Útgáfu Alþýðublaðs verði hætt TILLAGA um að hætta útgáfu Alþýðublaðsins ótímabundið, frá næstu mánaðamótum var lögð fram á aukafundi flokksstjórnar Alþýðuflokksins í gær, sem stóð frá hádegi og fram undir kvöld.

Útgáfu Alþýðublaðs verði hætt

TILLAGA um að hætta útgáfu Alþýðublaðsins ótímabundið, frá næstu mánaðamótum var lögð fram á aukafundi flokksstjórnar Alþýðuflokksins í gær, sem stóð frá hádegi og fram undir kvöld. Tillagan hafði ekki hlotið afgreiðslu, þegar Morgunblaðið fór í prentun, en þrátt fyrir deildar meiningar, var búist við, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins, að hún hlyti samþykki.

Skuldar á milli 8 og 10 milljónir

Fjárhagsstaða Alþýðublaðsins, er erfið, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins, því blaðið skuldar á milli 8 og 10 milljónir, en endanleg skuldatala ræðst af því hversu mikið af útistandandi skuldum verður ákveðið að afskrifa.

Tillagan um að hætta ótímabundið útgáfu Alþýðublaðsins, gerir jafnframt ráð fyrir því að Alþýðuflokkurinn selji ekki nafn Alþýðublaðsins, heldur geymi hjá sér með það í huga að kanna hverjir útgáfumöguleikar geti verið í framtíðinni og hvort mögulegt verði að hefja útgáfuna á nýjan leik, í breyttri eða óbreyttri mynd.

Margrét opnaði margar dyr

Sighvatur Björgvinsson, formaður Alþýðuflokksins, gerði í ræðu sinni við upphaf fundarins ræðu Magrétar Frímannsdóttur, formanns Alþýðubandalagsins, á miðstjórnarfundi flokksins í fyrradag að umtalsefni og sagði alveg ljóst að bilið milli flokkanna hefði minnkað. "Hún opnaði í ræðu sinni ýmsar nýjar dyr sem hingað til hafa verið harðlæstar í þeim flokki," sagði Sighvatur.

Hann sagði að hún hefði m.a. getið þess að flokkur hennar þyrfti að endurmeta afstöðu sína til varnarsamstarfs vestrænna þjóða. Önnur atriði í ræðu Margrétar sem Sighvati þóttu markverð voru að Evrópumálin væru á dagskrá og að flokkur hennar þyrfti að skoða alla möguleika þar að lútandi. Jafnframt sagði Sighvatur að hugmyndir formanns Alþýðubandalagsins um sjávarútvegsmál væru mjög í anda hugmynda Alþýðuflokksins um að þjóðin fái hlutdeild í auðlindum lands og sjávar. Hann kvaðst vonast til að jafnaðarmenn gengju saman fram til alþingiskosninga næst.

Morgunblaðið/Kristinn

SIGHVATUR Björgvinsson formaður Alþýðuflokksins ræðir við Gunnar Inga Gunnarsson við upphaf aukaflokksstjórnarfundar í gær.