Helga Guðrún Þórðardóttir Helga amma er dáin. Hún dó á hæglátan og hljóðlausan hátt í samræmi við líf sitt. Okkur systurnar langar að minnast hennar þar sem hún var órjúfanlegur hluti af tilveru okkar systkinanna. Hún bjó í sama húsi og átti sinn þátt í að móta lífsviðhorf okkar í uppvextinum. Að alast upp með henni gaf okkur innsýn og tengsl inn í liðna tíð. Hún var hluti af kynslóð sem er að hverfa, þar sem í mörgu ríkti annað gildismat og viðhorf til lífsins en nú.

Hún talaði ekki mikið um fortíðina og framtíðin olli henni oft á tíðum kvíða. Heimur hennar afmarkaðist af heimilinu og garðinum og þar sem við vorum innan þess svæðis gætti hún okkar eins og sjáaldurs augna sinna.

Amma var smávaxin og létt á sér, með dökk augu, húð og hár. Hún lifði látlausu lífi og barst ekki á. Hún sagði að það væri góðsemin og trúin á guð sem gæfu gott líf.

Hún vaknaði alltaf eldsnemma og oft vöknuðum við systkinin við að hún var komin á stjá með tusku og kúst, raulandi sálma fyrir munni sér. Þegar verkunum var lokið dvaldi hún oftast í eldhúsinu, settist niður með prjóna, því hún átti stóran hóp barnabarna, sem þurftu sokka og vettlinga. Kaffið sauð á könnunni, kleinur voru í boxi og kandís í skál. Allt til reiðu ef einhver liti inn og fengi sér sopa.

En á sunnudögum klingdi ekki í prjónunum, því þá var farið til kirkju. Amma var kirkjurækin, trúði skilyrðislaust á guð og mátt bænarinnar og þurfti ekki að spyrja neinna spurninga þar að lútandi. Þegar heim var komið að lokinni messuferð, var tekin upp fínni handavinna, útsaumur eða hekl. Frá unga aldri hrifumst við systurnar af hannyrðum og hún kenndi okkur snemma að prjóna. Við sátum oft með prjónana og reyndum að láta klingja í þeim að hætti ömmu. Því aðgerðarlaus skyldi enginn vera.

Amma naut eins öðru fremur: Að sitja í blessaðri sólinni. Þá gat hún setið tímunum saman aðgerðarlaus og notið hitans, enda var enginn eins fljótur að verða brúnn og hún. Og þegar sólin fór að lækka á lofti hvarf hún undir skugga trjánna og hlúði að garðinum.

Hún var gift góðum manni, honum Kristjáni afa, sem sá vel um hana. Þegar hans naut ekki lengur við, tók mamma okkar við. Hjá henni naut hún sama öryggis og setti allt sitt traust á hana. Það var því erfitt fyrir þær báðar þegar amma þurfti fyrir tveimur árum að flytja af heimili sínu á Hjúkrunarheimilið Eir.

Það var svo að kvöldi 18. janúar að hún kvaddi þennan heim með móður okkar sér við hlið, örugg og róleg. Við munum sakna ömmu og biðjum guð að passa vel upp á hana þar sem hún dvelst núna. Megi hún hvíla í friði.

Ásgerður, Kristín og Helga.