Líknarbelgir geta verið börnum hættulegir BANDARÍSKIR foreldrar fimm ára gamallar stúlku, sem lést þegar líknarbelgur skaust með miklu afli í andlit hennar, hafa krafist 60 milljón dollara, rúmlega fjögurra milljarða ÍSK, í skaða- og miskabætur frá...

Líknarbelgir geta verið börnum hættulegir

BANDARÍSKIR foreldrar fimm ára gamallar stúlku, sem lést þegar líknarbelgur skaust með miklu afli í andlit hennar, hafa krafist 60 milljón dollara, rúmlega fjögurra milljarða ÍSK, í skaða- og miskabætur frá Chrysler. Foreldrar stúlkunnar, Albert og Frances Ambrose, halda því fram fyrir rétti að bílaframleiðandinn hafi vitað um hættuna sem börnum stafar af líknarbelgjum.

Stúlkan lést þegar líknarbelgur farþegamegin í Dodge Caravan bíl foreldra hennar blés upp þegar bíllinn lenti í smávægilegum árekstri á aðeins 20-25 km hraða.

Bandaríska umferðaröryggisráðið, NHTSA, segir að 32 börn hafi látið lífið með svipuðum hætti í Bandaríkjunum. Bílaframleiðendur hafa fallist á þá kröfu ráðsins að þeim beri að vara bíleigendur sérstaklega við þeirri hættu sem börnum stafar af líknarbelgjum sitji þau í framsæti bíls. Ambrose hjónin byggja málsókn sína á því að Chrysler hafi verið kunnugt um þessa hættu í meira en einn áratug. Það gæti flækt málið að bílaframleiðendum ber skylda til þess, samkvæmt bandarískum lögum, að útbúa bíla sína með líknarbelg fyrir farþega í framsæti. Bílaframleiðendur telja að unnt sé að draga úr hættu á slysum með því að taka í notkun nýja gerð líknarbelgja sem þenjast út með minna afli. Bandaríska umferðaröryggisráðið verður þó fyrst að leggja blessun sína yfir það.