Gus Gus perlur GUS GUS-flokkurinn hefur er kominn á mála hjá einni virtustu útgáfu Bretlands, 4AD, og hefur fengið frábæra dóma fyrir það sem sveitin hefur sent frá sér ytra hingað til.

Gus Gus perlur

GUS GUS-flokkurinn hefur er kominn á mála hjá einni virtustu útgáfu Bretlands, 4AD, og hefur fengið frábæra dóma fyrir það sem sveitin hefur sent frá sér ytra hingað til. Framundan er ferð um heiminn, útgáfa á fyrstu breiðskífunni ytra og fjölmiðlastúss út í eitt. Fyrsta skrefið í þeim leik verða tónleikar flokksins í Perlunni næstkomandi föstudag, sem meðal annars eru haldnir fyrir fríðan hóp blaðamanna, sjónvarpsmanna, útsendara útgáfu- og dreifingarfyrirtækja og þorra starfmanna 4AD, sem steðja hingað til lands til að sjá á sviði nýjustu sveit fyrirtækisins og þá sem það gerir sér mestar vonir um.

igurður Kjartansson, Magnús Jónsson og Hafdís Huld, þriðjungur Gus Gus, segja að tónleikarnir séu haldnir á vegum 4AD, en upphaflega hafi staðið til að halda fyrstu tónleikana í Lundúnum. Við höfum aftur á móti ekki legið á þeirri skoðun okkar að við viljum helst starfa hér á landi og þá þótti heillaráð að halda fyrstu tónleikana hér í stað þess að setja eitthvað upp í klúbb í Lundúnum sem allir hafa komið hundrað sinnum í." Þau segja að ekki síst fyrir þá sök að tónleikarnir séu á Íslandi hafi grúi ákveðið að koma til að sjá sveitina á sviði. Þar á meðal eru menn frá MTV, en mynda á þrjú lög fyrir Alternative Nation-þátt MTV, sem stjórnandi þáttarins, Toby Amos kemur hingað af því tilefni, og fleiri sjónvarpsstöðvum, breskum stórblöðum á við Independent, tímaritum eins og Face og iD og svo mætti lengi telja. Til viðbótar við þetta gengi verða síðan frammámenn og starfsmenn fyrirtækja sem eiga eftir að dreifa plötunni okkar í hverju landi fyrir sig, menn frá Þýskalandi, Frakklandi og Japan og góður hópur frá Warner í Bandaríkjunum, en menn þar á bæ hafa ákveðið að leggja mikla vinnu í að kynna og selja plötuna okkar þar í landi," segja þau en einnig verður selt inn á tónleikana, átta hundruð miðar alls, og eingöngu í forsölu.

Þau Sigurður, Hafdís og Magnús taka undir að vissulega sé Gus Gus hópurinn sérkennilega samsettur, kvikmyndagerðarmenn, plötusnúðar, söngvarar og hljóðfæraleikarar, og að ekki verði allir á sviðinu; það sé afkáralegt að búa til verkefni bara til að koma sem flestum á svið. Það eru þó allir að vinna að tónleikunum, það þarf að stýra ljósum og sviðsbúnaði; það fléttast allt saman." Þau segja að einn til níu verði þó á sviðinu, breytilegt eftir því sem fram fer, en alls er flokkurinn með ríflega klukkustundar dagskrá. Þau segja að lögin hafi tekið allmiklum breytingum frá því sem var á breiðskífunni sem kom út hér á landi fyrir hálfu öðru ári, bæði vegna þess að mikið hafi gerst í tónlist sveitarinnar, meðal annars fyrir tilverknað endurhljóðblandana, en einnig sé allt annað að standa á sviði en dunda í hljóðveri.

Til upphitunar verður Vuca, íslenskur tónlistarmaður sem heitir Árni Valur upp á íslensku, og einnig treður Skari skrípó upp. Húsið verður opnað kl. 21.00, en Gus Gus hefur leik sinn uppúr kl. 23.00.

Flokkur Gus Gus bregður á leik í Breiðholti.

Árna

Matthíasson