Jóhanna Kristín Einarsdóttir "Þegar þú ert sorgmæddur, skoðaðu þá aftur huga þinn, og

þú munt sjá, að þú grætur vegna þess, sem var gleði þín. (Kahlil Gibran.)

Elsku langamma okkar, minningarnar sem við eigum um þig og okkar stundir með þér eru svo margar að ekki er hægt að koma þeim fyrir hér í einni lítilli grein. En ætli bestu minningarnar séu ekki bara þær þegar þú settist niður með okkur og talaðir við okkur í einrúmi um lífið og tilveruna. Alla tíð hefur verið svo indælt að leita til þín eftir svörum við spurningum sem maður hefur verið í vafa um. Þú komst alltaf með réttu svörin því þú sagðir bara það sem þér fannst, hvort sem það var gott eða slæmt.

En langamma, við vitum að hvíldin var það besta sem þú gast fengið, það var svo erfitt og óréttlátt að sjá þig fara á þennan hátt. Það er nú samt gott að vita að þú þurfir ekki að þjást lengur og við vitum öll að Guð tekur þér opnum örmum. Einnig viljum við trúa því að við eigum eftir að sjást aftur því að allt líf tekur að sjálfsögðu enda en spurningin er, hvað gerist þá?

Svo veistu það, langamma, að okkur þykir vænt um þig. Hvíl þú í friði.

Elsku langafi, amma, Hörður, mamma og aðrir aðstandendur, Guð gefi ykkur styrk til að taka á þessari miklu sorg.

Þín langömmubörn,

Elmar og Hilma.