Dregið úr landgræðsluflugi DREGIÐ verður áfram úr landgræðsluflugi næsta sumar en bændur og aðrir aðilar hafa yfirtekið mörg verkefni sem landgræðsluflugvélar sinntu áður.

Dregið úr landgræðsluflugi

DREGIÐ verður áfram úr landgræðsluflugi næsta sumar en bændur og aðrir aðilar hafa yfirtekið mörg verkefni sem landgræðsluflugvélar sinntu áður.

"Við höfum á engan hátt horfið frá þeirri starfsaðferð að nota flugvélar í baráttu við gróðureyðingu en við teljum að í flestum tilfellum geti bændur tekið við þeim verkefnum. Við höfum lagt áherslu á að nota melgresi í baráttu við eyðingaröflin og fræ melgresisins verður að herfa niður og það geta flugvélarnar ekki þótt fjölhæfar séu. Og þetta hefur jafnframt þýtt minni áburðardreifingu," sagði Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri við Morgunblaðið.

Verið er að selja minni landgræðsluvélina, TF-Tún, og verkefni stærri vélarinnar, Páls Sveinssonar, verða minni næsta sumar en oft áður. Flugvélin verður þá einkum notuð í friðuðum landgræðslugirðingum á Reykjanesi og Suðurlandi.

Önnur helstu verkefni Landgræðslunnar næsta sumar verða í Skútustaðahreppi í samstarfi við bændur, sveitarstjórn og aðra aðila. Þar verður unnið við uppgræðslu Hólasands norðan Mývatns og við að hefta sandfok í Kráká en sandburður í ána hefur skaðað uppeldisstöðvar vatnafiska og valdið óeðlilegu sliti á hverflum Laxárvirkjunar sunnanlands verða stærstu verkefnin við Þorlákshöfn og á Haukadalsheiði.

Aukið fé til landgræðslu

Þessa dagana er Landgræðslan að vinna nánar að áætlunum um hvernig verja eigi viðbótarfjármagni, sem ríkisstjórnin ákvað á síðasta ári að veita til landgræðslu og skógræktarverkefna á næstu fjórum árum til að auka bindingu koltvíoxíðs í gróðri. Sveinn sagði að þessu fjármagni yrði fyrst og fremst varið til að stöðva eyðingu á gróðri og jarðvegi og í samræmi við stefnumið Landgræðslunnar kæmu bændur til með að vinna mest af þeim verkum.

Sveinn sagði að Landgræðslan ynni nú mest að áætlanagerðum og skipulagningu á ndgræðslu- og þróunarverkefnum í samráði við ýmsa rannsóknaraðila.

Morgunblaðið/Þorkell