Yngvi Þór Einarsson Kallið er komið, komin er nú stundin, vinaskilnaðar viðkvæm stund. Vinirnir kveðja vininn sinn látna, er sefur hér hinn síðsta blund. (V. Briem.) Á morgun, mánudaginn 27. verður til moldar borinn frá Bústaðakirkju tengdafaðir minn Yngvi Þór Einarsson bifreiðastjóri. Ég hitti Yngva fyrst fyrir um tuttugu árum, þegar ég mægðist inn í fjölskylduna, í stuttri heimsókn í Svíþjóð þar sem hann bjó og starfaði þá. Það var ekki fyrr en fyrir um tólf árum er fjölskylda mín flutti alfarið til Reykjavíkur að ég fór að kynnast Yngva betur. Yngvi gat verið hranalegur í tali en ávallt var stutt í kímni og stríðni. Oft naut hann þess að etja fólki saman til kappræðna og hélt hann þá uppi skoðunum, sem í raun voru ekki hans sannfæring. En undir hrjúfri skel leyndist gott hjarta. Ef eitthvað bjátaði á var hann fyrsti maður sem bauð fram aðstoð sína og þá var ekkert til sparað.

Í umræðum okkar var gjarnan talað um bíla enda lengst af hans starfsvettvangur þeim tengdur. Silungsveiðar heilluðu Yngva og fór hann gjarnan í slíkar veiðiferðir. Einnig hafði hann gaman af lestri og ljóð voru í uppáhaldi og vitnaði hann gjarnan í þau við ýmis tækifæri. Það áhugamál Yngva sem heillaði hann mest var manntafl. Eitthvað tefldi hann við starfsfélaga sína á bílastöðvunum, en fyrir nokkrum árum var honum gefin skáktölva og sat hann löngum yfir henni í flóknum skákum. Oft var mér skemmt þegar Yngvi var að tefla við tölvuna, því hann ræddi við hana sem mennskan mann, skammaði hana fyrir ranga leiki, að hans mati og svo ég ekki tali um, þegar hann tapaði illa, þá fékk tölvan það óþvegið.

Fyrir nokkrum árum greindist hjartasjúkdómur hjá Yngva og fór hann í nokkrar aðgerðir þar að lútandi. Fyrir mann sem aldrei féll verk úr hendi er slíkur dómur þungur. Ég er sannfærður um að oft hafi þrautir og vanlíðan vegna þessa sjúkdóms verið meiri en látið var uppi því Yngvi var ekki mikið að flíka sínum tilfinningum. Nú ert þú farinn yfir landamærin og við sem eftir sitjum hugsum til þín með söknuði þar til leiðir mætast á ný.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(V. Briem.)

Sævar.