Þrír menn og þrjár myndir BRESKI kvikmyndaiðnaðurinn hefur gengið í endurnýjun lífdaga með myndum Mike Leigh (Leyndarmál og lygar) og Ken Loach (Land og frelsi) en ekki síst samstarfi þriggja manna sem gert hafa tvær af athyglisverðustu og vinsælustu...

Þrír menn og þrjár myndir

BRESKI kvikmyndaiðnaðurinn hefur gengið í endurnýjun lífdaga með myndum Mike Leigh (Leyndarmál og lygar) og Ken Loach (Land og frelsi) en ekki síst samstarfi þriggja manna sem gert hafa tvær af athyglisverðustu og vinsælustu myndum Breta síðustu ára, "Shallow Grave" og Trainspotting". Þeir heita Danny Boyle, sem leikstýrir, Andrew McDonald, sem framleiðir, og John Hodge, sem skrifar handritin. Í hópinn má bæta fjórða manninum, leikaranum Ewan McGregor, en hann hefur leikið í myndum þeirra hingað til og leikur líka í þeirra nýjustu sem heitir A Life Less Ordinary". Hana gera þeir í Hollywood.

oyle er elstur félaganna, fæddur í Manchester árið 1956, og hefur reynslu af leikstjórn í sjónvarpi. Næstur er Hodge sem fæddur er árið 1964 í Glasgow en hann starfar sem læknir þegar hann er ekki að skrifa kvikmyndahandrit. Framleiðandinn McDonald er fæddur árið 1966 í Glasgow einnig og hafði áður unnið hjá skoska sjónvarpinu. Þeir eru vaxtarbroddurinn í breskri kvikmyndagerð en Bretar hljóta að hafa áhyggjur af því að þeir eru teknir að vinna í Hollywood.

Draumaverksmiðjan kaupir hæfileikamenn alls staðar að úr heiminum og það var aðeins spursmál hvenær þremenningarnir flyttust vestur. Hróður þeirra barst þangað og víðar eftir fyrstu myndina, "Shallow Grave". Það var svört kómedía um ungt fólk sem tók rangar ákvarðanir þegar leigjandi þeirra geispaði golunni í íbúðinni þeirra og skildi eftir helling af seðlum. Þegar hún var frumsýnd í Bretlandi var Hodge þegar byrjaður á nýju handriti sem fékk nafnið Trainspotting". Sú mynd félaganna fór sigurför um heiminn; hér á landi komst hún í 18. sæti yfir mestsóttu myndir síðasta árs með 21.300 áhorfendur og varð mest sótta breska myndin hér í áraraðir. Hún var enda gómsæt svört kómedía um líf eiturlyfjaneytenda í Edinborg gerð eftir frábærlega vel skrifuðu handriti og fastur leikari hópsins, McGregor, fór á kostum.

Enn var Hodge kominn af stað með handrit þegar þetta var. A Life Less Ordinary" blandar saman rómantík, spennu og gríni að sögn þeirra félaga og fjallar um húsvörð (McGregor) í skrifstofubyggingu sem rænir dóttur yfirmanns síns en hún er leikin af Cameron Diaz. Á flóttanum koma við sögu tvær skuggalegar manneskjur sem þeim stafar mikil ógn og hætta af en þær eru leiknar af Holly Hunter og Delroy Lindo.

Myndin var fyrst hugsuð sem bresk framleiðsla en frægð hópsins spilaði inní og Fox-kvikmyndaverið keypti allan pakkann og flutti vestur um haf. Hún er fimm sinnum dýrari en "Trainspotting" en höfundarnir segjast ekki tapa niður neinum sérkennum sínum við flutninginn vestur þótt handritið hafi tekið nokkrum breytingum þegar sögusviðið breyttist. Er á þeim að heyra að það hafi orðið minna breskt en meira amerískt, sem vonlegt er.

Næsta mynd þremenninganna mun heita Alien Love Triangle". McGregor vonar að hann verði í henni einnig. Maður vonar það sama.

Komnir til Ameríku: framleiðandinn Andrew McDonald, leikstjórinn Danny Boyle og handritshöfundurinn John Hodge.

Arnald

Indriðason