Að læra um ástina á spænsku BRÉFBERINN í ítölsku kvikmyndinni Il Postino" byrjaði að yrkja ljóð og elska konu undir leiðsögn chileska ljóðskáldsins Pablo Neruda.

Að læra um ástina á spænsku

BRÉFBERINN í ítölsku kvikmyndinni Il Postino" byrjaði að yrkja ljóð og elska konu undir leiðsögn chileska ljóðskáldsins Pablo Neruda.

Þó Pablo Neruda, sem fæddist 1904, hafi látist 1973 virðast fleiri en bréfberinn sækja námskeið hjá honum, því þar sem spænskukennsla fer fram er hann markvisst notaður.

Það er auðvelt að nota Pablo Neruda sem beitu á menntaskólakrakka sem eru að læra spænsku því ljóðin í ljóðabók hans Tuttugu ljóð um ást og einn örvæntingarsöngur" geyma mátt hins forboðna þó þau séu langt frá því að vera það sem við köllum ósiðsöm," segir Guðrún H. Tulinius, menntaskólakennari og annar þýðandi ljóðabókarinnar, en hinn þýðandi hennar er Karl Guðmundsson.

Ljóðin eru einlæg og opinská. Þau eru einföld og skiljanleg en það kemur krökkum á óvart því þeir eru oft búnir að skipa ljóðum efst á óvinsældalistann. Krafturinn sem býr í efni ljóðanna ratar beina leið inní tilfinningalíf nemendanna. Pablo Neruda var á sama aldri og íslenskir menntaskólakrakkar þegar hann orti ljóðin í þessa bók og þegar nemendur mínir uppgötva það skilja þeir betur afhverju þeir eiga jafn auðvelt með að spegla sig í ljóðunum, en sjá um leið sig sjálf í nýju ljósi: Nú, fyrst hann gat þetta á mínum aldri hlýt ég að geta." Og þá á jafnvel nemandinn það til að prófa að fara að yrkja.

Bókin sameinar því margt. Hún kennir manni spænsku. Hún opnar tilfinningalíf manns því svo einlægar og ótrúlegar ritgerðir fæ ég frá nemendum sem skrifa um þessa bók. Hún gerir ástina merkilega. Hún gerir skaphitann og örvæntinguna eftirsóknaverð. Það má segja að hún hvetji mann til dáða á alla kanta og gefi manni leyfi til að kynnast sjálfum sér upp á nýtt."

Ég var einn sem undirgöng. Burt frá mér flúðu fuglar"

Þessi ljóðabók Pablos Neruda kom fyrst út á spænsku árið 1924 og hefur ekki gert annað síðan en sigra lesendur í hvert sinn og hún er opnuð. Íslenska útgáfa hennar kom út rétt fyrir síðustu jól og er að mörgu leyti sérstök. M.a. vegna þess að ljóðin koma fyrir í þremur útgáfum. Fyrir neðan hvert ljóð á spænsku birtist bein þýðing þess og á síðunni við hliðina bragþýðing þess.

Fyrir tveimur árum var Karl Guðmundsson nemandi hjá mér í efstu áföngunum í spænsku," svarar Guðrún þegar hún er spurð um tilurð verksins. Hann var að þýða þessi ljóð og sýndi mér tilraunir sínar. Afþví hann talar ekki spænsku átti hann í dálitlum erfiðleikum. Ég stakk upp á því við hann hvort við ættum ekki að gera þetta saman, ég með spænskuþekkinguna og hann með skáldskapargáfuna. Við urðum hinsvegar ekki ánægð með afrakstur samvinnu okkar. Ég vildi halda í hversdagslegt málfar ljóðanna og einfaldleika þeirra en Karli var umhugað um formrænu hliðarnar. Karl er reyndur þýðandi og færni hans óumdeilanleg. Úr varð að við tókum beinar þýðingar mínar á ljóðunum og skáldskaparþýðingar hans saman hlið við hlið inní verkið. Þá var orðin til góð kennslubók sem nýtist nemendum í menntaskólum og háskólum, hvort sem þeir læra spænsku eða suður-amerískar bókmenntir. Því við erum náttúrulega líka að koma á framfæri einum af perlum bókmenntanna."

Lotinn er líður að kveldi, legg ég döpur net mín í útsæ augna þinna"

Guðrún hefur nú þegar dálitla reynslu af því að kenna ljóðin í þessari nýju útgáfu.

Ég kenni ljóðin í ólíkum hópum. Annar hópurinn lærir spænsku og hinn lærir suður-amerískar bókmenntir. Spænskunemandinn byrjar að lesa ljóðið á spænsku og kíkir í beinu þýðinguna beint fyrir neðan það. Þannig stoppar lesturinn ekki of lengi við það að þurfa að fletta í orðabók. Hann kemst strax inní ljóðið og getur þá snúið sér að bragþýðingunni ef hann vill. Bókmenntanemandinn byrjar væntanlega á bragþýðingunni, fer aðra leið en hinn, og les ljóð sem honum kannski líkar, verður forvitinn um, kíkir í beinu þýðinguna áður en hann snýr sér að spænska textanum; og er þarmeð óvart að breytast í spænskunemanda. Þannig tekst manni kannski að veiða eitt stykki spænskunemanda, og kannski eitt stykki skáld, eða þýðanda, því við Karl viljum taka það fram að þýðingar okkar á ljóðum Pablos Neruda eru tillögur okkar og nýjar tillögur að þýðingum á ljóðum hans verða alltaf vel þegnar."

Guðrún H.

Tulinius