Fjölskyldulausa þjóðfélagið Kaupmannahafnarbréf Íslendingar eru með afbrigðum frændræknir, en aftur á móti gegnir frændrækni margfalt minna hlutverki í Danmörku. Sigrún Davíðsdóttir veltir hér fyrir sér ýmsum hliðum frændrækni.

Fjölskyldulausa þjóðfélagið Kaupmannahafnarbréf Íslendingar eru með afbrigðum frændræknir, en aftur á móti gegnir frændrækni margfalt minna hlutverki í Danmörku. Sigrún Davíðsdóttir veltir hér fyrir sér ýmsum hliðum frændrækni.

AMMA, eru fjölskyldur mikið saman á Íslandi?" spurði tíu ára Íslendingurinn, búsettur í Danmörku, mömmu sína, þegar hann hafði dvalið um hríð á Íslandi og gengið þar í skóla. Mamman kvað svo vera. Fjölskyldutengslin væru tvímælalaust meira ræktuð á Íslandi en í Danmörku, en spurði svo af hverju honum dytti þetta í hug. Svarið var að einu sinni eftir skóla á Íslandi þá heyrði hann bekkjarfélaga segja við annan að hann ætlaði að fara í heimsókn til frænku sinnar. Sá tíu ára minntist þess ekki að hafa nokkru sinni heyrt dönsk skólasystkin tala um það í miðri viku að þau ætluðu að skreppa í heimsókn til skyldmennis. Og bragð er að þá barnið finnur: frændrækni er ekki fyrirferðarmikil í dönsku þjóðfélagi, sérstaklega ekki í stórborgarsamfélagi eins og í Kaupmannahöfn. En það er ekki aðeins frændræknin sem er lítil. Það stefnir í að meirihluti fullorðinna Dana búi einsamall. Í Danmörku er meðalfjölskyldustærð 1,8, en í íslenskri meðalfjölskyldu eru heilar þrjár manneskjur. En kannski er þróunin ekki nein tilviljun, því ýmsir hafa bent á að velferðarþjóðfélagið leysi í raun fjölskylduna upp með því að draga úr þörfinni á samheldni hennar.

Hinar ýmsu birtingarmyndir frændseminnar

Það vantar annars ekki að Danir hafi nákvæm frændsemisheiti. Á því sem Íslendingar kalla í daglegu tali frænda" og frænku" hafa Danir ýmis heiti, svo sem fætter", kusine", faster", moster" og nevø" og nota þessi orð af mikilli nákvæmni. Íslendingar tala um ömmu" og afa" en Danir gera greinarmun á móður- og föðurforeldrum, tala um morfar", farfar" og svo framvegis. Að baki liggur sú undarlega staðreynd að Danir hafa frændsemisheitin nákvæmlega á takteinum, þótt frændrækni þeirra sé í lágmarki. Íslendingar eru ekki sérlega nákvæmir í frændsemisheitunum og nota þau venjulega ekki nema þegar þarf að tilgreina í hverju skyldleikinn liggur, en hins vegar er frændræknin vel þroskaður eiginleika þeirra flestra.

Það er kannski erfitt að mæla hvort frændrækni eykst, en ættarmótin íslensku eru þó vísbending í þá átt, því þeim virðist heldur fara fjölgandi en hitt og æ meira í þau lagt. Heilu ættbogarnir koma saman, mörg hundruð manns, og það er ekki lengur látið nægja að hittast í einhverju félagsheimili yfir kaffibolla, heldur er ráðist í alls kyns sameiginlegar framkvæmdir. Það getur heldur betur fengið kjálkann á Dönum til að síga af undrun að heyra um ættarmót, þar sem um hundrað jeppar fullir af einum og sama ættboganum þeystu yfir hálendið saman.

Önnur hlið frændrækninnar er svo auðvitað fjörleg útgáfustarfsemi í kringum ættrakninguna. Nú eru heimilistölvurnar lagðar undir þessa iðju. Þessi hlið frændrækninnar er alveg séríslensk og kemur útlendingum rækilega á óvart, þegar þeir rekast á ættarskrár og ættfræðiforrit hjá íslenskum vinum og kunningjum. Hér geta menn almennt ekki rakið ættir sínar nema örfáar kynslóðir. Eitt sinn var ég á tali við Ítala, sem sagði mér nokkuð stoltur að fjölskylda hans gæti með vissu rakið ættir sínar alla leið aftur til aldamótanna 1800. Það þarf vart að skýra út fyrir íslenskum lesendum hversu ámátlega ættlaus maður með svo skamma ættartölu er í íslenskum augum, þegar flestir Íslendingar geta rakið ættir sínar aftur í goðafræðina, þótt óvissuþátturinn aukist í réttu hlutfalli við lengd tölunnar.

Og enn önnur hlið frændrækninnar er svo auðvitað að fólk þekkist, Íslendingar þekkja ættmenni sín og geta rakið saman ættir þvers og kruss. Og það fyrsta sem Íslendingar gera alment þegar þeir kynnast einhverjum landa sínum er að staðsetja viðkomandi og tengja hann ættmennum. Allt er þetta fjarri Dönum, og reyndar flestum öðrum nágrannaþjóðum, ekki aðeins vegna þess að fólkið er fleira og hefur flutt milli landshluta, heldur einnig vegna þess að skilningurinn á gildi ættrakningar er ekki fyrir hendi.

Hinn beinharði ágóði frændrækninnar

Kannski lifir frændræknin svona góðu lífi á Íslandi af því að Íslendingar hafa það bara í sér að vera frændræknir og af því að það er hluti af lífinu að hafa samband við skyldmenni sín. Íslendingar, sem flutt hafa frá Íslandi og stórum fjölskyldum sínum þar, hafa oft á orði að til mótvægis við söknuðinn eftir fjölskyldunni, sem auðvitað geri vart við sig, þá komi að það gefist meiri tími til að sinna öðru en fjölskyldunni og því fylgir kannski örlítill léttir.

En félagsfræðingar gleypa örugglega ekki við því að Íslendingar séu bara frændræknir svona sisona, heldur myndu vilja huga að þeim hag, sem fólk hefði af því að rækta fjölskyldutengslin. Hinn beinharði ágóði frændrækninnar er ekki aðeins að fá útgefnar ættarskrár með nafninu sínu og komast á ættarmót, heldur fyrst og fremst að geta hnippt í ættmennin, þegar mikið liggur við. Greiði kemur á móti greiða og það er svo notalegt að geta bara haldið sig við fólk, sem maður þekkir eða þekkir til. Hin hliðin á notalegheitunum er svo það sem kallast nepótismi", sumsé það að hygla ættmennum fram yfir aðra.

Í augum útlendinga, sem þekkja til á Íslandi, er lítill vafi á að þetta er lenska á Íslandi og í augum þeirra hefur þetta óneitanlega á sér yfirbragð spillingar. En á meðan Íslendingum finnst almennt að þetta sé eðlileg aðferð, sem allir njóti góðs af, þá þykir þetta vísast ekkert í ætt við spillingu, þó útlendingum kunni að þykja það. En það er alltént hvorki auðvelt að vera útlendingur í svona þjóðfélagi og hafa ekki ættartengslin, né er auðvelt að vera ættlítill eða öllu heldur að eiga fáa að, sem eiga lítið undir sér.

Frá fjölskylduþjóðfélagi til einstæðingaþjóðfélags

Frændræknin hefur á sér margar hliðar og ein þeirra er samheldni og hjálpsemi. Ekki er til dæmis ósennilegt að fyrir daga húsbréfakerfisins hafi það verið algengara að foreldrar reyndu að hjálpa börnum sínum við húsakaup, annaðhvort með beinum fjárframlögum eða með því að hjálpa þeim við að taka lán. Ömmur og afar passa barnabörnin, börn og tengdabörn hugsa um gamalmennin, systkin og tengdafólk hjálpast að við flutninga, að gera upp hús eða fóstra börnin í fjölskyldunni þegar á þarf að halda. Allt eru þetta samskipti sem virðast mun algengari á Íslandi en í Danmörku.

Og allt er þetta þjónusta, sem á einhvern hátt er sett í kerfi í Danmörku eða vinargreiðar, sem leystir eru utan fjölskyldunnar. Húsnæðislánakerfi hefur fyrir löngu gert börn fjárhagslega sjálfstæð gagnvart foreldrum og í sömu átt hníga aðrar félagslegar bætur til ungs fólks. Barnapössun er rækilega uppfyllt af hinu opinbera og hjálpsemi fer að mestu fram milli óskyldra, eins og nágranna og vinnufélaga, sem venjulegur Dani hittir margfalt oftar en skyldmenni sín.

En það má leiða að því líkur að velferðarþjóðfélagið, sem hefur að mörgu leyti leyst af hólmi þjónustuhlutverk fjölskyldunnar, vegi um leið að rótum fjölskylduþjóðfélagsins. Í velferðarþjóðfélaginu er einstaklingurinn minnsta einingin, ekki fjölskyldan. Í Danmörku, þar sem velferðarkerfið hefur verið byggt upp sem þjónustukerfi, má álykta sem svo að það hafi ef til vill líka leitt til þess að fjölskyldan sé á góðri leið með að verða umfröm, því æ fleiri velja að búa einir, fremur en í fjölskyldu og þess verður skammt að bíða að helmingur fullorðinna búi einir. Þá er þessi þróun í átt frá fjölskylduþjóðfélagi yfir í einstæðingaþjóðfélag ekki tilviljun ein. Frændræknin er ekki endilega eingöngu af hinu góða, en sama má segja um hvarf frændrækninnar.