Skátaskáli eyðilagðist í eldsvoða SKÁTASKÁLINN Vífilsbúð í Heiðmörk, sem er í eigu skátafélagsins Vífils í Garðabæ, gjöreyðilagðist í eldsvoða í fyrrakvöld eftir að eldur kviknaði út frá gaskút.

Skátaskáli eyðilagðist í eldsvoða

SKÁTASKÁLINN Vífilsbúð í Heiðmörk, sem er í eigu skátafélagsins Vífils í Garðabæ, gjöreyðilagðist í eldsvoða í fyrrakvöld eftir að eldur kviknaði út frá gaskút. Að sögn lögreglunnar í Hafnarfirði varð skálinn, sem er skammt austan við golfvöll Oddfellowa í Urriðavatnsdölum, strax alelda eftir að eldurinn varð laus, en hópur skáta sem ætlaði að dvelja í skálanum um helgina ásamt foringja sínum slapp án nokkurra meiðsla. Tilkynning um eldsvoðann barst lögreglunni í Hafnarfiðri kl. 22.25 í fyrrakvöld og þegar slökkviliðið úr Hafnarfirði kom á vettvang varð ekki við neitt ráðið, en slökkvistarf stóð yfir fram yfir miðnætti.

Morgunblaðið/Ingvar