Í nógu að snúast hjá Allen "HÖFUM við fyrirgefið Woody Allen?" var nýlega forsíðufyrirsögn dagblaðs í New York. Meira þurfti ekki að segja, allir vissu hvað átt var við.

Í nógu að snúast hjá Allen "HÖFUM við fyrirgefið Woody Allen?" var nýlega forsíðufyrirsögn dagblaðs í New York. Meira þurfti ekki að segja, allir vissu hvað átt var við. Uppákomuna þegar Allen sagði skilið við unnustu sína og samstarfsmann til 13 ára, Miu Farrow, og tók saman við fósturdóttur hennar, Soon-Yi Previn, sem var 21 árs.

Upp úr því hófst úlfúðug forræðisdeila um önnur börn þeirra sem náði hápunkti þegar Farrow sakaði Allen um að hafa beitt Dylan, sjö ára fósturdóttur sína, kynferðislegu áreiti. Málið var síðar látið niður falla.

Slúðurblöð um allan heim nærðust á þessu hneykslismáli lengi á eftir. Voru meira að segja gerðir sjónvarpsþættir um málið. "Eigum við að taka við honum aftur?" var undirfyrirsögn áðurnefnds dagblaðs sem gaf í skyn að Allen hefði stungið af. Svo var ekki.

Á þeim fjórum árum sem liðin eru frá skilnaði Farrow og Allens hefur hann leikstýrt fjórum myndum, Husbands and Wives, Manhattan Murder Mystery, Bullets Over Broadway og Mighty Aphrodite, sem samanlagt hafa verið tilnefnd til þrettán óskarsverðlauna og unnið tvö.

Hann skrifaði einþáttung. Hann skrifaði handrit að sjónvarpsmynd auk þess að leikstýra og leika í myndinni. Hann spilaði alltaf vikulega með djass-sveit hússins á Michael's Pub og fór í tónleikaferð um Evrópu með sveitinni. Lífið hefur sem sagt gengið sinn vanagang hjá Allen.

"Undir hans leikstjórn koma allir vel út," segir Alan Alda, sem lék í Crimes and Misdemeanors. "Það má treysta honum fullkomlega, sem er mjög sjaldgæft."

Ekki lítið hrós, enda virðast stórstjörnur raða sér í öll hlutverk í myndum Allens, sama hversu léttvæg þau eru. Hann vinnur nú að "Everyone Says I Love You", sem er með Alda, Goldie Hawn, Drew Barrymore og Juliu Roberts í aðalsönghlutverkum. Myndin fjallar um kjánaskapinn sem er óhjákvæmilegur fylgifiskur ástarinnar.

Önnur mynd sem Allen vinnur að er "Deconstructing Harry". Það er svört kómedía um 48 klukkustundir í lífi rithöfundar í New York, sem leikinn er af Allen. Í öðrum hlutverkum eru m.a. Demi Moore, Robin Williams, Billy Crystal, Kirstie Alley og Julia Louis-Dreyfus.

Af þessu að dæma er ekki að sjá að skilnaðurinn fyrir fjórum árum hafi haft lamandi áhrif á þennan framtakssama leikstjóra sem hefur líklega aldrei verið vinsælli meðal kvikmyndahúsagesta en um þessar mundir.

WOODY Allen hefur leikstýrt 33 kvikmyndum og er enn að.

EKKI er að sjá að aldursmunurinn hái Allen og Previn, en hún er 36 árum yngri en hann.