Fólk HOLLENSKI leikstjórinn Jan DeBont er tekinn til við að filma framhaldsmyndina Speed 2".

Fólk

HOLLENSKI leikstjórinn Jan DeBont er tekinn til við að filma framhaldsmyndina Speed 2". Í stað Keanu Reeves, sem ekki þáði 11 milljónir dollara fyrir að endurtaka rulluna, var Jason Patric fenginn til að leika á móti Söndru Bullock er átti ekki í neinum vandræðum með að endurtaka leikinn. Framhaldið gerist um borð í skemmtiferðaskipi en óþokkinn Willem Dafoe hefur komið því svo fyrir að það stefnir hraðbyri á næsta hafnarbæ.

Indverski leikstjórinn Mira Nair (Saalam Bombay!") hefur gert nýja mynd sem heitir einfaldlega Kama Sutra: Ástarsaga". Með aðalhlutverkin fara óþekktir indverskir leikarar, Indira Varma, Sarita Choudhury, Ramon Tikaram og Naveen Andrews. Myndin dregur nafn sitt af kynlífskveri hindúa en leikstjórinn Nair segir að aðaláherslan sé ekki á líkamsstellingar.

Kraftaverkamyndin Brimbrot eftir danska leikstjórann Lars von Trier hefur unnið til óteljandi verðlauna um allan heim, m.a. verðlaun samtaka kvikmyndagagnrýnenda í New York. Trier hlaut verðlaun sem besti leikstjórinn, Emily Watson fékk verðlaun sem besta leikkonan og kvikmyndatökumaðurinn Robby Muller fékk verðlaun fyrir bæði Triermyndina og mynd Jim Jarmusch, Dauður maður. Þá hreppti Brimbrot Felixinn sem besta mynd síðasta árs og fern helstu verðlaunin sem samtök bandarískra kvikmyndagagnrýnenda veita ár hvert. Myndin hefur unnið til verðlauna í Haugasundi, Stokkhólmi, Toronto, Edinborg og fékk tvær útnefningar til Golden Globe verðlaunanna. Í Danmörku hafa 220.000 manns séð myndina og um 90.000 manns í Noregi og annað eins í Svíþjóð. Hér á landi hafa um 6.000 manns séð myndina.