Forstjórar sölusamtakanna og forystumaður í fiskiðnaði ósammála dönsku ráðgjöfunum "Ósparir á órökstudda sleggjudóma" FORMAÐUR Samtaka fiskvinnslustöðva segist ósammála ýmsu af því sem fram kemur í skýrslu danska ráðgjafarfyrirtækisins Matcon um íslenskan...

Forstjórar sölusamtakanna og forystumaður í fiskiðnaði ósammála dönsku ráðgjöfunum "Ósparir á órökstudda sleggjudóma"

FORMAÐUR Samtaka fiskvinnslustöðva segist ósammála ýmsu af því sem fram kemur í skýrslu danska ráðgjafarfyrirtækisins Matcon um íslenskan fiskiðnað. Forstjóri Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna furðar sig á því hvað skýrsluhöfundar eru ósparir á órökstudda sleggjudóma og forstjóri Íslenskra sjávarafurða segir að orðið "bull" hafi komið upp í hugann við lestur fréttar af skýrslunni. Í skýrslunni fær íslenskur fiskiðnaður slaka einkunn.

Arnar Sigurmundsson, formaður Samtaka fiskvinnslustöðva, segist vera ósammála mörgu af því sem fram kemur í skýrslunni. "Þessi skýrsla á rétt á sér sem umræðugrundvöllur. Mér finnst reyndar of mikið um fullyrðingar en það verður vafalaust unnið áfram með skýrsluna." Hann segir að vissulega eigi mörg frystihús, meðal annars á minni stöðunum í erfiðleikum. Það sé fyrst og fremst vegna þess hvað botnfiskafli hafi dregist mikið saman og það sé ósanngjarnt og of mikil einföldun að kenna um slakri stjórnun og smæð staðanna.

Hann segir að það komi sér ekki á óvart að vinnutímanýting sé slök á Íslandi og nýting tækja léleg. Léleg tækjanýting stafaði af miklum samdrætti í botnfiskafla á undanförnum árum.

Arnar viðurkennir að þörf fyrir starfsmenntun í fiskiðnaði hafi aukist með aukinni sérvinnslu og fullvinnslu. Þar segir hann að Íslendingar geti lært mikið af Dönum sem hafi verið framarlega á því sviði.

Spurður um gagnrýni á sölusamtökin segir Arnar að svo virðist sem skýrsluhöfundar hafi ekki kynnt sér þann þátt nógu vel. "Ég held að þeir hafi fallið í þá gryfju að bera okkur of mikið saman við Dani sem hafa mikinn heimamarkað og eru stutt frá stórum markaði en við erum hér úti í miðju Atlantshafi og seljum í allar áttir," segir Arnar. Hann segir að stærstu fyrirtækin og jafnvel meðalstór fyrirtæki hafi unnið að vöruþróun og geri sérstaka sölusamninga, en þá yfirleitt í gegnum sölufyrirtækin. Telur hann að aukning verði á þessu sviði.

Órökstuddir sleggjudómar

Friðrik Pálsson, forstjóri SH, telur að umræða skýrsluhöfunda eigi ekki við SH. Í því sambandi bendir hann á að þeir vitni aðallega til Föroya Fiskasölu og Frionor og að hann viti að Danirnir hafi gefið Sölumiðstöðinni góða einkunn þegar þeir hafi verið að vinna fyrir frystihús innan vébanda hennar. Hann furðar sig á því hvað Danirnir séu ósparir á órökstudda sleggjudóma um sjávarútveginn í heild og segir að skýrsla þeirra sé yfirborðskennd samsuða sem ekki sé hægt að taka mark á.

"Þeir tala um að það sé vandamál að sölusamtökin hafi mikið magn að selja. Flest fyrirtæki reyna að ná í sem stærsta markaðshlutdeild og sterka stöðu á tilteknum mörkuðum. Það hefur verið styrkur SH að hafa mikið magn á bak við sig. Þeir segja líka að frystihúsin séu keyrð í gjaldþrot vegna þess að söludeildirnar hafi ráðið of miklu. Þetta er grátbrosleg athugasemd. Hingað til hefur oftar verið talið að Íslendingar í heild væru of framleiðslusinnaðir og við höfum unnið að því með góðum árangri að tengja saman sjónarmið markaðarins og framleiðenda," segir Friðrik.

"Mér finnst rétt að virða þessum mönnum til vorkunnar að þeir kalla skýrsluna umræðuplagg og í inngangi segir um lokakaflann þar sem þessar fullyrðingar koma fram að þær skoðanir sem þar eru settar fram séu byggðar tilfinningu þeirra og persónulegum viðhorfum og þurfi alls ekki að vera réttar," segir Friðrik.

"Bull"

Benedikt Sveinsson, forstjóri Íslenskra sjávarafurða, segir að orðið "bull" hafi fyrst komið upp í hugann við lestur fréttar af skýrslu danska ráðgjafarfyrirtækisins. Hann tekur það fram að hann hafi aldrei hitt skýrsluhöfundana og viti ekki til þess að þeir hafi leitað fanga hjá ÍS. Þeir vitni hins vegar í Föroya Fiskasölu sem sé gjaldþrota og Frionor sem hafi gengið misjafnlega. "Ég hef engan áhuga á að bera okkur saman við þessi fyrirtæki. Staða okkar er miklu betri. Við höfum oft fengið hrós fyrir það Íslendingar að standa saman í markaðsmálum þegar Norðmenn eru að vinna hver á móti öðrum," segir Benedikt.

"Ég held að enn einu sinni séum við að fá danskinn til að segja okkur það sem við vitum sjálfir miklu betur," segir hann.