Formannsskipti á Skaganum GUNNAR Sigurðsson lét fyrir skömmu af formennsku hjá Knattspyrnufélagi ÍA eftir áralanga forystu í knattspyrnumálum Skagamanna.

Formannsskipti á Skaganum GUNNAR Sigurðsson lét fyrir skömmu af formennsku hjá Knattspyrnufélagi ÍA eftir áralanga forystu í knattspyrnumálum Skagamanna. Undir hans stjórn hafa Skagamenn átt svo mikilli velgengni að fagna að slíkt á sér ekkert fordæmi í knattspyrnu hér á landi og safnað að sér meistaratitlum.

Það var Gylfi Þórðarson sem tók við formennskunni af Gunnari en hann er enginn nýgræðingur við stjórn knattspyrnumála því hann sat um árabil í stjórn KSÍ auk þess sem hann hefur lengi unnið að knattspyrnumálum á Akranesi.

Á myndinni, sem tekin var í lok aðalfundar Knattspyrnufélags ÍA, takast þeir Gunnar og Gylfi í hendur en bikarar þeir sem Skagamenn unnu á sl. keppnistímabili eru áminning til Gylfa og félaga í hinni nýju stjórn að þessir bikarar eiga að vistast á Akranesi a.m.k. til næstu aldamóta, eins og einn viðstaddra tók til orða þegar myndin var tekin.

Morgunblaðið/Helgi Daníelsson