Ingólfur Snorrason íþróttamaður Selfoss Selfossi. Morgunblaðið. INGÓLFUR Snorrason karatemaður er íþróttamaður Selfoss og fékk afhentan veglegan verðlaunagrip því til staðfestingar á árlegri verðlaunahátíð sl. sunnudag.

Ingólfur Snorrason íþróttamaður Selfoss Selfossi. Morgunblaðið. INGÓLFUR Snorrason karatemaður er íþróttamaður Selfoss og fékk afhentan veglegan verðlaunagrip því til staðfestingar á árlegri verðlaunahátíð sl. sunnudag. Á verðlaunahátíðinni voru einnig afhentar viðurkenningar til efnilegra ungmenna sem skarað hafa fram úr í sinni íþróttagrein. Þá voru einnig afhentir styrkir sem íþrótta- og tómstundaráð veitir íþróttafélögum vegna keppnisferða afreksmanna.

Ingólfur Snorrason hefur náð mjög góðum árangri í karateíþróttinni og keppti á mótum erlendis þar sem árangur hans vakti athygli. Hann varð bikarmeistari Karatesambandsins á árinu með miklum yfirburðum. Ingólfur stendur einn að sinni þjálfun utan þess að hann æfir með landsliðinu. Andstæðingar hans á mótum erlendis hafa margir hverjir verið atvinnumenn í mörg ár.

Sigríður Jensdóttir, forseti bæjarstjórnar Selfoss, afhenti Ingólfi bæjarstjórnarbikarinn sem fylgir titlinum Íþróttamaður Selfoss með þeim orðum meðal annars að við honum tæki prúður íþróttamaður sem auðvelt væri að benda börnum og unglingum á að hafa að fyrirmynd.

Morgunblaðið/Sig. Jóns.

INGÓLFUR Snorrason, íþróttamaður Selfoss

VERÐLAUNAHAFAR á verðlaunahátíðinni á Selfossi.