Yngvi Þór Einarsson Nú kallið er komið, og við sem sitjum eftir lútum höfði í söknuði yfir því sem áður var. Í mínum huga er afi farinn heim en minninguna um hann eigum við eftir og getum yljað okkur við hana og lært af lífsgöngu hans. Síðustu árin var farið að draga úr hans líkamlega þreki. Gafst þá meiri tíma til samræðna. Afi hafði skoðanir á mönnum og málefnum og voru þær fastmótaðar og óhagganlegar hvort sem okkur líkaði betur eða verr, því vel fylgdist hann með því sem gerðist í fréttum.

Afi var einn af þeim mönnum sem ekki eru mikið gefnir fyrir að biðja aðra um hjálp og reyndi hann því að gera allt sjálfur eins lengi og honum var unnt. Afi kunni vel að meta fallegan einsöng og af ljóðum hafði hann einnig gaman. Það voru ófá skiptin þegar komið var við hjá afa og ömmu í Birkihlíð að við fengum að hlusta á fallegan söng eða að hann las úr bók eða athyglisverða grein sem hann hafði rekist á og var mikið að hugsa um og vildi heyra álit okkar á. Ekki má gleyma því að ófáar stundirnar sat hann við taflmennsku og kenndi hann drengjunum okkar meðal annars sín fyrstu spor í taflmennskunni og var alltaf reiðubúinn að leiðbeina þeim. Afa var það umhugað að fara vel með alla hluti og bar umgengni hans vott um snyrtimennsku og virðingu fyrir bæði sínum og annarra eignum. Fyrir skömmu bað ég ömmu um að hjálpa mér að sauma gluggatjöld og voru þau hjónin mætt hér upp úr hádegi. Varð afa þá litið upp í skáp og kom auga á gamla silfurhluti sem honum þóttu ekki nógu vel fægðir. Bað hann því um klút og fægilög og eyddi löngum tíma í að fægja þangað til hlutirnir höfðu fengið þann gljáa að þeir gætu notið sín. Þessi minning er mér mjög dýrmæt.

Afi sagði mér eitt sinn að betri eiginkonu hefði hann ekki getað eignast, og, elsku amma mín, þar var ég honum hjartanlega sammála. Þú hefur alltaf staðið eins og klettur honum við hlið hvernig sem vindar blésu í lífi ykkar.

Ég þakka Guði fyrir þá fullvissu sem býr í hjarta mér að hann dvelur í örmum Drottins og þegar okkar tími kemur munum við hittast á ný fjarri hryggð og tárum, erfiðleikum og eymd.

Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.

Á grænum grundum lætur hann mig hvílast,

leiðir mig að vötnum, þar sem ég má næðis njóta.

Hann hressir sál mína,

leiðir mig um rétta vegu fyrir sakir nafns síns.

Jafnvel þótt ég fari um dimman dal,

óttast ég ekkert illt, því þú ert hjá mér,

sproti þinn og stafur hugga mig.

Þú býrð mér borð frammi fyrir fjendum mínum;

þú smyrð höfuð mitt með olíu;

bikar minn er barmafullur.

Já gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga mína,

og í húsi Drottins bý ég langa ævi.

(Davíðssálmur 23)

Valgerður M. Magnúsdóttir.