Skýrsla unnin fyrir borgarstjóra Öryggismyndavélar í Bretlandi gefa góðan árangur ÖRYGGISMYNDAVÉLAKERFI, sem sett hafa verið upp í 400 borgum, bæjum og þorpum Bretlands, hafa haft afgerandi áhrif á fækkun afbrota og skemmdarverka á almannafæri.

Skýrsla unnin fyrir borgarstjóra Öryggismyndavélar í Bretlandi gefa góðan árangur

ÖRYGGISMYNDAVÉLAKERFI, sem sett hafa verið upp í 400 borgum, bæjum og þorpum Bretlands, hafa haft afgerandi áhrif á fækkun afbrota og skemmdarverka á almannafæri. Þá sýna kannanir í Bretlandi að viðskipti aukast á svæðum sem vöktuð eru af slíkum myndavélum því viðskiptavinir finni til meiri öryggiskenndar.

Þetta kemur m.a. fram í skýrslu um notkun öryggismyndavéla í Bretlandi sem Böðvar Bragason, lögreglustjóri í Reykjavík, og Pétur Sveinbjarnarson, framkvæmdastjóri Þróunarfélags Reykjavíkur, tóku saman að tilhlutan Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, borgarstjóra Reykjavíkur.

Skýrsla þess byggist á upplýsingum sem fengnar voru í ferð Framkvæmdanefndar um miðborgarmál til Englands í október 1996, þar sem fjórar borgir í Kent voru m.a. heimsóttar í þeim tilgangi að kynnast nánu samstarfi borgaryfirvalda og lögreglu varðandi notkun öryggismyndavéla og nágrannagæslu.

Í skýrslunni kemur ennfremur fram að myndavélakerfum á almannafæri í Bretlandi hafi fjölgað mikið á síðustu árum og að þau hafi aðallega verið sett upp í miðborgum og byggðakjörnum en einnig á öðrum stöðum þar sem tíðni afbrota er há eða sérstakra öryggisráðstafana er þörf, til dæmis við hafnir.

Almenningur virðist sáttur

Þá kemur fram í skýrslunni að auk þess að draga úr fjölda afbrota og upplýsa framin afbrot geti öryggismyndavélar gert lögreglunni kleift að meta aðstæður og gera strax réttar ráðstafanir þegar tilkynnt er um afbrot eða slys, en einnig geti þær veitt löggæslumönnum aukið starfsöryggi á vettvangi. Allt myndefni er tekið upp á myndbandsspólu í stjórnstöð, sem yfirleitt er í ráðhúsi eða aðallögreglustöð, en þar eru sérþjálfaðir starfsmenn á vakt allan sólarhringinn.

Í skýrslunni er auk þess bent á að skoðanir almennings í Bretlandi á öryggismyndavélum á almannafæri hafi í fyrstu verið skiptar og nokkur umræða hafi orðið um friðhelgi borgaranna, en eftir kynningu og ekki síst reynslu af notkun kerfisins, hafi álit almennings breyst. Nú er litið á "öryggismyndavélar á almannafæri sem vernd og vörn gegn afbrotum en ekki "njósnatæki" yfirvalda um hegðun fólks."