KÖRFUKNATTLEIKUR Stöðugt færri stig í NBA-deildinni ærri stig eru nú gerð í NBA-deildinni í körfuknattleik en undanfarin ár og hefur ekki verið skorað eins lítið síðan árið 1954.

KÖRFUKNATTLEIKUR Stöðugt færri stig í NBA-deildinni ærri stig eru nú gerð í NBA-deildinni í körfuknattleik en undanfarin ár og hefur ekki verið skorað eins lítið síðan árið 1954. Að meðaltali hafa lið gert 94,2 stig í leik það sem af er vetri, og hefur meðaltalið lækkað um fimm stig frá því í fyrra, og hefur fækkað reglulega allan síðasta áratug. Reyndir leikmenn í NBA-deildinni hafa hræðilega nýtingu og má þar nefna að Jason Kidd er með 35,5% skotnýtingu og Brian Shaw 31,6%. Margar sóknir liðanna í deildinni eru eins; byggjast á því að koma knettinum undir körfuna og fá á sig tvo varnarmenn, finna lausa manninn fyrir utan og láta hann skjóta. Því miður rata sífellt færri skot rétta leið og er skemmst að minnast leiks Orlando og Cleveland ekki alls fyrir löngu en þá gerðu leikmenn Orlando aðeins 57 stig og héldu menn að leiknum hefði verið hætt í miðjum þriðja leikhluta.

NBA-deildin á hálfrar aldar afmæli í ár og á sama tíma huga forráðamenn deildarinnar að framtíðinni, framtíð án Michaels Jordans, og eru menn á vissan hátt áhyggjufullir. Á níunda áratugnum voru menn eins og Magic Johnson og Larry Bird sem náðu til fólksins með opnum og hröðum leik. Síðan þá hafa liðin bætt varnarleik sinn til muna og það hefur áhrif á skorið. Þjálfarar leggja áherslu á að kæfa hraðaupphlaup í fæðingu og liðin leika mun hægar en áður. Sumir hafa velt því fyrir sér hvort leikir í úrslitakeppninni í náinni framtíð geti hugsanlega endað 65:60, og ef sú verður raunin, hvort áhorfendum muni ekki fækka.

Pat Riley, fyrrum þjálfari Lakers og núverandi þjálfari Miami, segir að of mikið sé lagt upp úr hægum leik. "Allir leggja áherslu á að koma í veg fyrir að mótherjarnir geti gert auðvelda körfu," segir Riley. Ef ekki er hægt að komast í hraðaupphlaup verða menn að leika skipulagðari sókn og hún leiðir til færri skota og færri stiga. Einnig hefur verið bent á að eftir því sem liðunum hefur fjölgað fjölgar miðlungsleikmönnum sem hafa ekki hæfileika til að halda uppi hraða. Fleiri slök lið verða í deildinni og eina ráð þeirra er að halda hraðanum niðri og freista þess að sigra á lokamínútunum. Þetta er skynsamlegt, en getur verið leiðinlegt.

"Við höfum vissulega nokkrar áhyggjur af þróuninni og fylgjumst með," segir Russ Granik, einn talsmanna deildarinnar. "Ég er ekki viss um að leikmenn séu slakari núna en áður og ég er alls ekki viss um að áhorfendum þyki leikur sem endar 90:88 leiðinlegri en leikur sem endar 115:105," segir hann. Sir Charles Barkley er ekki alveg sammála Granik. "Fjölmiðlar búa til stjörnur úr einhverjum stráklingum sem varla kunna körfubolta," sagði kappinn í haust og vísaði þá til þess að ungir strákar hafa fengið svimandi háar upphæðir án þess að hafa sannað sig sem leikmenn. Þessu til sönnunar hafa menn bent á að níu af þeim 15 leikmönnum, sem valdir voru í þrjú NBA-lið ársins, eru þrítugir eða eldri. Isiah Thomas, stjóri hjá Toronto Raptors og fyrrum leikmaður í NBA, hefur einnig skoðun á þessu: "Margir af þessum strákum hætta í skóla til að komast í NBA. Þeir hafa því ekki fengið næga grunnþjálfun og hafa ekki þolinmæði til að bíða eftir hindrun. Þeir kunna ekki að leika mann frían með því að hreyfa sig án boltans og þeir hafa ekki getu til að koma sér í skotfæri af fjögurra metra færi og skjóta því af átta metra færi. Þeir æfa troðslur og þriggja stiga skot frekar en skot af stuttu færi," segir Thomas.

Fyrir tveimur árum var þriggja stiga línan færð nær körfunni og svo virðist sem það hafi ruglað marga leikmenn í ríminu. Skoðum nýtingu nokkurra leikmanna utan þriggja stiga línunnar. Kendall Gill hjá New Jersey er með 25,8% nýtingu, Derek Harper frá Dallas er með 17,2%, Wesley Person frá Phoenix 29,5%, Cliff Robinson frá Portland 28,5, Vernon Maxwell há Spurs er með 22,8% og Vinny del Negro hjá sama liði er með 22,2%, hefur hitt úr 8 af 36 skotum. Ætli þjálfararnir séu ánægðir með árangurinn?

Reuter

SCOTTIE Pippen er ein af stórstjörnunum í NBA en menn hafa áhyggjur af framtíð deildarinnar þegar hann og fleiri hætta. Eru aftakarnir nægilega góðir?