Páll Ásmundsson Kynni mín og Palla hófust 1989 þegar ég kynntist Gumma, ömmubarni Maríu, sambýliskonu hans. Strax í upphafi tóku Palli og María vel á móti mér og vildu allt fyrir mig gera. Palli minnti mig mikið á afa mína sem ég missti mjög ung. Hann var eini afinn sem Gummi maðurinn minn kynntist og var fyrirmyndin sem hann leit upp til. Reyndust þeir hvor öðrum mjög vel, sérstaklega þegar á þurfti að halda.

Mér er enn þann dag í dag mjög minnisstætt þegar ég fór í mínar fyrstu heimsóknir með Gumma á Grundarstíginn. Reyndar urðu þær heimsóknir ekki eins margar og ég hefði viljað, en urðu þeim mun fleiri á Grund eftir að hann fluttist þangað 1992.

Það voru stoltir foreldrar sem komu með frumburðinn sinn, hann Böðvar, á Grundina tæpum mánuði eftir fæðingu hans 1993. Ekki var Palli síður stoltur langafi þar sem hann gekk um gólfið með sveininn og raulaði fyrir hann. Ekki var Palli síður stoltur rúmu ári síðar þegar við komum með yngri drenginn, Magnús, einnig í heimsókn. En alltaf vildi Palli fá drengina í fangið og ganga með þá um gólf og raula fyrir þá hvort sem þeir voru rólegir og góðir eða órólegir. Oftast voru þeir þó rólegir og góðir og ætíð var Palli undrandi á hvernig við fórum að því að hafa þá svona góða. Var jafnvel svekktur af því hann gæti ekki notað nógu oft á þá "töfraþulurnar" sínar til að róa þá niður. Ósjaldan voru til einhverjir molar í skúffunni hjá Palla þegar ormarnir komu við eftir að þeir eltust og voru það glaðir snáðar sem tóku við þeim og settust á rúmið hans afa og borðuðu þá, eða bara skoðuðu sig um í herberginu hans.

Það verður erfitt að skýra út fyrir ungu sveinunum að Palli afi sé núna dáinn og farinn til himna. Þeir voru þó það heppnir að fá að kynnast langafa sínum því alltaf reyndum við að koma því við að heimsækja Palla og Maríu a.m.k. hálfsmánaðarlega svo þau gætu kynnst drengjunum báðum og ekki síst að drengirnir fengju að kynnast þeim. Mínar heimsóknir til þeirra í vetur urðu færri en ég hefði viljað, ástæðan var að ég notaði tímann meðan feðgarnir voru úti til að læra fyrir skólann. Palli var mjög áhugasamur um það sem ég var að gera og ætíð fékk ég kveðjur frá honum, þó svo ég sæi mér ekki alltaf fært að fara í heimsókn með köllunum mínum. Eldri sonur minn var duglegur að flytja mér kveðjurnar og segja fréttir af langafa sínum og langömmu.

Það var erfið heimsókn sem við áttum til hans á laugardaginn var. Þá sáum við að hverju stefndi en við vitum að hann er hvíldinni feginn en samt er erfitt til þess að hugsa að við eigum ekki eftir að sjá hann oftar. Það verður eflaust erfitt fyrir Maríu næstu vikurnar því núna er hún búin að missa tvo menn frá sér en fær ekki að njóta hvíldarinnar sjálf sem hún biður þó alltaf um í hvert skipti sem við komum í heimsókn. Hún gerði sér þó grein fyrir því þegar við fórum með hana í heimsókn til Palla á laugardaginn að stutt væri eftir af hans jarðlífi og talaði um það við hann og sagðist mundu vonandi koma fljótt til hans.

Elsku Palli, við þökkum þér fyrir alla þá hlýju og ánægju sem þú hefur veitt okkur í gegnum árin, við munum sakna þín mikið og heimsóknanna til þín á Grundina, minningarnar munu greipast í huga okkar og ætíð dvelja þar. Þú sagðir okkur oft sögur af ferðum þínum til ókunnra landa hér áður fyrr þegar þú varst á sjónum. Við lítum svo á að nú sé komið að enn einni ferðinni þinni og væntanlega segir þú okkur frá henni þegar við komum til þín seinna. Því segjum við núna góða ferð og sjáumst síðar.

Arndís, Guðmundur,

Böðvar og Magnús.