EIÐARI blaðsins sl. fimmtudag fjallar um læknisfræðilegar rannsóknir hér á landi, m.a. á áhættuþáttum krabbameins. Þar segir að Ísland sé kjörland fyrir rannsóknir af þessu tagi, enda góðar faraldsfræðilegar upplýsingar fyrir hendi.

EIÐARI blaðsins sl. fimmtudag fjallar um læknisfræðilegar rannsóknir hér á landi, m.a. á áhættuþáttum krabbameins. Þar segir að Ísland sé kjörland fyrir rannsóknir af þessu tagi, enda góðar faraldsfræðilegar upplýsingar fyrir hendi. Auðvelt sé að rekja ættir manna langt aftur í tímann og sjúkraskrár hafi verið færðar hér lengur en víðast annars staðar.

Víkverji fletti tímaritinu Hjartavernd nokkru eftir lestur leiðarans. Þar segir dr. Vilmundur Guðnason læknir og erfðafræðingur frá því að rannsakaðar hafi verið 20 íslenzkar ættir með arfbundna kólesterólhækkun í blóði. Sextíu prósent af þessum ættum hafa sömu stökkbreytingu. Vísindamönnum lék forvitni á að sjá, hvort rekja mætti þær saman. Síðan segir: "Mynd 10 [skýringarmynd sem greininni fylgdi] sýnir ættrækningu á fjórum ættum sem allar koma saman í einstaklingi sem er fæddur árið 1772 ... Með þessari ættrækningu sjást þeir möguleikar í greiningu nýrra sjúklinga útfrá ættartrénu sjálfu. Þar er unnt með því að fara nokkrar kynslóðir aftur að finna ættleggi sem síðan má kalla í fólk frá til DNA greiningar. DNA greining sem slík gæti því hjálpað okkur til að finna þessa einstaklinga. En hvers vegna viljum við finna þessa einstaklinga? Jú, vegna þess að í dag er til mjög öflug lyfjameðferð til að lækka kólesteról í blóði þessara einstaklinga. Þannig má seinka kransæðasjúkdóm og jafnvel koma í veg fyrir að einstaklingar fái kransæðastíflu."

ORRINN, fjórði mánuður vetrar að fornu tímatali, hefst með bóndadegi, föstudegi í 13. viku vetrar [24. janúar sl.]. Góan, fimmti vetrarmánuðurinn, hefst með konudegi, sunnudegi í 18. viku vetrar [23. febrúar nk.]. Þessir myrku, köldu og veðurhörðu vetrarmánuðir settu mark sitt á fyrri tíðar fólk, lífshætti þess og tungutak. Það talaði um "að þreyja þorrann og góuna", sem merkir að þola örðugleikana þar til ástandið batnar.

Ísland var veglaust og hafnlaust land fram á þessa öld, utan nokkur skipalægi frá náttúrunnar hendi. Opnir árabátar einir til sjósóknar. Öll nútímatækni, rafmagn, hitaveitur, sjúkrahús, fjarskipti [útvarp, sjónvarp, sími, o.s.frv.] óþekkt. Húsakynni og vinnuaðstaða vægt sagt léleg. Það þarf að setja sig í fótspor genginna kynslóða til að skynja þungann sem fólst í þessum orðum: "að þreyja þorrann og góuna"!

ORRINN hefur aðra og mildari ásýnd í augum nútímafólks. Tengslin við fortíðina eru nánast þau ein að snæða þjóðlegan mat, með tilheyrandi drykk og söng. Þannig blótum við þorrann á tækni- og velferðaröld.

Formæður okkar og forfeður höfðu sínar aðferðir við að varðveita matföng vetrarmánuði. Þau hertu fisk, reyktu kjöt, súrsuðu kjöt og blóðmör, kæstu hákarl o.s.frv. Þessar hefðir eru í heiðri haldnar á þorra. Það er vel.

Í huga Víkverja kemur staka eftir þann orðheppna og góðkunna hagyrðing Helga Sæmundsson:

Inni á Nausti aldrei þver

ánægjunnar sjóður.

Þorramatur þykir mér

þjóðlegur og góður.

INHVERJAR pempíur eður teprur taka sjálfsagt fyrir nefið með ilmvatnsvættum silkipjötlum við þorraborðið. Það er þeirra mál. Ekkert er við því að segja þótt matarsmekkur fólks sé mismunandi. Það er á hinn bóginn gott og blessað að varðveita þjóðlegar íslenzkar matarhefðir, eins og reyndar danskar, franskar, kínverskar o.s.frv. Fjölbreytnin lifi!