Páll Ásmundsson Pípulykt og karamellur er það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar ég hugsa til baka, en Palli átti alltaf til stóran poka fullan af dýrindis karamellum þegar ég kom í heimsókn. Hann var alltaf góður við okkur krakkana og vildi allt fyrir okkur gera. Það var fyrir tilstilli Palla að ég byrjaði ungur að vinna fyrir mér á sumrin. Fyrst kom hann mér í vinnu sem sendill á Alþýðublaðinu og síðan vann ég nokkur sumur með honum í timbrinu hjá Slippnum. Það var því ekki síst honum að þakka að ég lærði fljótt að það þarf að hafa fyrir hlutunum.

Umræður um stjórnmál voru aldrei langt undan þegar Palli var annars vegar, því hann hafði mjög ákveðnar skoðanir á þeim. Hann fór ekki dult með skoðanir sínar og strax á unga aldri fékk ég mikla og góða fræðslu um helstu afkima stjórnmálanna. Af Palla lærði ég þá stóru lexíu að maður á að hafa skoðanir á hlutunum.

Gummi.