ÞAÐ VAR MARGT eftirminnilegt, sumt skemmtilegt í kreppunni. Margt sem bregður fallegu ljósi á heldur fátæklegt umhverfi. Þetta var lítið samfélag en fólkið var stórt í sniðum. Þá var hlúð að arfleifðinni og plastið var ekki komið til sögunnar.

ÞAÐ VAR MARGT eftirminnilegt, sumt skemmtilegt í kreppunni. Margt sem bregður fallegu ljósi á heldur fátæklegt umhverfi. Þetta var lítið samfélag en fólkið var stórt í sniðum. Þá var hlúð að arfleifðinni og plastið var ekki komið til sögunnar. Þá voru menn sigldir ef þeir fóru til útlanda. Það var álíka merkilegt og þegar menn fara nú á snjósleða yfir Vatnajökul. En þótt margir væru fátækir voru þeir auðugir í anda. Þegar ég talaði við Ólaf Kr. Teitsson sjómann á sínum tíma minntist hann á fátæktina suður með sjó. Það var ekki bolli af mjöli aflögu þegar hann var að alast upp á Vatnsleysuströnd. En þeir tóku til hendi, "fjórir bræðra minna fóru á skútu og ég í vegavinnu og á sjóinn og það endaði með því, að pabbi varð hæsti skattgreiðandinn í hreppnum."

Það var mikið af skáldskap á þessum árum, eða milli styrjalda. Margir lásu skáldskap en ungu skáldin voru ekki betur í sveit sett en nú á dögum. Í samtalsbók okkar Páls Ísólfssonar Í dag skein sól segir frá ungu skáldi, Davíð Stefánssyni sem átti eftir að semja Gullna hliðið. Menn verða ekki þjóðskáld fyrren samtíðin hefur vaxið inn í verkin þeirra. Davíð átti heldur góðu gengi að fagna alla tíð og samtíðin óx inní verk hans hraðar en mörg önnur skáld hafa átt að venjast. Samt átti hann undir högg að sækja einsog önnur ungskáld. Og tíminn hafði engan áhuga á því að tengjast Jónasi Hallgrímssyni fyrren löngu eftir dauða hans.

Í samtölum okkar Páls nefnir hann Davíð Stefánsson til sögunnar með þeim hætti að menn geta dregið þó nokkurn lærdóm af frásögninni. Þegar þeir Davíð óku suður Flóann sagði hann þessum unga vini sínum undan og ofan af ástandinu á Eyrarbakka, "minnti sérstaklega á Guðmund á Stóru-Háeyri, þann mikla sjósóknara og kempu, og gat þess að hann mundi, þegar við ækjum inn í þorpið, að líkindum standa á miðri aðalgötunni fyrir framan húsið sitt og væri þá vel til fallið að taka hann tali, því hann væri nokkuð lesinn maður og hefði áhuga á skáldskap.

Svo vel bar í veiði að Guðmundur var úti að venju, þegar við ókum inn í þorpið og skimaði til allra átta. Við stönzuðum bílinn og ég ávarpaði hann, kynnti svo Davíð fyir honum með þessum orðum: "Hér kem ég með skáldið Davíð Stefánsson frá Fagraskógi, sem þú kannast eflaust við." Hann svaraði: "Ég hygg að ég kannist ekkert við hann. Er hann einn af þessum yngri skáldum?" Ég kvað það vera. En þá segir karlinn: "Mér er ekkert um yngri skáldin. Jónas og Bjarni eru mínir menn." "Jæja," segi ég. Svo var dálítil þögn, en þá bætir karlinn við og segir við Davíð: "Ert þú kannski sonur hans Stefáns alþingismanns frá Fagraskógi?" Davíð kvað það vera. "Já, mér er kunnugt um það," sagði karlinn, "að hann er ágætis maður." "Hefurðu ekki heyrt neitt eftir Davíð?" spyr ég enn. "Heyrt eða heyrt ekki," segir karlinn, "ég gef ekkert fyrir nýja skáldskapinn og kæri mig ekkert um hann, enda kunnu þeir gömlu miklu betur að yrkja en nýju skáldin."

Nú sá ég, að farið var að þykkna í vini mínum Davíð og svo mikið var víst, að hann spurði karlinn ekki frekar um bókmenntir eða hvort hann ætti rifrildi af gömlum bókum."

Ungum skáldum er ekki alltaf tekið einsog hvítum hesti svo maður skírskoti í eitt þekktasta kvæði Davíðs. Þau þurfa að hafa sterk bein, minnug þess að listgildi fer ekki eftir vinsældum og verðlaunum; minnug þess að Tíminn og vatnið, sérstæðasta og mikilvægasta brautryðjendaverk í íslenzkri ljóðlist þessarar aldar, e.t.v. ásamt Þorpi Jóns úr Vör, var gefið út í 200 tölusettum eintökum og sagði Ragnar Jónsson mér að það hefði tekið heilan áratug að selja upplagið; þ.e. 20 bækur á ári að meðaltali! Menn ríða ekki alltaf feitum hesti frá alvörubókmenntum(!)

M.