GERSEMAR ÍTALSKA SKÓKASSANS EFTIR ÁSGEIR BEINTEINSSON Allslaus gengu þau Kristín og Choulou út í skipið sem flutti þau út í heim.

GERSEMAR ÍTALSKA SKÓKASSANS EFTIR ÁSGEIR BEINTEINSSON Allslaus gengu þau Kristín og Choulou út í skipið sem flutti þau út í heim. Á brottfararstundu liggja ljósmyndirnar hans Choullou í bastkistu ásamt persónulegum munum þeirra hjóna á geymslulofti á Vesturgötu 26B. Þær lágu þar óhreyfðar til 1972 að húsið var selt.

AÐ ER haust á landinu gráa, við vitum ekki hvernig veðrið er en við vitum þó að það er rigning og dumbungur í sálum hjónanna sem standa á hafnarbakkanum í Reykjavík árið 1923. Hann er fjallmyndarlegur vel klæddur með skegg á efri vör og höku, það er snúið upp á skeggið á efri vörinni sem er vaxborið, nefið er rétt lagað og augun rétt staðsett undir dökklituðum brúnum en andlitið allt milt og frítt. Hann er í síðum frakka með þykkum loðkraga, pressaðar ullarbuxurnar sitja rétt á vel pússuðum svörtum leðurskónum. Það sjá allir að þetta er ekki íslenskur maður vegna heimsborgaralegs klæðnaðarins, hörundslitarins og líkamsstöðunnar. Nærstaddir vita hvaða maður þetta er og hvers vegna hann er að fara.

Maðurinn heldur fast utan um svarta silkihanska í vinstri hendinni. Hægri hendinni hefur hann gripið um upphandlegg ungrar konu sinnar. Hann er fimmtugur næstum því upp á dag en hún er tuttugu og sex ára. Hún er ung næstum of ung til að yfirgefa land sitt. Hún er líka í þykkri kápu sem hneppt er upp á vinstri öxlina. Um hálsinn hefur hún vafið refaskinni með haus og hala. Hárið er greitt slétt niður að eyrum en þar hefur það verið túberað, þannig að framan frá séð myndar það létta dúska. Hún hefur bjart andlit en augun sitja djúpt undir eilítið útstæðum en réttlöguðum og láréttum brúnum þannig að það myndast oft skuggi yfir augum hennar en unga konan er ávallt glaðleg, það er eðli hennar. Skuggar hafa ekki verið í lífi þessarar konu, það er fyrst núna að skuggar taka að lengjast og liggja þvert yfir vegferð hennar. Þau horfa bæði heim að Hafnarstræti 17 sem hafði verið heimili þeirra í tvö ár en heimili og vinnustaður eiginmanns hennar í tólf ár.

Ernest Chouillou, sem fæddur var á Signubökkum nálægt Rouen, flutti hingað til Reykjavíkur árið 1909 ásamt konu sinni Marie fæddri í Nice í suður Frakklandi og 1911 stofnaði hann útibú frá hinu alþjóðalega franska flutningafyrirtæki Mory & C.ie. Það ár kaupir hann húsið Hafnarstræti 17 af Thomsens magasín ásamt geymsluhúsum norðan þess og helming af bryggjunni sem var niður af Kolasundi.

Mory & C.ie var stofnað 1804 og var með tvö útibú í París, eitt í Rouen, Marseille, Dieppe, Brussell, London, Manchester og Folkestone m.a. þegar útibúið var stofnsett 1911 í Reykjavík. Höfuðstöðvar fyrirtækisins voru í Boulogne við Ermarsundið. Fyrirtækið var flutninga- og útgerðarfyrirtæki sem flutti aðallega kol og grjót en virðist einnig hafa verið í öðrum verslunarrekstri eins og sést af umsvifum þess hér á landi. Fyrirtækið flutti m.a. inn bíla af Unic gerð og má sjá auglýsingar í blöðum frá þeim tíma.

Til marks um umsvifin má geta þess að á árunum 1911 og fram til 1915 þá greiðir Chouillou samtals 4.900 kr í útsvar, Edinborgarverslun 7.500 kr en Thomsens magasín einungis 1.780 kr. Reyndar var rekstri Thomsens magasíns alveg hætt vegna tengsla þess við Þýskaland í fyrra stríði. Miðað við niðurjöfnunarskrá má ætla að umfang rekstrarins hjá Chouillou hafi verið svipaður til ársins 1922 en það ár greiðir Chouillou 1.200 kr í útsvar en 1923 einungis 250 kr og 1924 var útsvar upp á kr 550 fellt niður. Frá 1901 til 1920 fjölgar íbúum Reykjavíkur um tæplega 11 þúsund úr 6.682 í 17.679. Það er því ljóst að þetta voru miklir uppgangstímar og miklar breytingar á öllum sviðum. Reykjavík verður 1910 miðstöð inn- og útflutnings fyrir allt landið. Verslunin kemst í eigu innlendra aðila eða einstaklinga sem eru búsettir á landinu á þessum tíma.

Mory & C.ie þjónustaði aðallega frönsk fiskveiðiskip þó að viðskipti við Íslendinga hafi einnig verið nokkur. Sú staðreynd að sett voru lög í landinu sem bönnuðu að umferma fisk innan landhelginnar 21. apríl 1922 gerði það að verkum að frönsk fiskiskip hættu hér veiðum smátt og smátt þar sem hagnaðurinn af veiðunum minnkaði við það. Sumir þraukuðu til vertíðarloka 1935 segir í bókinni Yves frændi á bls 206. Þjónustan við frönsku fiskiskipin var undirstaða rekstrar Mory og C.ie og því sjálfhætt þó að það væri beiskur bikar hjónunum sem biðu þess að komast um borð í skipið sem átti að flytja þau frá landinu sem þau unnu bæði.

Unga konan 26 ára hét Kristín Valgerður, dóttir Ólafs Eiríkssonar frá Hrosshaga í Biskupstungum, söðlasmiðs í Reykjavík og Theodóru Guðrúnar Þorkelsdóttur frá Ormsstöðum í Grímsnesi. Kristín tók nafn eiginmanns síns er þau gengu í hjónaband 1922 og var síðan kölluð Kristín Chouillou. Kristín lauk stúdentsprófi 1916 en stundaði jafnframt nám í píanóleik hjá Herdísi Matthíasdóttur. Um Kristínu segir Bjarni Guðmundsson í minningarorðum sem birtust í Morgunblaðinu laugardaginn 13. desember 1951:

Frú Kristín var kvenna fríðust sýnum, gáfuleg og fjörleg í fasi, glaðvær og söngvin. Hafði hún snemma yfir sér annað fas og meira en við hefði mátt búast af stúlku frá slíkum smábæ sem Reykjavík var þá. Auk þess hafði hún til að bera "charme" í óvenjulega ríkum mæli. Hefði legið nærri fyrir hana að ganga tónlistarbrautina, en í þá átt virtust allir hæfileikar hennar hníga enda þótt hún hefði einnig yndi af upplestri og leiklist.

Eftir stúdentspróf dvaldi Kristín í Kaupmannahöfn um tíma hjá bróður sínum en síðan við píanónám í París, hún hafði því litið háreistar hallir handan hafsins og kannski var það þess vegna sem hún dróst að hinu erlenda glæsimenni, hallarbúa sem gat veitt henni allt sem hugurinn girntist. Ekki er ólíklegt að eðlislæg hjartahlýja og lífsgleði hennar hafi sefað sorg hans en eiginkona hans Marie lést langt um aldur fram árið 1920.

Chouillou hafði fengið hina ungu og hæfileikaríku konu í vinnu til sín sennilega um það leyti sem konan hans lést. Kristín hafði numið erlend tungumál í Menntaskólanum og bætt við það nám í Frakklandi þannig að það var fengur fyrir Chouillou sem átti í viðskiptum við marga erlenda aðila að fá hana í vinnu. Chouillou gerði hins vegar aldrei tilraun til að reyna að læra íslensku. Starfsferill hennar varð skammur því að sem eiginkona Chouillou þótti ekki við hæfi að hún ynni í versluninni. Hún sneri sér að frúarhlutverki sínu. Hafði þjónustustúlku til að vinna heimilisverkin og gat því sjálf verið spariklædd alla daga og sat oft við flygilinn í stofunni, flygil barónsins á Hvítárvöllum sem Chouillou hafði keypt og lék Chopin af mikilli list. List hennar var svo mikil að í hvert sinn sem Chopin er leikinn finnst tveimur stúlkum sem nú eru á níræðisaldri að Kristín sé að leika. þær gætu hafa verið á hafnarbakkanum þennan örlagaríka dag fyrir 73 árum.

Chouillou var yfirstéttarmaður bæði til orðs og æðis, naut frítíma síns til hins ítrasta hélt glæsilegar veislur með mat og drykk að frönskum sið. Hann ferðaðist um landið fyrst á hestum með eiginkonu sinni Marie en síðar á Unic bílnum sínum ásamt Kristínu og stundaði áhugamál sitt sem var ljósmyndun.

Ekki er ljóst hvar Chouillou hafði aðstöðu til að framkalla og kópera myndirnar sínar en ekki er ólíklegt að aðstaðan hafi verið á fyrstu hæðinni inn af versluninni í Hafnarstræti 17. Ein ljósmynd er til af honum þar sem hann er að klippa og snyrta myndir sínar og er niðursokkin í iðju sína. Sumar mynda hans bera þess merki að um tilraunir áhugamanns er að ræða en aðrar sýna næmt auga fyrir myndefni og myndbyggingu. Myndefnið var margvíslegt. Auk þess að taka hefðbundnar myndir af landslagi, fjölskyldu sinni og konu sinni þá myndaði hann skip og báta á höfninni, vinnubrögð við uppskipun kola og atburði í bæjarlífinu.

Myndirnar eru sennilega flestar teknar á árunum 1911 til 1914, það er frá þeim tíma að verslunarrekstur hefst og þangað til að hann fer til Frakklands að verja land sitt. Allmargar myndir eru einnig frá lokum stríðsins og til 1923.

Allir eiga að fara um borð. Síðasti farangur farþeganna svífur yfir höfðum þeirra og sveiflast upp á þilfarið. Sterklegur maður með belgmikinn sixpensara gefur bendingar með hægri hendinni. Hann veit hvað gerist næst en þau vita það ekki. Chouillou stingur silkihönskunum í vasana og grípur ákveðnum höndum um kaðalinn sitt hvorum megin á landganginum, hann lítur ekki við, hér ætlaði hann að búa sér framtíð en hún er að engu orðin. Hann tekur stór og ákveðin skref. Kristín gengur hikandi en snýr svo við, ekki til að líta heim að Hafnarstrætinu heldur til að festa andlit systkina sinna og foreldra betur í minni sem standa þar ásamt tveimur ungum stúlkum með matrósahúfur í tvíhnepptum kápum, þær eru systurdætur Kristínar. Stúlkurnar hlæja og hoppa, þær eru að kveðja uppáhaldsfrænku sína og mann hennar sem hafði ekið með þær ótal sinnum í bílnum sínum. Bros systkinanna er blandið kvíða. Kvíðinn er ekki ástæðulaus því að það liðu tíu ár áður en þau sáu hana aftur. Hann kom ekki aftur til landsins.

Á brottfararstundu liggja ljósmyndirnar hans Choullou í bastkistu ásamt persónulegum munum þeirra hjóna á geymslulofti á Vesturgötu 26B. Í um það bil 10 ár lágu þessir munir óhreyfðir en vitað er að húsmunir sem verið höfðu í geymslu hjá Zöega voru seldir á uppboði árið 1933. Ekki er ólíklegt að smærri hlutir, svo sem borðbúnaður og skrautmunir hafi þá komist í eigu fjölskyldu Kristínar Chouillou en þeir eru stásshlutir enn í dag .

Menn höfðu ekki áhuga fyrir myndunum svo að þær lágu óhreyfðar til ársins 1972 að húsið Vesturgata 26B var selt úr fjölskyldunni. Mikill asi var á fólki við að tæma geymsluloftið. Sagt var að ljósmyndir hefðu flogið um nágrennið. Hippar fengu að hirða þá hluti sem tekið höfðu stefnu á haugana, þar á meðal stóra bastkistu klædda lökkuðum segldúk. Kistan stóð síðar á leðurverkstæði á Skólavörðustígnum langt fram á níunda áratuginn og var höfð fyrir sýningarstand.

Stúlkurnar með matrósahúfurnar voru komnar á efri ár, þær tóku myndirnar til handargagns, þær þekktu merkingu þeirra og mikilvægi. Það var samt talið að filmum og ljósmyndaplötum ásamt mörgum myndum hefði verið hent. Annað hefur komið í ljós. Varðveist hefur forláta ljósmyndaalbúm úr brúnu leðri með myndum af franskri fjölskyldu Chouillou, en mér áskotnaðist það í kringum 1980 sem gjöf frá annarri matrósastúlkunni, ömmu minni. Árið 1990 fékk ég svo myndasafn frá henni sem Chouillou hafði skipulagt sjálfur og var það fengið Þjóðminjasafni Íslands til varðveislu. 1994 mundi yngri matrósastúlkan eftir skókassa sem var fullur af myndum en hann hafði verið notaður sem ílát undir myndirnar 1972. Þessar myndir hef ég nú nýlega skoðað vandlega og flokkað. Í því safni eru nokkrar áhugaverðar myndir sem birtast hér á síðunni.

Allslaus gengu þau út í skipið sem flutti þau út í heim. Kristín var óþreytandi að skrifa systrum sínum bréf en ekkert af þeim bréfum hefur varðveist. Ein minning er þó til úr einu bréfi, það er frá þeim tíma er þau hjón dvöldust hjá ríkum ættingjum Chouillou á búgarði í Alsír. Ríkidæmið var slíkt að þar var borðað af silfurdiskum.

Chouillou lést 75 ára gamall árið 1948 en Kristín árið 1951 aðeins 54 ára gömul. Síðustu æviárin í Rouen hafa verið þeim erfið því að borgin varð fyrir miklum loftárásum Þjóðverja í stríðinu. Vitað er að Chouillou var svo farinn að heilsu á þeim árum að hann treysti sér ekki í loftvarnarbyrgi. Nokkru áður en Kristín lést hafði hún skrifað og boðað komu sína heim en hún lifði við sára fátækt í fjölbýlishúsi í Rouen. Ekki er talið ólíklegt að aðbúnaður hennar hafi dregið hana til dauða langt um aldur fram.

Myndirnar sem hér birtast hafa legið nánast ósnertar frá þeim örlagaríka degi sem lýst er hér í upphafi eða í 73 ár. Síðustu 24 árin lágu myndir Chouillou í skókassa undan ítölskum karlmannaskóm ofan á gráum silkipappír sem skórnir höfðu verið vafðir í.

Höfundur er aðstoðarskólastjóri.

ÍTALSKI skókassinn er ennþá til og myndirnar hefur hann geymt vel.

ERNEST Chouillou. Myndin var tekin hjá P. Brynjólfssyni í Reykjavík.

KRISTÍN Ólafsdóttir. Hún hafði dvalið í Kaupmannahöfn, stundað píanónám í París og þótti hrífandi stúlka.

Ljósmynd: Carl Ólafsson.

SAMLIGGJANDI stofur á heimili þeirra hjóna í Hafnarstræti, borðstofan næst.

CHOUILLOU til hægri á myndinni sitjandi á bryggjupolla á uppskipunarbryggju Mory & C.ie, beint framundan þar sem Svarta pannan er nú við Tryggvagötu.

OFAN við Bookles-bryggju í Hafnarfirði. Hér er landað kolum.

SKRIFSTOFA fyrirtækisins, Mory & C.ie í Hafnarstræti 17.

POURQUIS pas?, franska skipið sem fórst við Mýrar 1936. Myndin er tekin löngu áður, annaðhvort á árabilinu 1911-14 eða 1918-23.

CHOUILLOU við eftirlætis iðju sína sem var ljósmyndun. Hér snyrtir hann myndir með skærum heima hjá sér í Hafnarstræti 17.

"Frú Kristín var kvenna fríðust sýnum, gáfuleg og fjörleg í fasi, glaðvær og söngvin. Hafði hún snemma yfir sér annað fas og meira en við hefði mátt búast af stúlku frá slíkum smábæ sem Reykjavík var þá."