Haldin fullkomnunaráráttu BARBRA Streisand er einn þekktasti skemmtikraftur samtímans og þykir hún haldin mikilli fullkomnunaráráttu og heldur hún gjarnan um stjórnvölin í þeim verkefnum sem hún á aðild að. Hún er fædd í Brooklyn í New York 24. apríl...

Haldin fullkomnunaráráttu

BARBRA Streisand er einn þekktasti skemmtikraftur samtímans og þykir hún haldin mikilli fullkomnunaráráttu og heldur hún gjarnan um stjórnvölin í þeim verkefnum sem hún á aðild að. Hún er fædd í Brooklyn í New York 24. apríl 1942, lauk framhaldsskólaprófi tveimur árum á undan áætlun og starfaði sem gengilbeina og símavörður á meðan hún skapaði sér nafn sem söngkona í kabarettsýningum á Manhattan. Sérstæð söngrödd hennar og sterk sviðsframkoma færði henni von bráðar fjölmennan aðdáendahóp og svo fór að hún hreppti smáhlutverk í söngleiknum I Can Get It for You Wholesale sem sýndur var á Broadway og hlaut hún verðlaun gagnrýnenda í New York fyrir hlutverkið. Stóra hlutverkið og það sem gerði hana fræga svo um munaði var í Funny Girl sem sýnt var á Broadway, en hún fór einnig með hlutverkið í kvikmyndagerð verksins (1968) og fylgdi milljóna dollara samningur við CBS-hljómplötuútgáfuna í kjölfarið. Streisand hefur sópað að sér fleiri gullplötum en aðrir listamenn, en hljómplötur hennar sem komist hafa á vinsældalista skipta tugum og hún hefur hlotið sjö Grammy-verðlaun.

Eftir að hafa leikið í kvikmyndinni Funny Girl varð Streisand einhver eftirsóttasta leikkona áttunda áratugarins, en meðal mynda sem hún lék þá í eru Hello Dolly!, On a Clear day You Can See Forever, What's Up, Doc?, The Way We Were, For Pete's Sake, Funny Lady, og A Star Is Born. Árið 1983 þótti Streisand taka mikla áhættu þegar hún varð fyrsta konan til að leikstýra, framleiða, skrifa handritið að og leika aðalhlutverkið í kvikmynd. Þetta var Yentl, sem reyndar gerði heldur litla lukku, en hljómplata með lögum úr myndinni náði þó inn á topp 10 vinsældalistann í Bandaríkjunum. Næsta mynd sem hún lék í var Nuts sem gerð var 1987, og árið 1991 leikstýrði hún annarri mynd sinni og fór jafnframt með aðalhlutverkið. Það var The Prince of Tides sem Nick Nolte lék í á móti Streisand.

Barbra Streisand á eitt hjónaband að baki en á sjöunda áratugnum var hún gift leikaranum Elliot Gould og áttu þau son saman. Hún átti svo í löngu ástarsambandi við hárgreiðslumeistara sinn, Jon Peters, sem síðar varð kvikmyndaframleiðandi og síðan fylgdu ýmsir kærastar í kjölfarið og var Don Johnson á meðal þeirra, en núverandi fylgisveinn hennar er leikarinn James Brolin.