Nýr Sibelius? MINNISVERÐUR tónlistarviðburður átti sér stað í Helsingfors í síðustu viku. Tónskáldið Magnus Lindberg stjórnaði þá í fyrsta sinn flutningi eigin verka, þ.á m. frumflutningi Arena II sem leikið var af Avanti hljómsveitinni.

Nýr Sibelius?

MINNISVERÐUR tónlistarviðburður átti sér stað í Helsingfors í síðustu viku. Tónskáldið Magnus Lindberg stjórnaði þá í fyrsta sinn flutningi eigin verka, þ.á m. frumflutningi Arena II sem leikið var af Avanti hljómsveitinni.

"Lindberg stjórnaði af sérstökum glæsibrag, með aðlaðandi fegurðarblæ og þeim alvöruþunga sem til þurfti og hinir frábæru tónlistarmenn í Avanti-hljómsveitinni virtust ekki vera í neinum vandræðum með að fylgja honum eftir", segir gagnrýnandi Hufvudstadsbladets, Mats Liljeroos.

Magnus Lindberg sem er 38 ára gamall er nú það tónskáld finnskt sem oftast eru leikin verk eftir, að Sibelius einum frátöldum. Hann aflaði sér m.a. frægðar bæði heima og erlendis fyrir hljómsveitarverkin Kraft (1983-85), Ur (1986), Kinetics (1988-89) og Marea (1989-90). Erlendis hefur hann haslað sér öruggan völl og þar fer mikið orð af honum vegna fjölbreyttra verka sem pöntuð hafa verið hjá honum og m.a. leikin á tónlistarhátíðum þar sem flutt hefur verið nútímatónlist.

Kammertónlist hefur hann samið bæði fyrir Sænsku ríkiskonsertana og Westdeutscher Rundfunk og vitaskuld fyrir finnska útvarpið sem pantaði hjá honum Sónötur fyrir fiðlu og píanó þegar árið 1979 er Lindberg var 21 árs gamall, en þá sat hann sjálfur við píanóið sem er hljóðfæri hans.

Tónlistargagnrýnandinn Mats Liljeroos ber hann beinlínis saman við Sibelius. "Það er áberandi hve margt er líkt með þeim. Báðir hófu feril sinn í takt við evrópska straum og stefnur sinnar samtíðar, báðir gáfu sér góðan tíma til þess að skapa sér persónulegan stíl sem setur mark sitt á tónverk þeirra, báðir eru þeir menn mikilla hljómsveitarverka og á beggja dögum var finnska þjóðin sem fer sínar eigin leiðir furðu fljót að átta sig á hvílíka snillinga hún hafði eignast."

Magnus Lindberg