Viktoría Hafdís Valdimarsdóttir Hinn 21. desember fékk ég harmþrungnasta símtal ævi minnar, þá staddur úti á sjó, er fósturfaðir minn tilkynnti mér að móðir mín væri látin. Mín fyrstu viðbrögð voru reiði og beiskja og ég útilokaði veruleikann með því að líta á fréttina sem draum. Óumflýjanlegur ískaldur veruleikinn birtist mér og mínum nánustu í ýmsum myndum og mörkuðu ný og þung spor í lífsreynslu okkar.

Nú þegar minningarnar hellast yfir mann gerir maður sér grein fyrir því hversu náin við vorum í harðri lífsbaráttunni framan af.

Nú seinni hluta ævinnar höfðum við litið lífið bjartari augum og allt gengið til betri vegar. Inn í líf okkar kemur yndislegur og skilningsríkur stjúpfaðir minn, Rúnar Þór Björgvinsson, sem reyndist okkur bræðrunum vel, sællar minningar. Þau eignuðust yndislega dóttur sem gaf þeim mikla lífsfyllingu og allar vonir um bjarta framtíð voru að rætast.

Við mamma vorum ekki bara mæðgin, við vorum líka miklir trúnaðarvinir. Þegar við vorum að ræða saman um lífið og tilveruna gleymdum við stað og stund. Hún reyndist ástkærri eiginkonu minni, Ágústu Ingu, ómetanleg tengdamóðir og dóttur okkar Alexöndru Marý yndisleg amma.

Mamma var mikil hagleikskona og voru fá verkefnin sem hún leysti ekki af hendi með ágætum og nutu margir góðs af.

Mamma, nú skil ég hversu tengsl okkar hafa verið djúpstæð, því orð fá því ekki lýst hversu söknuður minn er mikill. Mamma, ég er stoltur af því að hafa notið samvista þinna. Mamma, ég skil ekki hvers vegna þú ert farin.

Mamma, ég bið Guð að vera þér náðugur.

Guð gefi mér æðruleysi

til að sætta mig við það

sem ég fæ ekki breytt,

kjark til að breyta því sem ég get breytt

og vit til greina þar á milli.

Þinn sonur,

Haukur Guðberg Einarsson.