Líf og dauði á tunglinu FÍNAR og dýrar brúðkaupsferðir eru í miklu uppáhaldi hjá Japönum, þ.e.a.s. þeim sem hafa efni á slíkum herlegheitum. Nú stefna þeir á tunglið.

Líf og dauði á tunglinu

FÍNAR og dýrar brúðkaupsferðir eru í miklu uppáhaldi hjá Japönum, þ.e.a.s. þeim sem hafa efni á slíkum herlegheitum. Nú stefna þeir á tunglið. Það er stærsta byggingarfélag Japans, Shimizu, sem áætlar að byggja þar hótel fyrir vellauðuga Japani.

Hjá Shimizu segja menn reyndar að töluvert sé í að fyrstu brúðarsvíturnar verði tilbúnar, þar sé um að ræða framtíðaráætlun. Hins vegar ætla þeir innan 35 ára að koma upp aðstöðu fyrir þau nýgiftu í geimstöð sem ferðast umhverfis jörðina í ca 375 km radíus frá henni. Brúðkaupsferðir út í geim eru sem sagt ekki svo mjög fjarlægur möguleiki, gangi þessar áætlanir eftir.

Talsmaður Shimizu segir þessar hugmyndir hafa vakið mikinn áhuga fólks. Fjögurra daga dvöl í geimhótelinu mun kosta 560 þúsund krónur danskar, eða sem svarar til 5,5 milljóna íslenskra. Eða eins og talsmaðurinn segir: "Aðeins helmingi meira en lúxusferð umhverfis jörðina fyrir tvo með skemmtiferðaskipinu Queen Elizabeth II."

Þess má geta að ferð með geimskipinu mun standa öðrum til boða en brúðhjónum. Skipulagðar verða fleiri ferðir þar sem eina skilyrðið er að menn séu nógu fjáðir til þess að geta greitt reikninginn. Samkvæmt upplýsingum frá Shimizu verða 64 tveggja manna herbergi í geimskipinu og alls munu eitt hundrað manns geta hafst þar við í einu úti í geimnum.

Jarðneskar leifar á tunglinu

Í bígerð mun einnig vera að koma upp kirkjugarði á tunglinu. Þar stendur að baki annað japanskt fyrirtæki sem hyggst bjóða vel efnuðum Japönum að leggja þar til hvíldar jarðneskar leifar sínar. Áætlanir gera ráð fyrir að kirkugarður á tunglinu geti orðið að veruleika í kringum árið 2024.

Heimild: Vi Rejser