Vikan 19/1 - 25/1 Tilfinningaþrungnir endurfundir KELLY Helton og dóttir hennar Zenith Eleaine hittust á fimmtudagskvöld í bandaríska sendiráðinu eftir ríflega fimmtán mánaða aðskilnað.

Vikan 19/1 - 25/1 Tilfinningaþrungnir endurfundir

KELLY Helton og dóttir hennar Zenith Eleaine hittust á fimmtudagskvöld í bandaríska sendiráðinu eftir ríflega fimmtán mánaða aðskilnað. Barnið hvarf frá móður sinni, sem er búsett í Arizona í Bandaríkjunum, í október 1995 og hafa móðuramma þess og maður hennar, sem reyndust búsett í Kópavogi, verið eftirlýst þar í landi síðan. Zenith Elaine, sem er á fimmta aldursári, var tekin úr höndum móðurömmu sinnar og eiginmanns hennar á þriðjudag og vistuð á vegum Félagsmálastofnunar Kópavogs. Rannsóknarlögregla ríkisins handtók hjónin vegna rökstudds gruns um barnsrán og að þau hafi komið til landsins á fölskum forsendum. Þeim var sleppt að lokinni skýrslugerð. Móðir barnsins mun hafa unnið ötullega að því að vekja athygli fjölmiðla í Bandaríkjunum á hvarfi barnsins og var t.d. fjallað um það í þættinum Óráðnar gátur, Unsolved Mysteries, sem sýndur var í Bandaríkjunum 3. janúar og hérlendis skömmu síðar.

Stefnir í átök VSÍ og stjórnvalda

"EINS og staðan er í dag telja fæstir tilefni til bjartsýni. Mér finnst reyndar með ólíkindum ef Vinnuveitendasambandið mætir til leiks með óbreytt viðhorf þegar sáttasemjari tekur upp þráðinn á ný. Þá horfir í óefni. Vinnuveitendasambandið heldur því fram að verkalýðsfélögin innan Alþýðusambandsins stefni í vinnudeilur. Ég segi þvert á móti að það eru Vinnuveitendasambandið og stjórnvöld, ef þau fara ekki að taka til hendinni í málum sem að þeim snúa, sem eru að stefna hér í átök," segir Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ, í viðtali um stöðuna í kjaramálunum.

Telja innflutning búvara torveldaðan

SENDIRÁÐ Danmerkur á Íslandi hefur gert athugasemdir við framkvæmd Íslands á GATT-samkomulaginu og telur hana hindra aðgang danskra landbúnaðarafurða að íslenzka markaðnum. Danir kvarta undan því að innflutningur á dönskum kjötvörum sé hindraður með vísan til heilbrigðisástæðna. Þá telja þeir að uppboð á innflutningskvóta á lágum tollum hækki verð landbúnaðarvara og geri innflutninginn því lítt fýsilegan. Ernst Hemmingsen, viðskiptafulltrúi í danska sendiráðinu, staðfesti í samtali við Morgunblaðið að sendiráðið hefði tekið málið upp við utanríkisráðuneytið. Rök íslenzkra stjórnvalda fyrir að leyfa ekki innflutning á hráu svína- og fuglakjöti frá Danmörku eru meðal annars notkun fúkkalyfja við kjötframleiðslu hjá dönskum bændum.

ÖLL LOÐNUVINNSLA myndi að öllum líkindum stöðvast hér á landi kæmi til verkfalls landverkafólks nú eftir mánaðamótin. Útgerðarmenn segja ekki grundvöll fyrir frystingu um borð í togurum ef til verkfalls komi og telja sömuleiðis litlar líkur á að loðnuskip sigli með aflann til bræðslu erlendis. Áætla má að útflutningsverðmæti loðnuafurða verði um 10 milljarðar króna á þessu ári gangi vinnslan eðlilega fyrir sig. Mest verða áhrifin á vinnslu loðnu og hrogna fyrir Japani, en þar eru útflutningsverðmæti allt að 4 milljörðum króna í húfi.

JÓN Arnar Magnússon tugþrautarmaður fær rúmar sex milljónir króna á ári í styrk næstu fjögur árin, eða samtals 25,3 milljónir króna, til undirbúnings fyrir Ólympíuleikana í Sydney í Ástralíu árið 2000 samkvæmt styrktarsamningi sem undirritaður var á Sauðárkróki á miðvikudag. Þetta er stærsti samningur sem gerður hefur verið við íslenskan íþróttamann.

Á RÚMU ári hafa tæplega 100 manns leitað ráða hjá SÁÁ vegna spilafíknar og samtals 75 farið í meðferð á göngudeild eða meðferðarstofnunum SÁÁ.

Langflestir þeirra sem ánetjast spilafíkninni eru karlar milli tvítugs og fimmtugs sem hafa eytt háum upphæðum í spilakassa.

ÚTFLUTNINGUR á óunnum þorski á fiskmarkaðina í Bretlandi jókst um 34% á síðasta ári. Það er í fyrsta sinn sem hann eykst frá árinu áður, allt frá 1988 þegar hann nam 36.700 tonnum, en í fyrra fóru aðeins 2.450 tonn utan. Útflutningur á ýsu á sömu markaði jókst um 58%, en sala á karfa á markaðina í Þýzkalandi hefur nánast hrunið á tveimur árum.