Oliver Stone tekur U-beygju STONE er önnum kafinn við að kvikmynda nýjustu mynd sína sem fengið hefur heitið U-beygja eða "U-turn". Hún hét áður "Stray Dogs" en það þótti of líkt enskri þýðingu á Kurosawa-mynd frá 1949 er hét "Stray Dog".

Oliver Stone tekur U-beygju

STONE er önnum kafinn við að kvikmynda nýjustu mynd sína sem fengið hefur heitið U-beygja eða "U-turn". Hún hét áður "Stray Dogs" en það þótti of líkt enskri þýðingu á Kurosawa-mynd frá 1949 er hét "Stray Dog".

Myndin er tekin í smábæ í Arizona og gerist í einum slíkum. Hún gerist á einum degi og segir frá flækingi er blandast inn í undarleg mál bæjarbúa sem hafa ekkert gott í huga. Leikendur í myndinni eru ekki af verri endanum: Sean Penn, Jon Voight, Nick Nolte, Claire Danes og Jennifer Lopez. "Þessi mynd er ekki ólík "Bad Day at Black Rock"" er haft eftir Stone (með Spencer Tracy, var sýnd fyrir skemmstu í ríkisstjónvarpinu) og hann bætir við að hún sé líka skyld ýmsu í "Red Harvest".

Stone segist vera orðinn dauðleiður á dýru Hollywood-myndunum sem hann hefur verið að gera að undanförnu. U-beyja er tekin á 38 dögum fyrir helmingi minni peninga en Nixon kostaði. Og ólíkt síðustu myndum leikstjórans er þessi hreinn skáldskapur.

MINNI, einfaldari mynd; Stone við tökur á U-beygju.