Jóhanna Kristín Einarsdóttir Hún amma mín er dáin. Hún er búin að vera svo lengi lasin. Það rennur svo margt í gegnum hugann, að mér finnst eins og allt ætli að springa. Ég þekki lítið annað en að vita af henni heima hjá mér eða með mér. Hún var ekki bara amma mín, hún var vinkona mín líka. Það var ekkert kynslóðabil í hennar húsum, hún kunni að hlusta, gefa ráð og sagði hlutina umbúðalaust. Hún hafði svo heilbrigða hugsun.

Þegar eitthvað var að þá endaði hún oft á að segja "þetta fylgir víst lífinu". Heimilið hennar var hennar vinnustaður og bar það vott um myndarskap og dugnað, amma gerði allt svo vel. Matseld var hennar sérgrein.

Ömmu fannst gaman að ferðast. Ég naut þeirra forréttinda að fara oft með ömmu og afa í ferðalög norður í land, undir Eyjafjöll, hringinn í kringum landið og austur í Flóa. Þau voru dugleg að fara um landið sitt. Það var mjög fróðlegt því þau vissu um alla hóla og hæðir, þekktu víða til fólks á bæjum, þau áttu skyldfólk víða um landið.

Ættfræðin var ömmu hugleikin.

Þegar ég svo sjálf eignaðist fjölskyldu var hjálpsemin ekki langt undan, góðu húsráðin, líta eftir krökkunum smástund eða eins og maður sagði, "amma, má ég geyma hann hjá þér í smástund?" Það var alltaf auðsótt.

Þegar eitthvað stóð til, var amma alltaf full tilhlökkunar. Sérstaklega var gaman að fara með henni í jólainnkaupaleiðangur, fjölskyldan var orðin svo stór, engum mátti gleyma. Í þessum leiðöngrum var oft farið á kaffihús eða út að borða og í heimsókn til ættingja eða vinkvenna.

Ég lærði svo margt af þér, það er svo margs að minnast, það er mér svo dýrmætt. Ég vil þakka þér, elsku amma mín, það sem þú hefur gert fyrir mig og vona að ég hafi getað launað þér það á einhvern hátt. Ég vil þakka mömmu minni og afa fyrir hvað þau voru dugleg að gera það sem gera þurfti.

Ég bið guð að styrkja ykkur í sorginni.

Hin langa þraut er liðin,

nú loksins hlaustu friðinn,

og allt er orðið rótt,

nú sæll er sigur unninn

og sólin björt upp runnin

á bak við dimma dauðans nótt.

Fyrst sigur sá er fenginn,

fyrst sorgar þraut er gengin,

hvað getur grætt oss þá?

Oss þykir þungt að skilja,

en það er Guðs að vilja,

og gott er allt, sem Guði er frá.

Nú héðan lík skal hefja,

ei hér má lengur tefja

í dauðans dimmum val.

Úr innri harms og hryggða

til helgra ljóssins byggða

far vel í Guðs þíns gleðisal!

(V. Briem)

Jóhanna Kristín Maríusdóttir.