Nefnd fjallar um veiðar á ríkisjörðum Á VEGUM umhverfisráðuneytis er verið að kanna hvort veita eigi skotveiðimönnum aðgang að ríkisjörðum sem ekki eru í ábúð en ríkið veitir að jafnaði ekki veiðimönnum leyfi til að veiða á ríkisjörðum.

Nefnd fjallar um veiðar á ríkisjörðum

Á VEGUM umhverfisráðuneytis er verið að kanna hvort veita eigi skotveiðimönnum aðgang að ríkisjörðum sem ekki eru í ábúð en ríkið veitir að jafnaði ekki veiðimönnum leyfi til að veiða á ríkisjörðum.

Guðmundur Bjarnason umhverfisráðherra segir að málið tengist langvinnri deilu skotveiðimanna og bænda og umræðu um aðgang þéttbýlisbúans að landinu.

"Ríkið á mikinn fjölda af jörðum, sem að vísu eru flestar í ábúð eða leigðar til einhverra nytja. En það hafa komið eindregnar óskir frá ýmsum aðilum um að ná samkomulagi um aðgengi að þessum lendum og mér fannst sjálfsagt að verða við því að kanna þetta mál," sagði Guðmundur.

Verið er að skipa nefnd til að fjalla um málið og verður Ólafur Örn Haraldsson alþingismaður væntanlega þar í forsvari. Guðmundur sagði að í nefndarstarfinu yrðu leiddir saman fulltrúar skotveiðimanna, þeirra sem fara með eignamál fyrir hönd ráðuneytisins, bænda og annarra sem nytja ríkisjarðir sem ekki eru í ábúð, svo sem skógræktarog landgræðslumanna.