Clinton á krossgötum Bill Clinton er nú að hefja sitt annað kjörtímabil. Hann er með annað augað á sögubókunum eins og glögglega mátti heyra af innsetningarræðu hans, en það verður á brattann að sækja.

Clinton á krossgötum Bill Clinton er nú að hefja sitt annað kjörtímabil. Hann er með annað augað á sögubókunum eins og glögglega mátti heyra af innsetningarræðu hans, en það verður á brattann að sækja. Karl Blöndal kannar við hverju megi búast á næstu fjórum árum.

ILLIAM Jefferson Clinton Bandaríkjaforseti stendur á krossgötum. Annað kjörtímabil hans hófst á mánudag. Af því tilefni var efnt til þriggja daga hátíðahalda, sem lauk með dansleikjum og veisluhaldi um alla Washington-borg. Fögnuðurinn var hins vegar ekki sá sami og fyrir fjórum árum þegar Clinton var að taka við völdum og skammt undan voru spurningar um það hvað nú tæki við, hvert Clinton stefni, hvort hann sé forseti án stefnumiða, hans helstu afrek séu pólitísk, en ekki efnisleg. Það er ljóst að Clinton vill að sér verði skipað á bekk með helstu Bandaríkjaforsetum sögunnar. Í innsetningarræðu sinni mátti heyra að hann hyggst móta næstu öld. Það er afrek í sjálfu sér hjá Clinton að hafa náð endurkjöri, en til að tryggja sess sinn í sögunni þarf meira til.

Clinton er síðasti forseti Bandaríkjanna, sem sver embættiseið á þessari öld. Innsetningarræða hans fjallaði að miklu leyti um næstu öld: "Í dögun 21. aldarinnar verður frjáls þjóð að velja þann kost að móta öfl upplýsingaaldar og alþjóðlegs samfélags, að sleppa beislinu af takmarkalausum kostum allra okkar samborgara og mynda fullkomnara bandalag."

Ræða Clintons einkenndist af háleitum hugmyndum, sem oft og tíðum virtust fremur bera vitni staðlausri framtíðarsýn, en raunhæfum markmiðum.

Enn af brúnni inn í 21. öldina

Clinton vakti enn máls á brúnni, sem hann hamraði á í kosningabaráttunni á síðasta ári að hann hygðist reisa til að auðvelda bandarísku þjóðinni gönguna inn í næstu öld og næsta árþúsund.

Hann gaf einnig vísbendingu um það á hvaða forsendum brúin yrði smíðuð og sótti þar í smiðju Johns F. Kennedys forseta, sem sagði Bandaríkjamönnum að spyrja ekki hvað fósturjörð þeirra gæti gert fyrir þá, heldur hvað þeir gætu gert fyrir fósturjörð sína: "Hvert og eitt okkar þarf með sínum eigin hætti að axla persónulega ábyrgð, ekki aðeins á sjálfum okkur og fjölskyldum okkar, heldur nágrönnum okkar og þjóð," sagði Clinton. "Til þess að eitt okkar nái árangri verðum við Bandaríkjamenn allir að ná árangri."

Dregið úr ríkisvaldi

Um leið ítrekaði Clinton að þau gildi, sem demókratar hafa í hávegum haft allt frá því að Franklin Delano Roosevelt forseti kom á velferðarþjóðfélaginu og greip til ríkisafskipta til að sigrast á kreppuna miklu á fjórða áratugnum, þörfnuðust ekki aðeins endurskoðunar, heldur heyrðu fortíðinni til.

"Enn á ný höfum við leyst fyrir okkar tíma hina miklu deilu um hlutverk ríkisvaldsins," sagði forsetinn. "Nú getum við lýst yfir því að ríkisvaldið er ekki vandamálið og ríkisvaldið er ekki lausnin. Við, bandaríska þjóðin, erum lausnin."

Hann hélt áfram og reyndi að skilgreina hlutverk ríkisvaldsins: "Eftir því sem tímarnir breytast þarf ríkisvaldið að taka breytingum," sagði Clinton í innsetningarræðunni. "Við þurfum nýtt ríkisvald fyrir nýja öld, ríkisvald, sem er nógu auðmjúkt til að reyna ekki að leysa öll okkar vandamál fyrir okkur, en nógu sterkt til að gefa okkur tækin til að leysa vandamál okkar sjálf. Ríkisvald, sem er minna, fer ekki út fyrir mörk sín og gerir mikið úr litlu. Samt þarf það að geta varið okkar gildi og hagsmuni í heiminum og þar sem það getur gefið Bandaríkjamönnum vald til að gera breytingar, sem skipta máli í daglegu lífi þeirra, á ríkisvaldið að gera meira, ekki minna. Grundvallarverkefni hins nýja ríkisvalds á að vera það að veita öllum Bandaríkjamönnum tækifæri - ekki tryggingu - heldur raunverulegt tækifæri til að lifa betra lífi."

Hvað tekur við af arfleifð Roosevelts?

Af þessum orðum, sem hann hefur notað áður þegar hann hefur ávarpað demókrata, má hins vegar ekki sjá hvert Clinton hyggst leiða demókrata, hvað leysi arfleifð Roosevelts um ríkisafskipti af hólmi, og fyrra kjörtímabil hans gefur fáar vísbendingar. Margir brigsla Clinton um það að hann vilji vera hvers manns hugljúfi og engan styggja. Hugmyndir hans um að endurnýja Demókrataflokkinn innan frá eru hins vegar síður en svo nýjar af nálinni. Hann var farinn að ræða þær skipulega með það fyrir augum að komast til æðstu metorða áður en hann varð ríkisstjóri í Arkansas.

Clinton er fyrsti demókratinn, sem nær endurkjöri síðan Roosevelt sat í forsetastóli, en hann gerði það með því að eigna sér ýmis grundvallarmarkmið repúblikana um leið og hann hafnaði hörðustu atrennum þeirra að ríkisvaldinu. Clinton tókst ekki að nýta sigur sinn til að knýja fram meirihluta demókrata á þingi og má segja að hann hafi haft betur með því að halda sig í ákveðinni fjarlægð frá bæði repúblikönum og demókrötum.

Meðal demókrata ríkir ágreiningur, sem var reynt að tryggja að ekki bæri á í kosningabaráttunni. Nú bíður Clintons það verk að endurmóta Demókrataflokkinn og koma á friði milli stríðandi afla.

"Hvort tveggja . . . og öðru vísi"

Clinton hefur sjálfur sagt að stefna sín sé "hvorki frjálslynd né íhaldssöm, hún er hvort tveggja og hún er öðru vísi".

Fyrra kjörtímabili Clintons má skipta í þrennt. Fyrsta árið fór í að komast af stað, hreinsa til eftir stjórn George Bush og komast yfir byrjunarörðugleika. Annað árið blés hann til sóknar, en mistókst að fá þingið, sem þá var í höndum demókrata, til að hjálpa honum að efna þau loforð, sem hann gaf í kosningabaráttunni, loforð um að tryggja öllum heilsugæslu, stokka upp velferðarkerfið og gera umbætur í fjármálum stjórnmálaflokka.

Á síðari hluta kjörtímabilsins þegar repúblikanar höfðu náð meirihluta í báðum deildum þings var Clinton kominn í vörn. Þá lagði hann áherslu á að koma í veg fyrir að repúblikanar næðu fram því, sem hann kallaði öfgafyllstu tillögur þeirra með því að verja sjúkrasamlagið, sem fyrir hendi er handa öldruðum annars vegar og fátækum hins vegar, og ríkisframlög til mennta- og umhverfismála. Hann gekk hins vegar að kröfum repúblikana um að stefna að hallalausum fjárlögum og undirritaði frumvarp um meiri niðurskurð í velferðarkerfinu, en hann hafði sjálfur gert ráð fyrir.

Stuðningsmenn Clintons halda því fram að honum hafi á síðari hluta fyrra kjörtímabils síns tekist að sýna kjósendum fram á gildi ríkisvaldsins. Þegar loka þurfti ríkisstofnunum vegna þess að ekki náðist samkomulag milli forsetans og repúblikana á þingi fann almenningur fyrir því hvað það gat haft í för með sér þegar hjól ríkisbáknsins hættu skyndilega að snúast. Þegar þetta gerðist hafði Clinton betur í áróðursstríðinu. Hann var vörður almannahags. Newt Gingrich, sem var eignaður sigur repúblikana í þingkosningunum 1994, var illfyglið, er hugðist þjarma að fátækum og minni máttar. Því hefur verið haldið fram að þarna hafi Clinton lagt hornsteininn að sigri sínum á síðasta ári.

Repúblikanar í vörn

Nú er komið nýtt hljóð í strokkinn hjá repúblikönum. Þótt þeim hafi tekist að halda meirihlutanum í báðum deildum þingsins hvílir yfir þeim skuggi. Á meðan demókratar dönsuðu í Washington stóð Gingrich, sem var í upphafi árs endurkjörinn forseti fulltrúadeildarinnar, í ströngu. Hann fékk áminningu fulltrúadeildarinnar og var gert að greiða 300 þúsund Bandaríkjadollara (um 20 milljónir króna) í sekt fyrir að hafa notað fé, sem gefið hafði verið háskólum og góðgerðarstofnunum, í pólitísku skyni og logið til um fjármögnun námskeiðs, sem hann hélt, fyrir þingi.

Gingrich tókst með naumindum að halda í forustuhlutverkið, en hann stendur nú veikum fótum og ýmsum flokkssystkinum hans finnst hann vera til trafala.

Afglöp Gingrich hafa einnig verið Clinton til tekna. Hann hefur þurft að standa af sér hvert hneykslismálið á fætur öðru. Ekki eru öll kurl enn komin til grafar í Whitewater-málinu, sem snýst um lóðabrask í Arkansas og meintar tilraunir til að fela gögn í málinu, vafasöm fjárframlög í kosningasjóði demókrata eru mjög til umræðu og enn gæti farið svo að hann þyrfti að svara til saka vegna ákæru Paulu Jones um kynferðislegt áreiti áður en seinna kjörtímabil hans rennur út. Vandræði Gingrich gera repúblikönum hins vegar erfitt að gagnrýna Clinton og almenningi kynni að finnast vandlætingin koma úr hörðustu átt. Hins vegar hefur hlakkað í demókrötum vegna ófara Gingrich og því gæti liðið langur tími áður en grær um heilt.

Clinton hefur lagt áherslu á að menn eigi að gera upp við sig hvar þeir standa í þessum málum, bæði sínum og Gingrich, og snúa sér síðan að þeim verkefnum, sem bíða.

Vandi repúblikana sést best á því að vinsældir Gingrich eru í lágmarki (aðeins um þriðjungur kjósenda er þeirrar hyggju að hann standi sig vel í embætti), en Clinton er vinsælli en nokkru sinni fyrr (um 60 af hundraði kjósenda kann vel að meta frammistöðu hans samkvæmt skoðanakönnun The New York Times og CNN og hann er jafn vinsæll og Ronald W. Reagan þegar hann var settur inn í embætti öðru sinni).

Al Gore varaforseti segir að það sé til marks um það hversu vel Clinton hafi tekist að stýra umræðunni að honum hafi ekki aðeins tekist að skilgreina Demókrataflokkinn að nýju, heldur færa til þungamiðjuna. Repúblikanar hafi nú dregið úr málflutningi sínum um menntamál og umverfisvernd.

Clinton á hins vegar enn eftir að sannfæra efasemdarmenn í röðum demókrata um að fyrirheit hans standist, að hægt sé að draga úr ríkisvaldinu, en um leið beita því og ná meiri árangri.

Markmiðin smærri í sniðum

Þær tillögur, sem Clinton lagði fram í kosningabaráttunni, kunna að vera vísbending um það, sem framundan er. Á síðasta kjörtímabili lagði Clinton fram allsherjarlausnir. Nú eru markmiðin smærri í sniðum, til dæmis lög um að fólk, sem sagt hefur verið upp störfum haldi sjúkratryggingu í sex mánuði. Þetta hefur meira að segja verið notað til að gera grín að forsetanum og var haft á orði að ætla hefði mátt að hann hefði verið að sækjast eftir kosningu í stjórn smábæjar, en til að stjórna valdamesta ríki heims.

Clinton hefur einnig söguna á móti sér. Þeir forsetar Bandaríkjanna, sem náð hafa endurkjöri eftir stríð, hafa átt erfitt uppdráttar á seinna kjörtímabilinu, þótt þeir erfiðleikar hafi oft átt upptök sín á því fyrra. Þar við bætast demókratarnir Harry S. Truman og Lyndon B. Johnson, sem voru varaforsetar, tóku við þegar forverar þeirra létust og sigruðu síðan í næstu forsetakosningum. Dwight D. Eisenhower, Richard M. Nixon og Ronald W. Reagan náðu endurkjöri eins og Clinton.

Annað kjörtímabil erfiður hjalli

Allir fimm lentu í erfiðleikum á seinna kjörtímabilinu og þar af settu hneyksli mark sitt á valdatíma fjögurra. Nixon neyddist til að segja af sér, Reagan var lengst af í vörn og svo hafði fjarað undan Truman og Johnson að þeir ákváðu að sækjast ekki eftir endurkjöri. Í öllum tilfellunum sótti flokkur andstæðinganna í sig veðrið á meðan á seinna kjörtímabilinu stóð.

Clinton kveðst hafa kynnt sér sögu þessara forseta og hyggst reyna að læra af mistökum þeirra. Hann segir að af lestri sínum ráði hann að þeir forsetar, sem ekki hafi orðið utanaðkomandi atburðum að bráð, hafi ýmist lent í vandræðum vegna ofdrambs eða staðnað.

"Stundum heldur forseti að hann hafi meira umboð en hann hefur og færist of mikið í fang," sagði Clinton á blaðamannafundi nokkrum dögum eftir að hann var endurkjörinn. "Stundum þverr honum einfaldlega máttur."

Clinton hyggst læra af sögunni

Clinton hyggst reyna að forðast þessar gryfjur, vinna með þinginu og hafa rétt fólk í kring um sig til að efna loforð sín frá kosningabaráttunni. "Söguleg vandræði eru mér ofarlega í huga og ég ætla að reyna að vinna bug á þeim," sagði Clinton. "Ég er ekki haldinn þessum venjulega ótta forseta á öðru kjörtímabili. Ég er ekki bensínlaus, ég er ekki búinn að missa máttinn, ég er ekki þurrausinn af hugmyndum.

Stephen Hess, fræðimaður við Brookings-stofnunina, heldur því fram að forsetar fari í hringi meðan þeir eru í embætti, en Clinton virðist hins vegar skilja hvað hafi hrjáð forvera hans.

"Hann veit að ætli hann sér að gera eitthvað er best fyrir hann að láta til skarar skríða á fimmta árinu í embætti," sagði Hess í viðtali við dagblaðið The Washington Post. "Þess vegna hefur hann lagt áherslu á tryggð og þekkingu þegar hann hefur safnað liði. Hann hefur veitt mönnum stöðuhækkanir innan frá vegna þess að hann veit að það er ekki tími til að þjálfa fólk í starfi."

Clinton virtist í stefnuræðu sinni halda að með smáum skrefum gæti hann fengið miklu áorkað. Þar kom einnig sterklega í ljós að hann ætlast til þess að almenningur finni til ábyrgðar á því hvaða stefnu þjóðfélagið tekur. Það þarf hins vegar meira en orð til þess að þessi ósk forsetans rætist.

Hingað til hefur Clinton sýnt að hann er slægur stjórnmálamaður. Hann sigraði í kosningunum 1992 eftir erfiða kosningabaráttu gegn forseta, sem í upphafi kosningaársins átti ótrúlegum vinsældum að fagna. Tveimur árum síðar missti flokkur hans völd í báðum deildum þingsins fyrsta sinni frá því að Truman var við völd. Flestir afskrifuðu Clinton, en honum tókst engu að síður að ná endurkjöri. Þennan árangur má ekki vanmeta, en Clinton vill hins vegar ekki að það verði það eina, sem hann skilur eftir sig.

Clinton verður að passa sig á að oftúlka ekki fylgi sitt í skoðanakönnunum, en um leið verður hann að nota þennan byr til að hrifsa frumkvæðið á meðan repúblikanar eru í sárum vegna áfalla Gingrich. Hann hefur gætt þess að snúa ekki hnífnum í sárinu og hefur einnig sýnt að hann er reiðubúinn til samstarfs við repúblikana með því að skipa einn úr þeirra röðum, William Cohen, varnarmálaráðherra.

Áhersla á heimsviðskipti

Oft er auðveldara fyrir forseta að fara sínu fram í utanen innaríkismálum. Samskipti Ísraela við Palestínumenn og granna sína - hið svokallaða friðarferli - munu verða prófsteinn. En oft virðist horft fram hjá því, sem Clinton lagði í raun mesta áherslu á undanfarin fjögur ár: alþjóðlegum viðskiptum. Hann hefur reynt að tryggja viðskipti Bandaríkjamanna í öllum heimshlutum. Hann knúði NAFTA fram og stefnir á að bæta Chile við það viðskiptasvæði, sem Bandaríkin, Kanada og Mexikó tilheyra nú þegar. Chile er í viðskiptabandalagi við Brasilíu, þannig að eitt risastórt viðskiptasvæði í Vesturálfu virðist vera innan seilingar, hvort sem menn telja það til góðs eða ills.

Hann hefur lagt ofurkapp á viðskipti við Asíu og hefur ráðamönnum í Evrópu oft verið nóg boðið. En hann hefur einnig reynt að komast til móts við Evrópusambandið og efla viðskiptin í þá áttina. Um leið hafa Bandaríkjamenn leikið lykilhlutverk í Heimsviðskiptastofnuninni. Áhersla Clintons á viðskipti og efnahagsmál sést ef til vill best á því að stofnaði sérstakt efnahagsráð, sem á að gegna sama ráðgjafarhlutverki við forsetann á sínu sviði og þjóðaröryggisráðið, sem var afsprengi kalda stríðsins og var mikilvægt í stefnumótun Bandaríkjamanna í því.

Einkunnagjöf sagnfræðinga

Arthur M. Schlesinger sagnfræðingur var aðstoðarmaður Kennedys. Hann gerði nýlega skoðanakönnun meðal 32 sagnfræðinga og bað þá um að gefa forsetum Bandaríkjanna einkunn. Afraksturinn birtist nýverið í The New York Times Magazine, sem fylgir samnefndu blaði á sunnudögum. Aðeins þrír forsetar náðu því að geta talist "miklir", George Washington, Abraham Lincoln og Roosevelt. Sex voru nærri því að vera "miklir" í augum sagnfræðinganna. "Meðalmönnum" í forsetastóli var skipt í tvennt. Sjö voru í efra kannti meðalmennsku, þar á meðal Eisenhower, Kennedy og Johnson. Flestir töldust í neðra kannti meðalmennsku. Meðal þeirra voru fimm síðustu forsetar Bandaríkjanna, að Clinton meðtöldum. Sjö forsetar fengu þá einkunn að hafa verið misheppnaðir og var Nixon þar fremstur í flokki.

Clinton hefur það fram yfir alla hina forsetana, sem Schlesinger bað sagnfræðingana um að draga í dilka, að hann á þess enn kost að fá einkunn sinni breytt.

BILL Clinton Bandaríkjaforseti og Hillary, kona hans, dansa fyrsta dansinn eftir að forsetinn sór embættiseið öðru sinni á mánudag.

Reuter

WILLIAM Rehnquist, forseti hæstaréttar Bandaríkjanna, lætur Bill Clinton fara með embættiseið forseta Bandaríkjanna. Á milli forsetans og dómarans standa Chelsea, dóttir Clintons, og Hillary, kona hans. Í baksýn sjást Al Gore varaforseti og Tipper, kona hans.

FJÖLDI fólks safnaðist saman þá þrjá daga, sem hátíðahöld í tilefni af innsetningu Clintons í embætti forseta stóðu yfir. Á svæðinu milli Hvíta hússins og þingsins, sem sést í bakgrunni, voru upphituð tjöld, þar sem haldnir voru fyrirlestrar og fleira.

BILL Clinton ber bongótrommur á innsetningardansleik og reynir að finna taktinn fyrir næstu fjögur ár í embætti.