MATARLIST/Er offita sjúkdómur nútímans? Rétt mataræði og holl hreyfing útíminn er fullur af megrunartali, megrunarkúrum, fitubrennslunámskeiðum, megrunardufti, megrunarbuxum, maganuddtækjum og áfram mætti lengi telja.

MATARLIST/Er offita sjúkdómur nútímans? Rétt mataræði og holl hreyfing útíminn er fullur af megrunartali, megrunarkúrum, fitubrennslunámskeiðum, megrunardufti, megrunarbuxum, maganuddtækjum og áfram mætti lengi telja. Allir eru farnir að þekkja Gauja litla í Dagsljósi og menn fylgjast spenntir með kílóunum hrynja af honum. Sjálf dáist ég að dugnaði hans.

Án efa hefur verið hægt að finna feitlagið fólk á meðal hinna fornu menningarþjóða Egypta, Assiría, Rómverja og Grikkja. Ef marka má bókmenntir og styttur frá þessum tíma var það í miklum minnihluta. Hinum svallgjörnu átvöglum (sem rómversku keisararnir voru) er meira að segja sjaldan lýst sem feitum. Í The British National Gallery gefur að líta myndir af grönnum konungum, drottningum og hirðfólki allt frá þrettándu öld og fram á þá 17. Um miðbik 17. aldar fer offita hins vegar að "ryðja sér til rúms". Aukin velmegun á Vesturlöndum leiddi af sér aukna sykurneyslu (því sykur var dýr) og aukna fituneyslu. Offita hefur verið að þróast síðan upp í að verða algengt líkamlegt ástand hjá fólki á Vesturlöndum. Þetta vandamál er ekki nærri því eins mikið í vanþróaðri löndum líkt og Afríku og alls ekki til staðar í sumum löndum þriðja heimsins. Hins vegar má geta þess að um þriðjungur kvenna í Bretlandi finnst þær vera of feitar og um 40% Bandaríkjamanna eiga við offituvandamál að stríða. Öll þessi megrunarumræða orsakar því miður marga slæma hluti, anorexíu t.a.m., en þá fá menn á vitundina að þeir séu alltaf of feitir, þó ekkert séu nema skinn og bein. Sérstaklega hrjáir anorexía ungar stúlkur, sem oft vilja vera eins og "súpermódelin", en ganga heldur betur út í öfgar og missa stjórn á lífi sínu nánast á stundum.

Það sem hins vegar er til umræðu hér er offituvandamálið og af hverju það stafar. Ein manneskja getur borðað á við hest, troðið í sig öllum mögulegum mat, fitandi eða ekki, án þess að fitna. Önnur manneskja sem jafnvel borðar fituminni mat getur ómögulega haldið sér í hæfilegri þyngd, hún fitnar við hvern bita. Þetta virðist ekki vera sanngjarnt og oft hefur maður heyrt sagt í pirrings- og jafnvel reiðitón frá þeim sem fitnar við þann sem allt getur í sig sett án þess að fitna: "O, ég þoli ekki að þú getir borðað rjóma, súkkulaði, hnetur, smjör og hvað sem þú vilt án þess að hlaupa í spik, ef ég æti það sem þú setur í þig á hverjum degi væri ég eins og flóðhestur." En það er nú bara þannig að við erum eins misjöfn og við erum mörg. Einn hefur rautt hár og annar svart. Eins þolir fólk misjafnlega vel hinar ýmsu fæðutegundir. Á sama hátt er fólk ólíkt hvað varðar vöxt. Í raun er afskaplega dónalegt ­ í það minnsta tillitslaust ­ að vera með svona dylgjur út í fólk hvort sem það er grannt eða feitt, það er í raun álíka og að segja: "Ha, sjá þig fitubolla, þú mátt nú ekki borða eina karamellu og þú hleypur í spik," eða: "Af hverju ert þú ekki með ljóst hár eins og ég?" En af hverju er offita svo mikið vandamál? Áður fyrr hreyfði fólk sig meira en nú tíðkast. Menn og konur þurftu ekki einungis að ganga fleiri kílómetra til og frá vinnu, heldur var vinnan líka mjög líkamleg.

Kvenmannstörfin fólu mest í sér þvott í höndum, gólfþvott, einnig þurfti að bera allar vörur frá kaupmanninum heim og vinna í heyskap eða úti á akri framkallaði mikinn svita. Nú á dögum flytja vélar okkur til og frá vinnu og aðrar vélar vinna erfiðu störfin, bæði heima og í vinnunni. Ekki að furða að fólk hlaupi í spik. Við náum hreinlega ekki að brenna öllum þeim hitaeiningum sem við innbyrðum yfir daginn og þá daga þær náttúrlega uppi sem fita. Það er ekki bara líkaminn sem hefur áhrif á matarlyst okkar heldur einnig hugurinn. Næringarfræðilega séð þurfum við ekki svo mikið af mat til að fullnægja dagsþörf okkar fyrir vítamín og bætiefni, en það er auðvelt að gera nartið að vana. Við tyggjum tyggigúmmí, sælgæti og kex, oft einkum þegar við erum stressuð eða þreytt. Auglýsingar freista okkar, þar sem alls kyns gúmmulaði er fært til skýjanna. Þrýstingur er frá mörgum stöðum um að við borðum og drekkum meira og á sama tíma kaupum við okkur vélar sem létta okkur störfin, sem annars myndu losa okkur við auka kaloríurnar. Neysluþjóðfélagið er heldur betur ekki klisja.

Kettir hafa ekki farið varhluta af offitunni og heimiliskettir eru oft stríðaldir og þurfa lítið fyrir lífinu að hafa, sem kannski er ekki hið besta mál, því ný könnun sýnir að heili heimiliskatta hefur minnkað á undanförnum áratugum og er að meðaltali 10% minni en heili katta sem þurfa meira fyrir lífinu að hafa. Vonandi á hið sama ekki við um menn!

Þegar fátækt og atvinnuleysi var mikil þótti það merki um góðan efnahag að borða vel og vera feitur; litið var á offitu sem stöðutákn. Í Afríku fyrr á öldinni voru brúðir sumra ættbálka aldar á smjöri og rjóma fyrir brúðkaupið til að tryggja gott "brúðkaupsverð". Annað er nú upp á teningnum. Þetta væri ekkert mál ef það væri hollt að vera of feitur, en málið er að fólki með offituvandamál er hættara við ýmsum hjarta- og æðasjúkdómum, sykursýki, að ekki sé minnst á andlegu vanlíðanina sem oft fylgir of mörgum aukakílóum. En hvað er best að borða til að halda sér í ákjósanlegri þyngd? Trefjarík og fitulítil fæða er hollust. Ávextir og blaðgrænmeti, líkt og salat, kál og sellerí, eru trefjaríkust. Þar á eftir fylgir rótargrænmeti; kartöflur, gulrætur, næpur o.fl. Baunir, hnetur og þurrkaðir ávextir fylgja í kjölfarið, síðan kemur heilhveiti, hrísgrjón, maís, trefjaríkt morgunkorn o.fl. Sykur er best að borða í miklu hófi. Fiskur og kjöt er hið besta mál, en forðast ber fitu og eins skiptir máli hvernig við eldum matinn. Ekkert bras! Drekkum svo nóg af tæru fjallavatni með, beint úr krananum. En það er ekki nóg að borða hollan mat ef maður hreyfir sig ekki. Það getur verið nóg að ganga í vinnuna og fara í sund 2-3 sinnum í viku.

Format fyrir uppskriftir

Hressandi morgundrykkur

4 egg

6 dl hreinn appelsínusafi

4 msk. hunang

1 appelsína

Afhýðið appelsínuna og skerið í tvennt. Skerið annan helminginn í sneiðar. Þeytið saman egg og hunang. Hellið appelsínusafanum og dálitlu af rifnum appelsínuberki saman við. Hellið í glös og skreytið með appelsínusneiðum.

Álfheiði Hönnu Friðriksdóttur