjölbreytt skíðasvæði þar sem hægt er að velja um 105 merktar skíðabrekkur, miserfiðar og langar, en allar ákaflega skemmtilegar. Eins og í Sunshine Village var barnaheimili neðst við skíðasvæðið og kostaði hver tími fyrir barnagæsluna um tvö hundruð íslenskar krónur.

Við skíðasvæðin þrjú er boðið upp á alla þá þjónustu sem skíðamenn geta hugsað sér, til dæmis almenna skíðakennslu fyrir unga jafnt sem aldna, byrjendur og lengra komna.

Veðrið þessa þrjá daga sem við undum okkur í Banff var eins og best verður á kosið og skíðafærið fullkomið; léttur og fínn púðursnjór. Við skíðuðum síðustu tvo dagana í Lake Louis, renndum okkur snilldarlega, að sjálfsögðu, niður brekkurnar og fengum okkur þess á milli hressingu í notalegum skála sem var neðst við eina brekkuna.

Þegar heim á hótel var komið eftir erfiðan en ánægjulegan dag var unaðslegt að hvíla lúin bein í heita pottinum fyrir utan hótelið og njóta þess að horfa á sólina setjast á bak við snævi þakinn fjallahring.

Morgunblaðið/Arna

VIÐ skíðabrekkurnar í Lake Louise.

EFTIR erfiðan dag í brekkunum var gott að hvíla lúin bein í heita pottinum.