Djöfulleg vélabrögð Urquharts ÆTTIRNIR Síðasta spil hófu göngu sína í Sjónvarpinu síðastliðið mánudagskvöld og verður annar þáttur af fjórum sýndur annað kvöld.

Djöfulleg vélabrögð Urquharts

ÆTTIRNIR Síðasta spil hófu göngu sína í Sjónvarpinu síðastliðið mánudagskvöld og verður annar þáttur af fjórum sýndur annað kvöld. Áður hefur sjónvarpið tekið til sýninga tvær þáttaraðir í sama flokki, Spilaborg og Kóngur í uppnámi. Þættirnir eru gerðir eftir samnefndum skáldsögum Michael Dobbs og fjalla um klækjarefinn Urquhart sem seilist langt í breskum stjórnmálum.

Höfundurinn, Dobbs, er enginn nýgræðingur á sviði stjórnmálanna. Hann vann við fréttamennsku í Bandaríkjunum þegar Watergate-hneykslið komst í hámæli, fylgdi Margréti Thatcher eftir við hvert fótmál þegar hún steig sín fyrstu skref sem forsætisráðherra, slapp naumlega í sprengjutilræði við bresku ríkisstjórnina í Brighton og var starfsmannastjóri Normans Tebbits í þingkosningunum 1987. Síðast en ekki síst var hann um skamma hríð varaformaður í breska íhaldsflokknum, skipaður af John Major.

Urquhart seilist til áhrifa

Spilaborg, fyrsta þáttaröð í þríleiknum um Urquhart, hefst á afsögn Margrétar Thatcher. Sjónir okkar beinast því næst að Urquhart á skrifstofu sinni, sem segir: "Einhvern tíma tekur allt enda. Jafnvel sú stjórn sem lengst og farsælast ríkir líður einhvern tíma undir lok." Leitin að eftirmanni hefst þegar og eru margir kallaðir. Urquhart bíður átekta og heitir þeim fullri hollustu sem ber sigur úr býtum.

Sem eru auðvitað bara orðin tóm. Urquhart seilist til áhrifa með því að beita upplýsingum sem hann kemst yfir sem flokksvörður. Hann nær trúnaðartrausti Collingridge, forsætisráðherra, með vélabrögðum sem eru svo djöfulleg að þegar Collingridge neyðist loks til að segja af sér þakkar hann aðeins einum manni fyrir að hafa staðið við bakið á sér, Urquhart.

Þegar svo er komið sögu er Urquhart búinn að sverta mannorð allra þeirra sem taldir voru líklegir til að hreppa stöðu forsætisráðherra, þannig að hann einn stendur eftir með pálmann í höndunum. Í lokaatriði þáttanna kemur blaðamaður til hans og spyr hvort hann hafi drepið til að ná völdum. Hann viðurkennir það og kastar henni fram af húsþaki. Þegar myndavélin beinist að líkinu sést hendi seilast í segulbandið, sem augljóslega er enn að taka upp. Það er síðasta spilið í Spilaborginni.

Urquhart knésetur kónginn

Kóngur í uppnámi, önnur þáttaröðin í þríleiknum hefst á krýningu nýs konungs. Urquhart hefur treyst stöðu sína á þinginu og þarfnast samkvæmt konu sinni, Elizabeth, "nýrra krefjandi verkefna". Ekki líður á löngu þar til henni verður að ósk sinni. Rót vandans liggur í Buckingham-höll. "Vandamálið er að hann [kóngurinn] hefur hugmyndir," segir Urquhart önugur við aðstoðarmann sinn og það er sem orðunum hafi verið dýft í eitur. "Hann hefur samvisku. Hann vill leggja eitthvað af mörkum."

Kóngurinn er ötull við að benda á hvað virðist fara úrskeiðis í samfélaginu og nýtur sívaxandi hylli almennings á meðan Urquhart dalar í vinsældum. Einnig steðjar Urquhart ógn af flokksbróður sínum og aðstoðarkonu sinni sem einnig verður ástkona hans. Þau reynast hafa segulbandið undir höndum sem hvarf í lok fyrstu þáttaraðarinnar og ætla að ljóstra upp leyndarmálinu. Ekkert virðist geta komið í veg fyrir hrun spilaborgarinnar.

En Urquhart veit sínu viti og svífst einskis. Til að klekkja á kónginum, sem hefur efnt til útifunda, lætur hann ræna honum. Hann kemur síðan fram sem öryggið uppmálað og lætur herinn bjarga kónginum aftur. Auðmýking kóngsins er algjör. Hvað varðar leyndarmálið á segulbandinu kemur hann því, að því er virðist, undir græna torfu með því að koma samsærismönnunum fyrir kattarnef. Þáttaröðinni lýkur á því að kóngurinn segir af sér, sonur hans tekur við og Urquhart syngur við krýninguna: "God Save the King".

Reiðubúinn að færa fórnir

Í Síðasta spili, lokaþáttaröð þríleiksins, stendur Urquhart frammi fyrir sinni stærstu áskorun. Hann hefur setið sem forsætisráðherra í rúman áratug og er á þröskuldi þess að slá met sem sá forsætisráðherra sem lengst hefur setið á valdastóli á öldinni. En þjóðin virðist orðin þreytt á honum og flokksbræður hans er farið að lengja eftir nýjum forsætisráðherra.

Urquhart lætur hins vegar engan bilbug á sér finna. Hann er reiðubúinn að færa ýmsar fórnir til að lífga almenningsálitið við. Hann er reiðubúinn að fórna öllum nema sjálfum sér ­ jafnvel eyjaskeggjum á Kýpur. Hann hættir öllu til að komast í metabækurnar og hvernig sem fer er ljóst að nafn hans gleymist aldrei.

HINN ÁSTSÆLI forsætisráðherra Francis Urquhart.