Sextán ára meistari Svissneska stúlkan Martina Hingis sigraði Pierce auðveldlega í úrslitum artina Hingis frá Sviss varð í fyrrinótt yngsti tennisspilarinn til að sigra á einu af fjórum stóru mótunum í tennis, en Hingis lagði frönsku stúlkuna Mary Pierce...

Sextán ára meistari Svissneska stúlkan Martina Hingis sigraði Pierce auðveldlega í úrslitum artina Hingis frá Sviss varð í fyrrinótt yngsti tennisspilarinn til að sigra á einu af fjórum stóru mótunum í tennis, en Hingis lagði frönsku stúlkuna Mary Pierce 6­2 og 6­2 í úrslitum. Hingis er aðeins 16 ára gömul, þremur mánuðum og 26 dögum betur og skráði svo sannarlega nafn sitt á spjöld sögunnar í Melbourne. Árið 1887, löngu áður en tennis var orðið jafn vinsælt og það er nú, sigraði Lottie Dod á Wimbledonmótinu og var hún aðeins 15 ára og tíu mánaða, en á þeim tíma var ekki talað um stóru mótin fjögur. Hingis skráði einnig nafn sitt á spjöld sögunnar í fyrra þegar hún varð yngst allra tennisspilara til að sigra í tvíliðaleik á einu af stóru mótunum, en hún vann í tvíliðaleik á Wimbledon í fyrra.

Hingis, sem er fædd í Tékkóslóvakíu og var í fjórða sæti heimslistans, var talinn sigurstranglegri fyrir leikinn enda hafði hún leikið vel í mótinu. Það eina sem menn töldu að gæti komið í veg fyrir sigur hennar var að hún yrði of taugaóstyrk í fyrsta úrslitaleik sínum á einu af fjórum stóru mótunum. En það var ekki að sjá að táningurinn hefði nokkrar taugar. Hún lék af yfirvegun og nákvæmni gegn hinni höggföstu Pierce, sem sigraði í Melbourne árið 1995 en hefur ekki unnið stórmót síðan, og sigraði í tveimur settum og var ekki lengi að því, aðeins 59 mínútur.

"Martina lék frábærlega og var allt of góð fyrir mig í dag," sagði Pierce við verðlaunaafhendinguna og bætti því við að tennisáhugafólk ætti eftir að sjá miklu meira af táningnum frá Sviss. Hingis lék eins og sannur meistari. Það var sama hvað Pierce reyndi, Hingis virtist eiga ráð undir rifi hverju og var fljót að svara öllum tilraunum Pierce til að ná yfirhöndinni.

Um leið og Hingis fékk síðasta stigið hljóp Melaine, móðir hennar og þjálfari, og óskaði henni til hamingju. Melaine er fyrrum tékkneskur meistari í tennis og hefur stutt dóttur sína með ráðum og dáð til að ná eins langt og raun ber vitni.

Hingis er nú kominn í annað sæti heimslistans og markmiðið er skýrt: "Ég stefni að því að leika vel á næstu mótum og auðvitað að komast í efsta sæti heimslistans," sagði hún eftir sigurinn í Ástralíu. "Þetta met er bara eins og hvert annað met sem ég hef sett á síðustu árum. Næsta ár ætla ég líka að keppa í tvenndarleik, það væri gott að vinna þar líka," sagði hún við áhorfendur um leið og hún þakkað fyrir sig.

Reuter

HINGIS smellir kossi á bikarinn góða.