Tvær konur í framboði gegn Ahtisaari? Helsinki. Morgunblaðið. ÞRÁTT fyrir að enn séu þrjú ár til næstu forsetakosninga í Finnlandi er baráttan að hefjast.

Tvær konur í framboði gegn Ahtisaari? Helsinki. Morgunblaðið.

ÞRÁTT fyrir að enn séu þrjú ár til næstu forsetakosninga í Finnlandi er baráttan að hefjast. Skoðanakannanir hafa leitt í ljós að Finnar eru almennt þeirrar hyggju að Martti Ahtisaari sé alls ekki slæmur forseti en hann er á hinn bóginn ekki sjálfkjörinn til þessa embættis á næsta kjörtímabili. Í vikunni hafa stuðningsmenn tveggja kvenna hafið umræðu um hugsanlegt framboð gegn Ahtisaari.

Það eru þær Rita Uosukainen þingforseti (Hægrifl.) og Elisabeth Rehn, fyrrum varnarmálaráðherra (Sænska þjóðarflokknum) og núverandi mannréttindafulltrúi í ríkjum fyrrum Júgóslavíu, sem umræðan snýst um. Rehn tapaði fyrir Ahtisaari í kosningunum 1994 með fáeinum prósentum.

Uosukainen er fyrrverandi menntamálaráðherra og urðu endurminningar hennar metsölubók á haustmánuðum í fyrra vegna ástarlífslýsinga og harðra orða um samráðherra og aðra stjórnmálamenn. Aðspurð sagðist Uosukainen ekki vera að íhuga framboð að svo stöddu en kvaðst ekki vilja útiloka þann möguleika. Flokksformaður Hægri flokksins, Sauli Niinistö fjármálaráðherra, hefur lýst því yfir að Uosukainen væri gott forsetaefni hægrimanna.