Reykjavíkurbréf AÐ ER SJÁLFSAGT OG eðlilegt, að víðtækar umræður fari fram á opinberum vettvangi um hið fyrirhugaða álver á Grundartanga, sem nú eru vaxandi líkur á, að verði að veruleika.

Reykjavíkurbréf AÐ ER SJÁLFSAGT OG eðlilegt, að víðtækar umræður fari fram á opinberum vettvangi um hið fyrirhugaða álver á Grundartanga, sem nú eru vaxandi líkur á, að verði að veruleika. Skiljanlegt er að fólk, sem býr í námunda við iðjuver sem þetta velti fyrir sér áhrifum þess á umhverfi, hættu á mengun o.s.frv. Það er líka í samræmi við tíðarandann, að þeir sem vinna að ferðaþjónustu og bera ábyrgð á henni spyrji spurninga um áhrif slíkra iðjuvera og annarra stórframkvæmda á erlenda ferðamenn og áhuga þeirra á að heimsækja Ísland. Allt er þetta þáttur í þeim almennu umræðum, sem eiga að fara fram í lýðræðisþjóðfélagi. Almenningur hefur nú betri aðgang að upplýsingum um margvísleg málefni en áður og þátttaka hins almenna borgara í umræðum og þar með ákvarðanatöku er afar mikilvæg og á eftir að verða enn þýðingarmeiri eins og rakið var í merkri úttekt í tímaritinu Economist um jólin og sagt hefur verið frá á þessum vettvangi.

Í slíkum umræðum er mikilvægt að hafa yfirsýn yfir það, sem áður hefur gerzt og skoða umræður um álver á Grundartanga í samhengi við það. Hver er forsaga þess, að fyrir rúmum þremur áratugum var leitað eftir samningum við erlent álfyrirtæki um byggingu álvers í Straumsvík? Hún er sú, að við Íslendingar höfum bitra reynslu af því, að svipull er sjávarafli. Þótt einungis sé litið til þessarar aldar höfum við aftur og aftur kynnzt afleiðingum aflabrests fyrir afkomu þjóðarbús og einstaklinga. Þegar samningar stóðu yfir um álverið í Straumsvík var mönnum enn í fersku minni hvarf síldarinnar eftir ævintýraleg síldarár fyrir, um og eftir lýðveldisstofnun. Raunar var síldin komin aftur, þegar hér var komið sögu en hvarf á nýjan leik, þegar hrun varð aftur í síldveiðum á árunum 1967 og 1968.

En það var ekki bara síldin, sem hvarf. Hvað eftir annað á þessari öld hafa Íslendingar upplifað aflabrest á þorskveiðum, með öllum þeim afleiðingum, sem slíkur aflabrestur hefur. Jafnvel þótt aflinn væri viðunandi hafði þjóðin einnig kynnzt því, að verðlag á sjávarafurðum á erlendum mörkuðum gat líka hrunið. Það var ein helzta ástæða kreppunnar, sem gekk í garð á árinu 1967 og stóð fram á árið 1969. Reynsla þjóðarinnar var sú, að það væri ekki hægt að byggja afkomu hennar á fiskveiðum eingöngu.

Þess vegna var horft til hinnar helztu auðlindar landsmanna, orku fallvatnanna, sem Einar Benediktsson, skáld, hafði reyndar gert snemma á öldinni. Hugsunin að baki samningunum um álverið í Straumsvík var sú að skjóta fleiri stoðum undir lífsafkomu fólksins í landinu. Þeir samningar lögðu grundvöll að og voru forsenda fyrir fyrstu stórvirkjun á Íslandi, Búrfellsvirkjun. Ef menn lesa umræður á Alþingi á þessum árum kemur í ljós, að þá voru líka uppi þau sjónarmið, að ekki ætti að byggja slíkt álver og að engin ástæða væri til að byggja stórvirkjun við Búrfell.

Þau sjónarmið urðu undir á Alþingi. Að sjálfsögðu urðu gífurlegar almennar umræður um byggingu álversins, sem svipar að sumu leyti til þeirra umræðna, sem nú fara fram en álverið var byggt og þegar litið er yfir þriggja áratuga sögu þess verður ekki annað sagt en sú ráðstöfun hafi reynzt farsæl fyrir okkur Íslendinga. Við höfum haft af því góðar tekjur. Við höfum eignazt Búrfellsvirkjun og ótti manna við mengandi áhrif frá álverinu hefur ekki orðið að veruleika.

Í umræðum um álverið í Straumsvík var því m.a. haldið fram, að erlend stórfyrirtæki væru í biðröð til þess að komast til Íslands og byggja hér stóriðjuver vegna þess að raforkan væri svo ódýr. Veruleikinn reyndist vera annar. Í kjölfarið á samningunum við Svisslendinga var leitað eftir samningum um byggingu járnblendiverksmiðjunnar í Hvalfirði. Þá kom í ljós, að það var enginn í biðröðinni. Niðurstaðan varð sú, að fyrirtækið var byggt, en íslenzka ríkið var í upphafi meirihlutaaðili að því og hefur jafnan átt stóran hlut í því síðan.

Síðan kynntumst við því af eigin raun, að það er ekki bara sjávarafli, sem er svipull. Miklar sveiflur eru í eftirspurn eftir bæði áli og járnblendi og sömuleiðis miklar sveiflur í verðlagi þessara afurða. Af þessum sökum lenti járnblendiverksmiðjan á Grundartanga í miklum erfiðleikum eins og menn vita en jafnframt hefur tekizt með glæsibrag að ráða fram úr þeim og stjórnun fyrirtækisins, sem Jón Sigurðsson hefur haft forystu um, hefur jafnan verið til sérstakrar fyrirmyndar. Margvíslegir erfiðleikar steðjuðu einnig að rekstri álversins í Straumsvík eins og annarra álvera í heiminum.

Þessi reynsla sýndi okkur, að það var út af fyrir sig ekki hægt að byggja á því að meiri stöðugleiki væri í stóriðju en fiskveiðum, þótt eftir sem áður væri mikilvægt að afkoma þjóðarinnar byggðist nú á öðru en sjávarútvegi eingöngu. Til viðbótar kom svo í ljós, að það var síður en svo auðvelt að fá erlend fyrirtæki til að fjárfesta í stóriðju á Íslandi. Auk stækkunar Ísal er fyrirhugað álver Columbia Ventures fyrsta nýja álverið, sem samningar hafa tekizt um að byggja hér frá hinum upphaflegu samningum við Svisslendinga. Þetta er veruleikinn þrátt fyrir það að samningamenn Íslendinga hafi verið á þönum um heimsbyggðina í áratugi í leit að nýjum samstarfsaðilum.

Til viðbótar við stóriðju reyndum við fyrir okkur í uppbyggingu útflutningsiðnaðar, til þess að treysta afkomumöguleika þjóðarinnar sem voru afar ótraustir um miðja öldina. Í kjölfar aðildar okkar að EFTA árið 1970 var hafizt handa um að byggja upp m.a. útflutning á ullarvörum, sem einkenndist af mikilli bjartsýni um skeið. Síðar kom í ljós, að við höfðum ekki erindi sem erfiði þar. Hins vegar hefur smátt og smátt tekizt að byggja upp útflutningsiðnað í framleiðslu, sem tengist sérþekkingu okkar í sjávarútvegi. Og á seinni árum hefur íslenzk hugbúnaðargerð einnig náð vissri fótfestu, sem gæti vel verið vísbending um, að fleiri tækifæri séu á því sviði.

Nokkrir bjartsýnismenn í ferðaþjónustu töluðu um það á þessum árum að við gætum haft miklar tekjur af erlendum ferðamönnum ekki síður en aðrar þjóðir. Menn höfðu ekki mikla trú á því og á þá var varla hlustað. Rétt er að hafa í huga í þessu sambandi, að fyrir aðeins þrjátíu árum var þjónusta við ferðamenn svo fábrotin, að þegar ferðast var um Suðurland t.d. var hægt að velja um tvær súputegundir á þeim veitingastöðum, sem á annað borð voru til, þ.e. sætsúpu eða kraftsúpu.

Þennan bakgrunn er nauðsynlegt að hafa í huga, þegar rætt er um hugsanlegt álver Columbia á Grundartanga. Meirihluta lýðveldistímans hefur markvisst verið unnið að því að skjóta fleiri stoðum undir afkomumöguleika þjóðarinnar. Það hefur tekizt smátt og smátt en við erum reynslunni ríkari. Til þess að tryggja stöðuga og batnandi afkomu þurfum við að hafa mörg járn í eldinum. Jafnframt er ljóst, að í hvert sinn, sem fyrirhugað er að reisa nýtt iðjuver hefjast umræður um mengunaráhrif frá því, landbúnaðurinn sé í hættu o.s.frv. Ekkert af þessu er nýtt. Allt hefur þetta gerzt áður en nú byggjum við á þriggja áratuga reynslu, sem sýnir að hrakspár svartsýnismanna hafa aldrei rætzt.

Sjónarmið ferðaþjónustunnar

ÁSTÆÐA ER TIL að fjalla um sjónarmið forystumanna í ferðaþjónustu sérstaklega en Ferðamálaráð samþykkti ályktun fyrir nokkrum dögum, þar sem varnaðarorð eru látin falla í sambandi við nýtt álver og staðsetningu þess. Í sérstakri úttekt á viðhorfi ferðaþjónustunnar, sem birtist í Morgunblaðinu í dag, laugardag, segir Magnús Oddsson, framkvæmdastjóri Ferðamálaráðs m.a., að Ferðamálaráð sé ekki að álykta gegn uppbyggingu virkjana og stóriðju heldur að hvetja til þess að hugað verði betur að staðsetningu slíkra iðjuvera vegna sjónmengunar og þeirrar ásýndar, sem þau gefi landinu.

Síðan segir Magnús Oddsson: "Tilefnið er að við erum að fá núna niðurstöður úr hverri könnuninni á fætur annarri, sem sýna okkur að það er þessi ásýnd og náttúran eins og hún kemur fólki fyrir sjónir, sem hefur mest áhrif á að hingað skuli koma erlendir gestir. . . Málið snýst um það, að menn hugi meira að staðsetningu slíkra mannvirkja í framtíðinni, hönnun þeirra og útliti með tilliti til sjónmengunar."

Pétur J. Eiríksson, einn af framkvæmdastjórum Flugleiða, sem sæti á í framkvæmdastjórn Ferðamálaráðs, segir einnig í samtali við Morgunblaðið í dag, laugardag: "Þegar við tölum um umhverfisslys þá erum við meðal annars að vísa til innreiðarinnar til Reykjavíkur, sem er sennilega sú ljótasta, sem vestur-evrópsk borg getur státað af. Hún verður það reyndar ekki fyrr en komið er að Straumsvík en það virðist vera eins og það sé lögmál á Íslandi að í kringum iðnað, að ekki sé talað um stóriðju, eigi ljótleikinn að ráða. Það er þessi reynsla, sem gerir það að verkum, að við teljum að skipulagsyfirvöld og ríkið eigi að haga staðarvali þannig að stóriðja valdi ekki sjónmengun."

Ekki eru allir, sem vinna við ferðaþjónustu sammála þessum sjónarmiðum. Þannig segir Pétur Snæbjörnsson, hótelstjóri Hótels Reynihlíðar við Mývatn m.a. í samtali við Morgunblaðið í dag, laugardag: "Að minnsta kosti finnst fólki til dæmis eftirsóknarvert að koma að Kröfluvirkjun og við fáum oft fyrirspurnir um það, hvort hægt sé að koma og skoða Kísiliðjuna. Það er ekki þar fyrir, að Kísiliðjan mætti hafa miklu snyrtilegra í kringum sig en mannvirkið sjálft vekur jákvæða athygli frekar en hitt. Fólk hefur yfirleitt skilning á því, að menn þurfa að lifa á einhverju og nýta auðlindir og það þykir eðlilegt. Að mínu viti mega menn auðvitað ekki hlaupa útundan sér og þora ekki að nýta neitt og ætla bara að vera í einhverju stöðnunarástandi. Það vill enginn vera á slíkum stað."

Halldór Bjarnason, framkvæmdastjóri Safaríferða, sem er einn umsvifamesti aðilinn í sölu og skipulagningu ferða fyrir útlendinga hingað til lands, segist ekki hafa orðið var við, að þær virkjana- og stóriðjuframkvæmdir, sem þegar hafi verið ráðizt í hér á landi hafi valdið nokkrum skaða hvað varði komu erlendra ferðamanna hingað, þvert á móti hafi þær orðið til þess að vegakerfið hafi orðið betra og þannig stuðlað að aukinni ferðamennsku. Halldór Bjarnason segist ekki geta ímyndað sér að fyrirhugaðar virkjana- og stóriðjuframkvæmdir geti haft nokkur áhrif á straum erlendra ferðamanna til landsins. Hins vegar segir Halldór Bjarnason: "Frekar held ég að hvalveiðar hafi neikvæð áhrif heldur en stóriðja ef rétt er að henni staðið. Það geta auðvitað allir viðurkennt, að álver í Hvalfirðinum kemur til með að raska dálítið hugarró Íslendinga að minnsta kosti en járnblendið hefur ekki hlotið nein ámæli frá útlendingum, sem ég hef heyrt að minnsta kosti."

Og loks er ástæða til að vitna til ummæla Gunnars Guðmundssonar hjá Ferðaskrifstofu Guðmundar Jónassonar, sem segir, "að ekki mætti gleyma því að hvort tveggja þyrfti að vera til hér á landi, ferðaþjónusta og stóriðjan, en fara yrði með gát í allri uppbyggingu. Ekki mætti gleyma því, að virkjanarannsóknir hafi á sínum tíma orðið til þess að opna hálendið fyrir umferð ferðamanna. . ."

Raunsæi verður að ráða

Í ÖLLUM ÞESS-

um umræðum verðum við að láta raunsæi ráða ferðinni að lokum. Við höfum þriggja áratuga reynslu af rekstri álversins í Straumsvík og vitum að þar hafa ekki orðið meiri háttar vandkvæði af völdum mengunar. Íslenzk stjórnvöld hafa gert mjög strangar kröfur til Columbia Ventures um aðgerðir til þess að draga úr mengun af völdum fyrirhugaðs álvers við Grundartanga og fyrirtækið hefur lýst því yfir, að það muni uppfylla þær kröfur. Raunar hefur það vakið athygli hversu mikla áherzlu forráðamenn fyrirtækisins hafa lagt á að kynna sér sjónarmið andmælenda álversins á Grundartanga. Aðstoðarforstjóri fyrirtækisins óskaði sjálfur eftir fundi með hreppsnefnd Kjósarhrepps og sat almennan borgarafund í Leirársveit um málið. Það hefur enginn sýnt fram á með nokkrum skynsamlegum rökum, að sérstök ástæða sé til að hafa áhyggjur af áhrifum álversins á umhverfi þess.

Forráðamenn ferðaþjónustu verða líka að horfa á þessi mál af raunsæi. Í fyrsta lagi hefur fjöldi erlendra ferðamanna, sem kemur til Íslands, margfaldast á þeim þremur áratugum, sem álverið hefur verið í Straumsvík og ekki að sjá, að sú "sjónmengun", ef menn vilja kalla það svo, hafi haft nokkur áhrif á ferðir þeirra. Hið sama má segja um Kísiliðjuna við Mývatn, að meint "sjónmengun" af völdum hennar virðist ekki hafa haft nokkur áhrif á ferðir erlendra ferðamanna til Mývatns, þótt ýmsar aðrar spurningar hafi vaknað í sambandi við rekstur þess fyrirtækis.

Járnblendiverksmiðjan á Grundartanga sýnist heldur ekki hafa haft nokkur áhrif í þá átt að draga úr heimsóknum erlendra ferðamanna til Íslands og þess vegna erfitt að sjá, að álver á Grundartanga mundi hafa einhver önnur og verri áhrif. Ástæðan er auðvitað sú, að bæði álverið í Straumsvík og járnblendiverksmiðjan á Grundartanga eru byggð í því sem hægt er að kalla þéttbýli. Það er t.d. sementsverksmiðja á Akranesi í næsta nágrenni við járnblendið. Það hefur hins vegar enginn haft orð á hvalstöðinni í Hvalfirði, sem miðað við umræður á alþjóðavettvangi mætti ætla, að mundi hafa eða ætti að hafa haft meiri áhrif á erlenda ferðamenn en járnblendiverksmiðjan. Álverið í Straumsvík er byggt í næsta nágrenni Hafnarfjarðar, þar sem er margvísleg atvinnustarfsemi.

Það er auðvitað grundvallarmunur á því að reisa slík iðjuver, þar sem önnur mannvirki eru fyrir eða þegar framkvæmdir á hálendinu sjálfu eru til umræðu. Þar er hægt að tala um raunverulega sjónmengun, ef ekki er farið varlega í framkvæmdir við virkjanir og t.d. lagningu háspennulína út frá þeim um stór landsvæði.

Við skulum heldur ekki gleyma því að mikill fjöldi ferðamanna á ákveðnum áningarstöðum á hálendinu getur eyðilagt þessa staði. Það hefur ekki alltaf verið skemmtilegt að koma í Landmannalaugar, af þeirri einföldu ástæðu að við liggur að svæðið þoli ekki þann mikla fjölda fólks, sem þangað kemur. Þar hefur verið hægt að tala um annars konar sjónmengun en þá, sem við blasir í Straumsvík eða Grundartanga. Og menn hafa lengi haft áhyggjur af því að ekki mætti lengra ganga í Herðubreiðarlindum.

Varnaðarorð Ferðamálaráðs beinast þess vegna ekki að réttum þáttum. Við getum ekki tryggt afkomu fólksins í landinu til frambúðar, ef hvergi má standa fyrir neinum framkvæmdum, sem skjóta styrkari stoðum undir hana. Okkur verður að takast með skynsamlegum hætti að búa í sátt við land okkar og nýta landkosti þess á raunsæjan hátt. Við lifum ekki lengi á öfgum að hverju sem þær beinast hverju sinni.

"Jafnframt er ljóst, að í hvert sinn, sem fyrirhugað er að reisa nýtt iðjuver hefjast umræður um mengunaráhrif frá því, landbúnaðurinn sé í hættu o.s.frv. Ekkert af þessu er nýtt. Allt hefur þetta gerzt áður en nú byggjum við á þriggja áratuga reynslu, sem sýnir að hrakspár svartsýnismanna hafa aldrei rætzt."