AMERÍSKI FÓTBOLTINN Green Bay líklegra til sigurs í "Super Bowl" Hátíðisdagurinn loksins runninn upp STÆRSTI íþróttaviðburður ársins í Bandaríkjunum fer fram í dag í Superdome höllinni í New Orleans­borg þegar "ofurskálarleikurinn" svokallaði fer þar...

AMERÍSKI FÓTBOLTINN Green Bay líklegra til sigurs í "Super Bowl" Hátíðisdagurinn loksins runninn upp

STÆRSTI íþróttaviðburður ársins í Bandaríkjunum fer fram í dag í Superdome höllinni í New Orleans­borg þegar "ofurskálarleikurinn" svokallaði fer þar fram. Eitt merkilegasta atvinnulið í íþróttasögu landsins er að nýju komið í fremstu röð eftir um þriggja áratuga meðalmennsku. Green Bay Packers frá Wisconsin og New England Patriots, sem spilar skammt frá Boston, leika til úrslita.

furskálarleikurinn ber nafn sitt af hönnun íþróttavalla hér í landi fyrr á öldinni sem flestir voru eins og skál í laginu. Svæðisbundnir úrslitaleikir háskólaboltans í ruðningi voru nefndir eftir skálarorðinu. Þegar NFL deildin sameinaðist AFL fyrir rúmum þrjátíu árum var ákveðið að kalla úrslitaleikinn milli tveggja bestu liðanna "superbowl".

Gamall risi endurvakinn

Green Bay Packers var eitt sterkasta og vinsælasta atvinnulið í ruðningi um áratuga skeið. Liðið var enn geysisterkt þegar fyrstu tveir ofurskálarleikirnir fóru fram 1966 og 1967. Packers sigraði í báðum leikjunum, en síðan fór að halla undan fæti hjá liðinu og það var ekki fyrr en fyrir fimm árum þegar núverandi þjálfari liðsins, Mike Holmgren, var ráðinn að hagur þess fór aftur að batna.

New England Patriots hefur einu sinni áður leikið til úrslita, en stuðningsmenn liðsins vildu sjálfsagt gleyma þeirri staðreynd þessa dagana. Liðið lék gegn Chicago Bears 1986 í New Orleans og tapaði 46:10! Annars hefur liðið lengst af átt erfitt uppdráttar í deildinni. Bill Parcells var ráðinn þjálfari hjá liðinu fyrir fjórum árum og hann hefur gert góða hluti með liðið, þótt flestir íþróttafréttaritarar álíti að það hafi verið heppið að komast í úrslit í ár.

Leikstjórnendurnir lykilmenn

Bestu leikmenn Green Bay eru leikstjórnandinn Brett Favre, bakvörðurinn Edgar Bennett, kantmaðurinn Antonio Greeman og varnarmaðurinn Reggie White. White er að spila í fyrsta sinn í úrslitum á 12 ára ferli sínum. Hann er af mörgum talinn besti varnarmaðurinn í sögu deildarinnar. Favre hefur stjórnað liðinu mjög vel í vetur og virðist heilsuhraustari nú en oft áður. Packers eru með mjög fljóta leikmenn og gervigrasið í Superdome höllinni mun eflaust hjálpa liðinu.

Leikstjórnandi New England, Drew Bledsoe, er tvímælalaust besti leikmaður síns liðs. Hann er að klára sitt fjórða leiktímabil og hefur gert mun færri mistök í vetur en áður. Ef Patriots á að geta ógnað Green Bay í leiknum verður hann að eiga stórleik. Bakverðirnir Curtis Martin og Keith Byars, kantmaðurinn Shawn Jefferson, og Ben Coates (hann leikur "tight end" við enda sóknarlínunnar og grípur tuðruna oft vel upp miðjuna) eru einnig sterkir.

Búast má við að Green Bay vinni þennan leik auðveldlega. Sigurvegararnir úr NFC hluta deildarinnar hafa unnið síðustu tólf úrslitaleiki, auk þess sem Green Bay er mun betra lið. Leikir innanhúss á gervigrasi henta Packers vel og liðið hefur verið mjög traust allt keppnistímabilið. Veðbankar hér í landi áætla að Green Bay muni vinna með 14 stigum, sem er óvenjumikill munur.

Reuter

LEIKMENN Green Bay gátu aðeins æft í tíu mínútur í gær vegna úrhellis. Hér eru það varnarmennirnir Reggie White, í miðið, og Sean Jones, lengst til hægri, sem spretta úr spori.

Gunnar

Valgeirsson

skrifar frá

Bandaríkjunum