Dularfull dýrasending Moskvu. Reuter. RÚSSNESKIR tollverðir á alþjóðlega flugvellinum Sheremetovo við Moskvu uppgötvuðu á föstudag dularfulla dýrasendingu.

Dularfull dýrasending Moskvu. Reuter.

RÚSSNESKIR tollverðir á alþjóðlega flugvellinum Sheremetovo við Moskvu uppgötvuðu á föstudag dularfulla dýrasendingu. Níu krókódílsungar, 20 apar og 119 skrautlegir páfagaukar fundust í trékössum í flugvél sem kom frá ónefndu Afríkulandi, án nokkurra fylgiskjala. Dýrin höfðu öll verið sprautuð með róandi lyfjum. Einn páfagaukur var þegar dauður og dýralæknar sögðu nokkra apanna og hinna páfagaukanna ekki munu vakna úr lyfjadvalanum.

Að sögn Tass-fréttastofunnar verða dýrin sett í sóttkví unz ákvörðun verður tekin um hvað um þau verður. Skrautlegir fuglar og dýr af framandi uppruna eru að verða sívinsælli gæludýr í hinu nýja Rússlandi.