Format fyrir menningu o.fl., 17,7MYNDBÖND viðunandi afþreying Illt eðli (Natural Enemy) Spennumynd Leikstjóri: Douglas Jackson. Handrit: Kevin Bernhardt. Kvikmyndataka: Rodney Gibbons. Aðalhlutverk: Donald Sutherland, William McNamara, Leysley Ann Warren.

Format fyrir menningu o.fl.,

17,7MYNDBÖND

viðunandi afþreying

Illt eðli (Natural Enemy)

Spennumynd

Leikstjóri: Douglas Jackson. Handrit: Kevin Bernhardt. Kvikmyndataka: Rodney Gibbons. Aðalhlutverk: Donald Sutherland, William McNamara, Leysley Ann Warren. 89 mín. Bandarísk. Filmline International/Bergvík. 1996. Bönnuð börnum innan 16 ára.

VERÐBRÉFASALINN Ted Robarts (Donald Sutherland) á í fjárhagserfiðleikum. Fyrirtæki hans stendur höllum fæti og hann er við það að missa rándýrt stórhýsi sem er nýbyggt. Til þess að rétta úr kútnum hefur hann fengið sér til aðstoðar Jeremy Harper (William McNamara), ungan og bráðefnilegan verðbréfasala, og er markmiðið að nýta þekkingu hans til þess að geta gengið frá hinum stóra samningi, sem leysa á allan vanda.

Til þess að halda í þennan eftirsótta starfskraft býður hann honum hluta af hagnaði fyrirtækisins auk afnota á þriðju hæð húss síns. Eiginkonu hans Sandy, (Lesley Ann Warren), mislíkar ráðstöfun þessi en sættir sig við hana fyrirtækisins vegna. Harper hefst þegar handa við að vinna traust Sandyar, sem hinsvegar fer að gruna hann um að hafa óhreint mjöl í pokahorninu.

Hér er á ferðinni nokkuð viðunandi afþreying. Helsti galli myndarinnar er þó hve söguþráðurinn er fyrirsjáanlegur en leikstjórinn Jackson nær þrátt fyrir það á stundum að skapa spennu. Hann hefði þó að ósekju mátt leika á fleiri sálfræðilegar nótur á kostnað ofbeldisatriða, sem í mynd sem þessari eru að sumu leyti óþarfi. Donald Sutherland og Lesley Ann Warren eru fagmenn sem að vanda skila sínu en þrátt fyrir ágætis takta tekst William McNamara ekki að bera myndina upp.

Skarphéðinn Guðmundsson

BRUGÐIÐ á leik í Illu eðli.