Virtur og viðurkenndur JEFF Bridges hefur þrívegis verið tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir kvikmyndaleik en þótt hann hafi aldrei hreppt verðlaunin eftirsóttu hefur honum fallið margvíslegur annar heiður í skaut.

Virtur og viðurkenndur

JEFF Bridges hefur þrívegis verið tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir kvikmyndaleik en þótt hann hafi aldrei hreppt verðlaunin eftirsóttu hefur honum fallið margvíslegur annar heiður í skaut. Hann er sonur kvikmyndaleikarans Lloyd Bridges og var aðeins fjögurra mánaða gamall þegar hann kom fyrst fram í kvikmynd, en hann á nú að baki hátt í fimmtíu kvikmyndir og fjölda sjónvarpsmynda. Bridges er fæddur í Los Angeles en hann lærði leiklist í Beghof Studio í New York. Fyrsta raunverulega kvikmyndahlutverk hans var í myndinni Halls of Anger sem gerð var 1969 og skömmu síðar lék hann á móti Stacey Keach í Fat City. Hann lék síðan á móti Clint Eastwood í Thunderbolt and Lightfoot og var tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir það hlutverk. Í gegnum tíðina hefur Bridges leikið í kvikmyndum margra þekktustu leikstjóra samtímans og má þar nefna þá Peter Bogdanowich, Alan J. Pakula, Francis Ford Coppola, Sidney Lumet, John Huston og John Carpenter. Meðal mynda sem hann hefur leikið í eru The last Picture Show, sem hann fékk aðra tilnefningu til Óskarsverðlauna fyrir, King Kong, Stay Hungry, 8 Million Ways to die, the Fabulous Baker Boys, The Morning After, Jagged Edge, The Vanishing, The Fisher King, sem hann var tilnefndur til þriðju Óskarsverðlaunanna fyrir, Fearless, Blown Away og White Squall.

Árið 1988 varð Jeff Bridges yngsti leikarinn til að hljóta þann heiður að sérstök kvikmyndakynning var tileinkuð honum hjá National Film Theater í London, en þar voru helstu myndir hans sýndar á þriggja vikna kvikmyndahátíð. Fleiri viðurkenningar hafa fallið honum í skaut auk Óskarstilnefninga og Golden Globe-verðlauna og sem dæmi má nefna að árið 1990 völdu samtök kvikmyndahúsaeigenda í Bandaríkjunum hann stjörnu ársins og á meðan tökur á The Mirror Has Two Sides stóðu yfir hélt borgarlistasafnið í Los Angeles mánaðarlanga sýningu sem tileinkuð var fjölbreyttum leikferli hans. Bridges er fleira til lista lagt en kvikmyndaleikur, en hann hefur samið yfir 70 dægurlög og auk þess er hann liðtækur ljósmyndari og listmálari. Verk eftir hann er að finna í sýningarsölum í Los Angeles og Montana þar sem hann á búgarð, en annars býr hann ásamt eiginkonu sinni og dætrum í Santa Monica í Kaliforníu.