Gaf milljarða í skjóli nafnleyndar CHARLES Feeney varð vellauðugur af að stofna og reka keðju fríhafnarverslana.

Gaf milljarða í skjóli nafnleyndar

CHARLES Feeney varð vellauðugur af að stofna og reka keðju fríhafnarverslana. Undanfarin 15 ár hefur hann gefið sjúkrahúsum, háskólum og fleirum, þar á meðal Sinn Fein, hinum pólitíska armi Írska lýðveldishersins, rúmlega 600 milljónir dollara (um 41 milljarð króna). Þetta gerði hann á laun og þeir, sem fengu peningana, fengu ekki að vita hvaðan féð var komið.

Feeney, sem er 65 ára gamall, tókst það vel að halda því leyndu að hann hefði gefið mestalla peningana sína að flest viðskiptatímarit hafa talið eignir hans nema milljörðum dollara. Hann ánafnaði hins vegar tveimur góðgerðarstofnunum, sem hann stofnaði á Bahama-eyjum, 3,5 milljörðum dollara (rúmlega 240 milljarðar króna) þegar hann seldi hlut sinn í fríhafnarverslununum fyrir nokkru. Í raun nema eignir hans tæpum fimm milljónum dollara (345 milljónum íslenskra króna).

"Ég komst að þeirri niðurstöðu að ég ætti einfaldlega nóg af peningum," sagði Feeney í samtali við The New York Times. "Þeir stjórna ekki lífi mínu. Peningar draga sumt fólk að sér, en enginn getur gengið í tveimur pörum af skóm í einu."

Feeney kvaðst hafa ákveðið að leysa frá skjóðunni þar sem hann hefði búist við að yfirvofandi málaferli vegna sölu verslananna mundi draga gjafir hans fram í dagsljósið hvort sem væri.

Klósett eftirsótt á svörtum markaði

TÍMAMÓT urðu í Bandaríkjunum um áramót. Klósettkassar hafa hingað til tekið um 14 lítra af vatni, en héðan í frá munu aðeins verða seld og framleidd salerni með klósettkössum, sem taka rúmlega sex lítra.

Afleiðingin er að svartamarkaðsviðskipti með gömlu klósettin eru í algleymingi og fæst tvöfalt meira fyrir þau en nýju klósettin. Sagt er að pípulagningarmenn séu farnir að gera upp gömul klósett og þegar rífa eigi hús fjarlægi menn klósett, sem fyrir eru.

Lög um að nota yrði klósett, sem eyddu minna vatni þegar væri sturtað, voru sett 1992 og það getur varðað sektum að setja klósett með gamla laginu í hús. Í einu úthverfa Washington geta þeir, sem brjóta lögin, átt 2.500 dollara (um 170 þúsund íslenskra króna) sekt yfir höfði sér.