Forsmekkur að nýjum Golf VW hefur kynnt tveggja dyra sportútfærslu af Golf en hann er byggður á næstu kynslóð þessa metsölubíls sem kemur á markað síðar á þessu ári í Evrópu.

Forsmekkur að nýjum Golf

VW hefur kynnt tveggja dyra sportútfærslu af Golf en hann er byggður á næstu kynslóð þessa metsölubíls sem kemur á markað síðar á þessu ári í Evrópu. Coupé bíllinn er raunar aðeins hönnunartilraun og alls óvíst hvernig endanleg útfærsla bílsins verður. Af þeim sökum kallar VW bílinn Coupé Study CJ. VW tekur ákvörðun um mitt ár hvort af framleiðslu bílsins verði en ráðgert er að hann kosti í kringum 15 þúsund dollara.

Hugsanlegt er að næsta kynslóð VW Golf verði frumsýnd á bílasýningunni í Genf í marsmánuði. Tveggja dyra sportbíllinn er byggður á þeirri kynslóð bíla. Þetta er fjögurra manna bíll og var frumsýndur á bílasýningunni í Detroit. Þar ætluðu stjórnendur VW að fylgjast grannt með viðbrögðum sýningargesta en einnig á sýningunni í Chicago í febrúar. Fyrr verður ákvörðun um hvort af framleiðslu bílsins verður ekki tekin. Þegar bíllinn var kynntur sagði Clive Warrilow, yfirmaður VW í Bandaríkjunum, að VW hefði staðið í löngu ástarsambandi við coupe-bíla og að þessi hönnunartilraun endurspeglaði jákvæð viðhorf Bandaríkjamanna til bíla með langan framenda og styttri afturenda. Þrátt fyrir það er farangursrými CJ jafnstórt og í VW Jetta sem byggður verður á sömu grind og ný kynslóð Golf.

Þótt bíllinn hafi verið afhjúpaður í Bandaríkjunum og telst vera bandarískur að uppruna verður hann boðinn einnig í Evrópu ef hann á annað borð verður settur í framleiðslu. Þakið á bílnum er bogadregið og í útliti minnir hann ekki svo lítið á Passat. Hann er 4,37 m langur, 1,73 m breiður og býður upp á gott rými fyrir fjóra fullorðna.

VW Coupé Study CJ verður hugsanlega tveggja dyra sportbílaútfærsla af nýrri kynslóð Golf sem kemur á markað síðar á þessu ári.