Mataræði á ferðalögum LÍKUR á því sem kallað er ferðaniðurgangur aukast ef ferðast er til lands þar sem loftslag er mjög ólíkt loftslagi í heimahögunum og einnig ef mikill munur er á hreinlæti og félagslegum aðstæðum.

Mataræði á ferðalögum

LÍKUR á því sem kallað er ferðaniðurgangur aukast ef ferðast er til lands þar sem loftslag er mjög ólíkt loftslagi í heimahögunum og einnig ef mikill munur er á hreinlæti og félagslegum aðstæðum. Í Mayo Clinic Health Letter var nýlega fjallað um þennan hvimleiða sjúkdóm og kom þar fram að drykkjarvatn eða matvæli, sem innihalda bakteríur, vírusa eða sníkjudýr, valda oftast niðurgangi hjá ferðamönnum.

Lúxushótel og skipulagðar hópferðir á framandi slóðir draga úr líkum á ferðaniðurgangi og öðrum sjúkdómum, meðan líkurnar aukast ef ferðast er á eigin vegum, búið innan um innfædda og ferðast utan alfaraleiða. Í blaðinu er þó ítrekað að góð hótel og snyrtilegir veitingastaðir séu engin trygging gegn sjúkdómum af þessum toga.

Yfirleitt ekki alvarlegur

Niðurgangur hjá ferðamönnum er að öllu jöfnu ekki alvarlegs eðlis, segir í ritinu. "Hann gengur yfirleitt yfir á þremur til fjórum dögum. Einkenni eru tíðar hægðir, krampaverkir í kviði og stundum hiti, ógleði eða uppköst. Í um 10% tilvika kemur blóð með hægðum og álíka oft eru uppköst mjög mikil og hiti mjög hár." Er þá mælt með því að leitað sé til læknis og sömuleiðis ef niðurgangur gengur ekki yfir á nokkrum dögum.

Ef ferðast er til landa, þar sem vitað er að hætta er á niðurgangi er mælt með grundvallarreglunni að sjóða mat og drykk, elda matvæli vandlega, afhýða þau, eða sleppa þeim. "Mataræði ætti að einskorðast við það sem talið er öruggt. Aldrei ætti að kaupa matvæli af götusölum. Þess ætti ætíð að gæta að diskar, hnífapör og glös séu hrein áður en matvæla er neytt og ef kranavatn er drukkið ætti að sjóða það í tíu mínútur."

Lyf gegn niðurgangi

Ekki eru til bóluefni gegn niðurgangi og ekki er mælt með því að fúkalyf séu tekin í forvarnarskyni, enda geti þau haft óæskilegar aukaverkanir. Sagt er frá tveimur lyfjum, sem einnig eru seld hér á landi. Annað heitir Mixtúra bismuthi, sem bæði er hægt að fá fljótandi og í töflum, og hitt Imodium, sem selt er í töfluformi. Fyrra lyfið hefur verið selt áratuguum saman, en Imodium er yngra lyf. Bæði lyfin eru seld í lausasölu og eru aukaverkanir sagðar óverulegar. Ekki er mælt með notkun lyfjanna í meira en 3-4 daga, enda þykir ástæða til að leita læknis ef niðurgangur gengur ekki yfir á þeim tíma.

Öruggt

Í blaðinu er listi yfir það sem talið er öruggt að borða og drekka.

Eldaður matur, sem borinn er fram sjóðandi heitur.

Þurrmatur, t.d. brauð.

Mjög sæt matvæli, t.d. sulta og síróp.

Ávextir sem ferðamaður afhýðir sjálfur.

Drykkjarföng í ílátum, sem framleiðandi hefur innsiglað, t.d. sódavatn í flösku, bjór eða vín.

Kaffi og te, sé það borið fram sjóðandi heitt.

Ekki öruggt

Ennfremur er birtur listi yfir drykki og matvæli, sem æskilegt er talið að forðast á ferðalögum á framandi slóðum.

Stofuheitur matur, t.d. pylsur, salat eða hlaðborð.

Hrár eða lítið eldaður matur, t.d. fiskur og skelfiskur.

Hrátt grænmeti og ávextir, sem ekki eru afhýddir, t.d. vínber og önnur ber.

Allar mjólkurvörur.

Kranavatn.

Ísmolar.