Skæruliðar í Alsír myrða 59 París. Reuter. TALIÐ er að múslimskir skæruliðar hafi myrt 59 manns til viðbótar í þorpum skammt frá Algeirsborg, höfuðborg Alsír, og hafa nú alls 250 manns fallið í landinu frá því að föstumánuðurinn, Ramadan, hófst 10.

Skæruliðar í Alsír myrða 59 París. Reuter.

TALIÐ er að múslimskir skæruliðar hafi myrt 59 manns til viðbótar í þorpum skammt frá Algeirsborg, höfuðborg Alsír, og hafa nú alls 250 manns fallið í landinu frá því að föstumánuðurinn, Ramadan, hófst 10. janúar, að því er fram kom í alsírska dagblaðinu Le Matin í gær.

Fréttir af því að drápin héldu áfram í Alsír birtust nokkrum klukkustundum eftir að Liamine Zeroual, forseti landsins, ávarpaði Alsírbúa í sjónvarpi á föstudagskvöld og sagði að stjórn sín mundi ganga milli bols og höfuðs á skæruliðum.

Í dagblaðinu Le Matin sagði að 59 menn hefðu verið drepnir í héraðinu Berroughia í þorpunum Benramdane, Saouala og Baraki. 23 menn hefðu verið skornir á háls í Oumaria í Berroughia. Fullyrt var að skæruliðar úr hreyfingunni Vopnuð sveit íslams (GIA) hefðu framið morðin.

Dræm viðbrögð við ræðu forseta

Viðbrögð almennings, stjórnarerindreka og fréttaskýrenda við ræðu Zerouals voru flest á þann veg að Zeroual hefði hvorki tekist að sýna fram á að hann gæti stöðvað hryðjuverkin né veitt hrjáðri þjóð von.

400 manns hafa fallið síðan í nóvember, en alls hafa 60 þúsund manns látið lífið í blóðsúthellingunum frá því að yfirvöld aflýstu kosningum í upphafi árs 1992. Íslamskir bókstafstrúarmenn höfðu náð afgerandi forskoti í kosningunum.