KVIKMYNDIR/Stjörnubíó sýnir rómantísku gamanmyndina Tvö andlit spegils, The Mirror Has Two Faces, en í henni eru kannaðar goðsagnir nútímans um fegurð og kynlíf og hvernig þær flækja ástarsambönd fólks.

KVIKMYNDIR/Stjörnubíó sýnir rómantísku gamanmyndina Tvö andlit spegils, The Mirror Has Two Faces, en í henni eru kannaðar goðsagnir nútímans um fegurð og kynlíf og hvernig þær flækja ástarsambönd fólks. Með aðalhlutverkin í myndinni fara þau Jeff Bridges og Barbra Streisand sem jafnframt er leikstjóri og framleiðandi myndarinnar.

Umbúðir

og innihald

OSE Morgan (Barbra Streisand) kennir rómantískar bókmenntir við Columbia-háskólann í New York, en hvergi er að finna nokkra rómantík í lífi hennar sjálfrar og heitar ástríður eru það sem hún þráir helst af öllu. Hún býr hjá stjórnsamri móður sinni, Hönnu Morgan (Laureen Bacall), sem leggur höfuðáherslu á það að dóttir sín hugsi um útlit sitt og skarti sínu fegursta. Yngri systir Rose, Claire (Mimi Rogers), leggur líka ofuráherslu á ytri fegurð og reynir hún hvað hún getur að stjórna systur sinni, en Rose leggur meiri áherslu á innri fegurð í lífinu. Hún reynir þó að taka þátt í samkvæmislífinu og slá sér upp, en oftast afþakkar hún þau stefnumót sem henni standa til boða. Hún er hrifin af unnusta systur sinnar, Alex (Pierce Brosnan), en gerir sér þó grein fyrir að hann verður aldrei hennar.

Gregory Larkin (Jeff Bridges) kennir stærðfræði við sama háskóla og Rose og hefur hann átt í mörgum misheppnuðum ástarsamböndum og stendur hann í þeirri trú að ofuráhersla hans á kynlíf hafi átt stærstan þátt í að spilla samböndunum. Hann ákveður að venda kvæði sínu í kross og setur auglýsingu í einkamáladálk í dagblaði þar sem hann óskar eftir að komast í kynni við konu sem hafi svipuð áhugamál og markmið í lífinu og hann sjálfur, og setur hann það skilyrði að hún hafi doktorsgráðu og sé eldri en 35 ára. Ytra útlit skipti hins vegar engu máli. Claire svarar auglýsingunn fyrir hönd systur sinnar að henni forspurðri og þegar þau hittast kemur í ljós að þau eru ólík að flestu leyti en þrátt fyrir það kemur þeim einstaklega vel saman. Svo fer að þau gera með sér samkomulag sem stríðir á flestan hátt á móti ríkjandi venjum og ákveða að ganga í hjónaband þar sem andleg ást á að vera æðri kynlífinu og hafa allan forgang. Þegar í hjónabandið er komið kemur í ljós að samkomulag þeirra býður heim ýmsum ófyrirséðum ruglingi og þá sérstaklega þegar annað þeirra tekur heljarmiklum breytingum sem setja vandlega ígrundaðan hjónabandssáttmála þeirra allan úr skorðum.

Höfundur handritisins að The Mirror has Two Sides er Richard La Gravenese sem m.a. skrifaði handritið að The Fisher King sem Jeff Bridges fór með aðalhlutverkið í ásamt Robin Williams, en hann hlaut tilnefningu til Óskarsverðlaunanna fyrir það handrit. Hann segir að tálsýnin um yfirborðslega fegurð og kraftmikið kynlíf sem henni fylgi valdi margvíslegum vandamálum. "Á okkur dynur flóð auglýsinga, kvikmynda og sjónvarpsþátta þar sem ómögulega fullkomið fólk heyrir himneska tónlist þegar það hrífst hvert af öðru. Venjulegt útlit, venjulegur samdráttur og venjulegar tilfinningar er einhvern veginn hvergi að finna. Vekur það ekki forvitni og furðu að á meðan æ fleira fólk helgar sig því að rækta eigið sjálf þá er hin hamstola leit að fegurð örvæntingarfyllri og ákafari en nokkru sinni fyrr?" segir La Gravenese.

Nokkrir þekktir leikarar fara með aukahlutverk í The Mirror has Two Faces. Sem fyrr segi fer Laureen Bacall með hlutverk móður Rose, en hún hlaut á dögunum Golden Globe-verðlaunin fyrir hlutverkið. Bacall, sem á sínum tíma var gift Humprey Bogart, er að kalla má lifandi goðsögn, en hún lék í mörgum klassískum kvikmyndum gullaldarskeiðsins í Hollywood á fimmta og sjötta áratugnum. Meðal mynda sem hún hefur leikið í eru The Big Sleep, Key Largo, Murder on the Orient Express, The Fan og Misery. Pierce Brosnan er óþarfi að kynna, en hann ættu allir að þekkja sem nýjasta Bondinn, og gamla kempan George Segal fer með hlutverk vinar Gregorys.

ROSE og Gregory eru ólík en kemur einstaklega vel saman þrátt fyrir það.

LAUREEN Bacall hlaut Golden Globe-verðlaunin fyrir leik sinn í The Mirror Has Two Sides.